Hoppa yfir valmynd

Frétt

22. júní 2009 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra sækir utanríkisráðherrafund EFTA í Hamar

Undirritun í Hamar 22. júní 2009
Undirritun_i_Hamar_22_juni_2009

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sat í dag ráðherrafund Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) í Hamar í Noregi. Ráðherrarnir ræddu samskipti EFTA við Evrópusambandið (ESB) og við ýmis önnur ríki en EFTA-ríkin hafa lagt aukna áherslu á gerð fríverslunarsamninga með það að markmiði að búa viðskiptalífi í löndum sínum bestu samkeppnisskilyrði í alþjóðaviðskiptum sem völ er á.

Utanríkisráðherra gerði grein fyrir stöðu umræðna á Íslandi um hugsanlega aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu og gerði grein fyrir stöðu efnahagsmála og hvernig Íslendingar hygðust vinna sig út úr efnahagsvandanum. Ákveðið var að boða til auka ráðherrafundar EFTA ef til þess kæmi að Alþingi ákvæði að Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu.

Í tengslum við ráðherrafundinn var fríverslunarsamningur milli EFTA-ríkjanna og Samstarfsráðs Persaflóaríkja (Barein, Kúveit, Óman, Katar, Sádí-Arabía og Sameinuðu arabísku furstadæmin) undirritaður.

Ráðherrarnir lýstu ánægju með gildistöku fríverslunarsamnings EFTA-ríkjanna og Kanada hinn 1. júlí n.k. og með upphaf fríverslunarviðræðna við Úkraínu, Serbíu og Albaníu. Þá lýstu ráðherrarnir ánægju með að gerð fríverslunarsamnings EFTA-ríkjanna og Perú sé á lokastigi og með góðan gang í fríverslunarviðræðum við Indland.

Ákveðið var á fundinum að hefja fríverslunarviðræður við Hong Kong. Þá eru líkur á því að fríverslunarviðræður við Indónesíu hefjist fljótlega. Ráðherrarnir voru sammála um að undirbúa áfram fríverslunarviðræður við Rússland. Á fundinum var jafnframt ákveðið að kanna hagkvæmni þess að gera fríverslunarsamning við Víetnam.

Ráðherrarnir ræddu EES-samstarfið. Mikilvægar gerðir hafa verið teknar upp í samninginn s.s. um viðskipti með losunarheimildir, um þjónustuviðskipti, löggjöf á sviði matvæla og um Nýsköpunar- og tæknistofnun Evrópu.

Ráðherrarnir áttu einnig fundi með þingmanna- og ráðgjafarnefndum EFTA þar sem fram fóru skoðanaskipti um EFTA-samstarfið og EES-samninginn. Fulltrúar Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA voru Árni Þór Sigurðsson, formaður íslensku sendinefndarinnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Jónína Rós Guðmundsdóttir.

Ísland á fjóra fulltrúa í ráðgjafarnefnd EFTA sem koma frá samtökum launþega og atvinnurekenda, frá ASÍ, BSRB, Samtökum Atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og Verslunarráði Íslands.

Yfirlýsingu ráðherrafundarins er finna hér



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum