Hoppa yfir valmynd

Frétt

9. júlí 2009 Dómsmálaráðuneytið

Framkvæmd fyrsta íslenskuprófs fyrir umsækjendur um íslenskan ríkisborgararétt tókst vel

Alls tóku 206 umsækjendur um íslenskan ríkisborgararétt próf í íslensku í júní síðastliðnum.

Alls tóku 206 umsækjendur um íslenskan ríkisborgararétt próf í íslensku í júní síðastliðnum og eru flestir þeirra búsettir á höfuðborgarsvæðinu. Prófið var nú haldið í fyrsta sinn en 1. janúar síðastliðinn tók gildi það ákvæði í lögum um íslenskan ríkisborgararétt að umsækjandi skuli hafa staðist próf í íslensku. Prófað var bæði á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Fyrirhugað er að halda próf næst í lok þessa árs.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið samdi við Námsmatsstofnun um að sjá um framkvæmd prófanna, sem halda skal að jafnaði eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Í reglugerð um próf í íslensku nr. 1129/2008 er kveðið á um framkvæmd og efni íslenskuprófsins. Efnisþættir og þyngd íslenskuprófa miðast við lokamarkmið í námskrá menntamálaráðuneytis 2008 um grunnnám í íslensku fyrir útlendinga (240 stundir) að undanskildu markmiði um undirstöðuþekkingu á helstu siðum og venjum í íslensku samfélagi. Ákveðið var að prófa fjóra þætti íslenskunnar, lesskilning, hlustun, ritun og tal og að allir þættir hefðu sama vægi. Próf voru bæði skrifleg og munnleg. Af þeim 206 sem tóku prófið voru 12 einstaklingar sem ekki stóðust það og þau lágmarksskilyrði sem reglugerðin setur.

Í skýrslu sem Námsmatsstofnun gerði að loknum prófunum kemur fram að framkvæmdin hafi að flestu leyti tekist vel. Samning verkefna hafi gengið vel og virðist þyngd þeirra og innihald hafa verið við hæfi fyrir skimunarpróf, en prófinu sé fyrst og fremst ætlað að vera hjálpartæki fyrir umsækjendur en ekki erfitt síupróf eins og tíðkast í sumum löndum. Fram kemur að huga þurfi frekar að prófunum utan höfuðborgarsvæðisins þegar fyrir liggi hversu margir próftakar verði á hverjum stað.

Heimilt er að leggja inn umsókn um íslenskan ríkisborgararétt áður en gengist er undir íslenskupróf, en hún verður ekki tekin til endanlegrar afgreiðslu fyrr en niðurstöður úr prófum hafa borist ráðuneytinu. Ítarlegar upplýsingar um prófin í júní er að finna á vef Námsmatsstofnunar, www.namsmat.is.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum