Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. ágúst 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 14. ágúst


Mætt: Lára Björnsdóttir (LB) formaður, Garðar Hilmarsson (GH), tiln. af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Guðríður Ólafsdóttir (GÓ), tiln. af Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands, Guðrún Sigurjónsdóttir (GS) og Héðinn Unnsteinsson (HU), tiln. af heilbrigðisráðuneyti, Margrét Sæmundsdóttir (MS), tiln. af viðskiptaráðuneyti, Sigurrós Kristinsdóttir (SK) tiln. af Alþýðusambandi Íslands, Stefán Stefánsson (StSt), tiln. af menntamálaráðuneyti, Stella K. Víðisdóttir (SKV), tiln. af Reykjavíkurborg, og starfsmennirnir Þorbjörn Guðmundsson (ÞG) og Ingibjörg Broddadóttir (IB).

Gestir fundarins: Starfsfólk félags- og tryggingamálaráðuneytisins: Bolli Þór Bollason ráðuneytisstjóri, Kristrún Heimisdóttir, lögfræðilegur ráðgjafi, Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður ráðherra, og Margrét Erlendsdóttir deildarstjóri.

Formaður bauð gesti velkomna í upphafi fundar og nefndi að Margrét Erlendsdóttir myndi sitja fundi stýrihópsins af og til.

1. Fundargerð 13. fundar stýrihópsins

Fundargerðin var samþykkt.

2. Drög að stöðuskýrslu

Drög að stöðuskýrslu stýrihópsins voru lögð fram. Farið var yfir tillögur stýrihópsins og nokkrar athugasemdir gerðar sem tekið verður tillit til í lokaskjali. Drögin síðan samþykkt.

3. Innlegg frá ráðuneytisstjóra félags- og tryggingamálaráðuneytis

Bolli greindi frá því að mörg umfangsmikil mál væru í vinnslu í ráðuneytinu og væru stærstu verkefnin þessi:

  • Sameining Vinnumálastofnunar, Tryggingastofnunar ríkisins og Vinnueftirlitsins: Ráðuneytisstjóri stýrir nefndarstarfi í kringum þetta verk, starfsmaður hefur verið ráðinn sem leggur nefndinni lið ásamt utanaðkomandi ráðgjöfum. Stefnt er að því að ný löggjöf taki gildi 1. janúar 2010.
  • Endurskoðun laga um almannatryggingar: Verkið er unnið undir forystu Stefáns Ólafssonar og eru drög að skýrslu tilbúin. Áhersla er lögð á samráð við hagsmunaaðila og er gert ráð fyrir að frumvarp liggi fyrir á vorþingi 2010.
  • Endurskoðun á örorkumati: Gert er ráð fyrir að frumvarp liggi fyrir á vor- eða haustþingi 2010.
  • Flutningur málefna fatlaðra og málefna aldraðra til sveitarfélaga í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarinnar.

4. Endurmat á löggjöf og úrræðum fyrir skuldsett heimili

Kristrún Heimisdóttir er formaður nefndar félags- og tryggingamálaráðherra sem falið er að endurskoða löggjöf sem lýtur að úrræðum fyrir heimili og einstaklinga í greiðsluerfiðleikum, nefndin á einnig að leggja fram tillögur til að styrkja stöðu lántakenda á fjármálamarkaði. Kristrún fór í meginatriðum yfir verkefni nefndarinnar, greindi frá markmiðum sínum varðandi nefndarstarfið, meðal annars um samfélagssáttmála sem endurspegli sem næst sjónarhorn þjóðarinnar allrar, og lagði áherslu á víðtækt samstarf. Fulltrúar í stýrihópnum skiptust á skoðunum við Kristrúnu og bauð formaður hópsins um fjármál heimilanna henni á fund hópsins sem Kristrún þáði.

5. Önnur mál

  • Kynnt var vefslóð á aðgerðir í tengslum við Ár Evrópusambandsins gegn fátækt og félagslegri einangrun 2010 og rætt um aðild velferðarvaktarinnar að því starfi, einkum hópsins um þá sem standa höllum fæti. Félags- og tryggingamálaráðuneytið sér um þetta verkefni fyrir hönd íslenskra stjórnvalda.
  • Kynnt var ráðstefna um Velferð íslenskra barna á umbrotatímum, dags. 17. ágúst næstkomandi, en Stella K. Víðidóttir og Páll Ólafsson munu halda þar erindi fyrir hönd velferðarvaktarinnar.

Næsti fundur hópsins verður föstudaginn 28. ágúst 2009, kl. 13.15–15.15 hjá Eflingu, Sætúni 1, 3. hæð.

Fundargerð ritaði Ingibjörg Broddadóttir.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum