Hoppa yfir valmynd

Frétt

9. september 2009 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Óskað eftir áliti stofnana á tillögum um friðlýsingu Gjástykkis

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra á ferð um Gjástykki
Á ferð við Gjástykki

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra hefur óskað eftir áliti Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar á tillögum Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi um friðlýsingu Gjástykkis. Umhverfisráðherra skoðaði Gjástykki í liðinni viku í fylgd Árna Einarssonar, forstöðumanns Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn, og Bergþóru Kristjánsdóttur, starfsmanns Umhverfisstofnunar við Mývatn.

Í kjölfar þess að Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi (SUNN) sendu umhverfisráðherra tillögu þess efnis að hafinn verði undirbúningur að friðlýsingu Gjástykkis í Þingeyjarsýslu, hefur umhverfisráðherra óskað eftir áliti Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands á tillögunni. Náttúrufræðistofnun var beðin um að taka saman yfirlit um náttúrufar í Gjástykki, bera svæðið saman við önnur sambærileg svæði á landsvísu og meta verndargildi þess. Umhverfisstofnun hefur verið beðin um að taka saman upplýsingar um eignarhald á svæðinu. Þetta er gert í samræmi við 53. gr. náttúruverndarlaga, en þar segir að umhverfisráðherra geti að fengnum tillögum eða áliti þessara stofnana, friðlýst landsvæði, náttúrumyndanir, lífverur, búsvæði þeirra, vistgerðir og vistkerfi.

Umhverfisráðherra hefur einnig fengið senda stuðningsyfirlýsingu frá Landvernd við óskir SUNN. Í erindi SUNN segir m.a. að Gjástykki sé ásamt svæðinu í kringum Leirhnjúk vestan Kröflu sennilega það svæði í heiminum á þurru landi sem best sýni hvernig landreksflekarnir færast í sundur. Þá segir að þegar málefni Gjástykki eru skoðuð í víðu samhengi sé ljóst að verðmæti svæðisins sé afar mikið og í þeirri orku sem þar kann að vera tæknilega nýtanleg felist minnstur hluti þeirra verðmæta. Samtökin lýsa því andstöðu við rannsóknarboranir í Gjástykki.

Landsvirkjun hyggur á tilraunaboranir á svæðinu og hefur tilkynnt Skipulagsstofnun um framkvæmdina og ákvað Skipulagsstofnun hana matsskylda. Frummatsskýrsla í mati á umhverfisáhrifum er nú til meðferðar hjá stofnuninni.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum