Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. september 2009 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna

Össur Skarphéðinsson á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna
OS_a_allsherjartingi_ST

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra gerði fjármálakreppuna á Íslandi að umræðuefni á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í gær og lýsti meðal annars megnri óánægju íslenskra stjórnvalda með að óskyldar tvíhliða deilur milli þjóða tefðu framgang efnahagsáætlunar Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Utanríkisráðherra sagði jafnframt að Ísland hefði verið fyrsta landið sem varð fórnarlamb græðgi og óhófs fjármálajöfra sem hafi misnotað reglur, fylgt vafasömum vinnureglum, falið peninga í skattaparadísum og komið á ábyrgðarlausu kerfi bónusgreiðslna sem ýttu undir fífldirfsku umfram það sem heimurinn hefði áður séð.

Ráðherra sagði að á Íslandi hefði fjármálakreppan skilið eftir sviðna jörð og almenningur væri fullur reiði og sorgar. Hann hvatti til alþjóðlegrar samstöðu um að skattaskjólum yrði útrýmt.

Utanríkisráðherra sagði að þrátt fyrir fjármálakreppuna væru innviðir Íslands traustir, náttúruauðlindirnar, mannauðurinn og sterkt velferðarkerfi. Uppbyggingin væri þegar hafin og ráðherra lýsti einarðri trú á að Ísland bryti sér leið út úr erfiðleikunum.

Í ræðu sinni fjallaði utanríkisráðherra jafnframt ítarlega um loftslagsbreytingar. Hann kvað útslitaatriði að þjóðir heims sameinuðust um að ná bindandi samkomulagi um takmörkun gróðurhúsalofttegunda í Kaupmannahöfn í desember. Hann vitnaði til reynslu Íslendinga af jarðhita og hvatti til þess að þekking þeirra og annarra jarðhitaþjóða yrði nýtt í löndum Afríku, Suðaustur Asíu og rómönsku Ameríku þar sem miklir möguleikar væru á að nýta jarðhita til að draga úr útblæstri.

Ráðherra lagði til að sérstakur loftslagssjóður yrði settur á stofn á heimsvísu til að kosta yfirfærslu endurnýjanlegrar orkutækni til þróunarríkja til þess að gera þeim kleift að breyta orkukerfum sínum yfir á endurnýjanlegan grunn.

Utanríkisráðherra sagði jafnframt að sökum hinna gríðarlegu og öru breytinga á norðurslóðum vegna hlýnunar jarðar væru Norðurslóðamál nú eitt af helstu áherslumálum í utanríkisstefnu Íslands.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum