Hoppa yfir valmynd

Frétt

9. október 2009 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Fjölmennt Umhverfisþing hafið

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra setur Umhverfisþing.
Umhverfisþing 2009

Umhverfisþing hófst í morgun á Hótel Nordica í Reykjavík. Rúmlega 400 höfðu skráð sig til þátttöku á þinginu og það er því fjölmennasta Umhverfisþing sem haldið hefur verið. Sjálfbær þróun verður meginefni þingsins að þessu sinni. Lögð verður áhersla á virka þátttöku þinggesta og því verður efnt til umræðna í heimskaffistíl sem nýtast svo við gerð stefnumörkunar stjórnvalda um sjálfbæra þróun.

Lögð verður áhersla á þátttöku ungs fólks til að stuðla að umræðu milli kynslóðanna um framtíðarþróun Íslands. Fulltrúar nokkurra ungmennaráða sveitarfélaga taka þátt og Sigríður Ólafsdóttir og Unnsteinn Manuel Stefánsson, nemendur í Menntaskólanum við Hamrahlíð, ávörpuðu þingið í morgun.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra setti þingið með meðfylgjandi ávarpi.

Ræða umhverfisráðherra á Umhverfisþingi 2009

Góðir gestir.

Velkomin á 6. Umhverfisþing. Umhverfisþing eru haldin á tveggja ára fresti og eru gott tækifæri til að ræða í breiðum hópi um hvað hefur áunnist á sviði umhverfismála og hvert beri að stefna. Annað hvert þing er sérstaklega fjallað um náttúruverndarmál, en á milli er fjallað á breiðari grunni um tengsl umhverfismála við atvinnu- og efnahagslífið og raunar alla þætti samfélagsins undir merkjum sjálfbærrar þróunar. Hér á þessu þingi verður fjallað um sjálfbæra þróun og við leggjum hér fram plögg til upplýsingar og umræðu, bæði samantekt á stöðu mála á ýmsum lykilsviðum og drög að stefnumörkun um áhersluatriði næstu fjögur ár eða svo.

Umhverfismál hafa farið vaxandi í umræðunni undanfarin ár hér á landi eins og á heimsvísu og vægi þeirra í stjórnsýslunni hefur sömuleiðis aukist í hlutfalli við það. Þátttaka í Umhverfisþingum er ágætur mælikvarði á þetta, en hún hefur aukist jafnt og þétt og hafa þátttakendur aldrei verið fleiri en á  þessu þingi. Umhverfismálin eru þó ekki sérlega fyrirferðamikil í þjóðfélagsumræðunni í augnablikinu. Þar kemst fátt annað að en þær þrengingar sem íslenskt þjóðarbú glímir nú við í kjölfar bankahrunsins fyrir réttu ári – hverju og hverjum var þar um að kenna og hvað er hægt að gera til að heimili, atvinnulíf og þjóðarskútan komist á réttan kjöl á ný.

Í þessarri umræðu örlar á gömlu viðhorfi til umhverfismála. Þau eru kannski góðra gjalda verð á góðæristímum, en þegar harðnar á dalnum tekur alvara lífsins við. Við þurfum að einblína á harðar staðreyndir og tölur efnahagslífsins, en mýkri gildi tengd fegurð landsins og fjölbreytni lífsins verða að víkja um sinn. Við sjáum þetta viðhorf í kröfum um að við verðum að herða sókn í fiskstofna og að við verðum að koma orku landsins í verð sem allra fyrst, hvað sem það kostar. Við sjáum þetta í kröfu um að yfirvöld umhverfismála séu ekki „að þvælast fyrir“ í aukinni sókn í auðlindir lands og þjóðar til að hjálpa okkur að moka ofan í skuldahítir bankahrunsins.

Ég tel viðhorf af þessu tagi ekki einungis röng, heldur hættuleg. Umhverfismál eru ekki tískumál, heldur fjalla þau um áþreifanleg verðmæti og skynsamlega nýtingu auðlinda. Þau fjalla um að varðveita þær lifandi auðlindir sem eru undirstöður sjávarútvegs og landbúnaðar. Þau fjalla um að hlúa að náttúru Íslands, sem skilar okkur nú miklum gjaldeyristekjum af ferðamönnum þegar þeirra er mest þörf. Þau fjalla um að tryggja að íslensk matvæli séu án hættulegra efna. Þau fjalla um að stemma stigu við stórfelldum breytingum á loftslagi, sem myndi gjörbreyta lífsskilyrðum mannkyns. Þau fjalla um að draga úr heilsuspillandi mengun í andrúmsloftinu, sem við drögum ofan í lungun 20.000 sinnum á sólarhring. Umhverfismál snúast um budduna, heilsuna, grunngildi samfélagsins og lífið sjálft.

Vandi okkar Íslendinga er að miklu leyti sá að hinar hörðu áþreifanlegu tölur efnahagslífsins, sem voru lengi vel lesnar upp á hverju kvöldi á sjónvarpsskjánum, voru að hluta til sýndarveruleiki. Hér voru búnar til bólur og sjónhverfingar, sem skiluðu fámennum hópi miklum tekjum, en þjóðinni, heimilunum og ríkiskassanum gífurlegum skuldum. Nú er þess krafist að við göngum að raunverulegum verðmætum til að borga reikningana sem sjónhverfingameistararnir skildu eftir sig. Við verðum þar að staldra við og skoða hvaða leiðir eru okkur færar.

Sjálf tel ég sjálfbæra þróun vera þá leið sem er vænlegust til árangurs. En í hverju felst sjálfbær þróun.? Hvað þýðir þetta hugtak – Sjálfbær þróun?

Sjálfbær þróun snýst um að ofnýta ekki gæði jarðar nú heldur búa í haginn fyrir framtíðina, fyrir börnin okkar og barnabörn. Sjálfbær þróun er andstæða þeirrar skammtímagróðafíknar, sem hér var hafin á stall með svo hörmulegum afleiðingum.

Sjálfbær þróun er rétta leiðin, en hvert liggur hún nákvæmlega? Við getum leitað leiðsagnar í Ríó-yfirlýsingunni, sem leiðtogar þjóða heims undirrituðu árið 1992 og hefur að geyma þær grunnreglur sem okkur ber að hafa í heiðri í umgengni okkar við náttúruna, svo sem varúðarregluna, nytjagreiðsluregluna og mengunarbótaregluna. Við höfum þar og annars staðar áttavita, en það er okkar að heimfæra þessar reglur og gildi upp á aðstæður okkar hér og nú og varða leiðina miðað við okkar aðstæður. Sjálfbær þróun er ekki einhver töfraformúla, heldur krefst hún bestu fáanlegra vísindalegra upplýsinga á hverjum tíma, stöðugs endurmats á aðstæðum og forgangsmálum og opinnar og lýðræðislegrar umræðu.

Til þess erum við hingað komin á 6. Umhverfisþing. Ég vænti þess að hér verði frjóar og hreinskiptnar umræður um þau mál sem brenna á okkur. Við höfum fengið hingað ágæta fyrirlesara og við höfum gefið út rit í tilefni þingsins til að draga fram áhugaverðar staðreyndir og skapa umræður.

Litprentaða skýrslan sem þið hafið fengið í hendur og verður betur kynnt hér á eftir er tilraun til þess að draga fram nokkrar helstu staðreyndir um stöðu umhverfis- og auðlindamála. Um leið er sett fram spurning: Erum við á leið til sjálfbærrar þróunar? Vonandi hjálpar skýrslan mönnum hér á Umhverfisþingi að móta sér afstöðu til þeirrar spurningar og skoðun á því hvað helst megi gera til að bæta úr þar sem þarf. Hér er líka að finna í gögnum drög að áherslum til næstu fjögurra ára á vegferð okkar til sjálfbærrar þróunar. Þær eru innan ramma sem var settur árið 2002, en þar voru sett fram 17 markmið til lengri tíma og meiningin er að endurnýja forgangsmál á fjögurra ára fresti í tengslum við Umhverfisþing. Í drögum að nýjum áherslum er sú nýjung kannski helst að við höfum bætt tveimur markmiðum við, tengdum sjálfbærri neyslu og menntun.

Ég vil ítreka að hér er aðeins um drög að ræða. Áherslur til næstu fjögurra ára eru ekki mótaðar. Sem umhverfisráðherra legg ég ríka áherslu á lýðræðislegt samráð við almenning, frjáls félagasamtök og alla þá sem láta sig umhverfismál varða. Þess vegna er fyrirkomulagið hér á þinginu með aðeins öðrum hætti en verið hefur. Í stað hefðbundinna umræðna og pallborðsumræðu í lok þingsins verður kallað eftir hugmyndum ykkar sem eruð þátttakendur á þinginu. Ég vil leita hugmynda og álits hjá ykkur á þeim viðfangsefnum sem tengjast umhverfismálum og tækifærum sem felast í þeim breytingum sem við sem þjóð erum að ganga í gegnum. Ég vil leita hugmynda  og álits hjá ykkur um hvernig við virkjum sem flesta til þátttöku til að skapa sjálfsbært samfélag, hvernig við breytum hegðun fólks og fyrirtækja þannig að hver og einn geti lagt sitt af mörkum til sjálfbærs samfélags. Ég vil leita hugmynda hjá ykkur um hvernig við breytum hugsunarhætti þannig að umhverfismál verði tekin alvarlega. Ég leita eftir ykkar samráði um hvernig styrkja eigi umhverfismál í sessi hvarvetna í samfélaginu. Umhverfisráðuneytið hefur beðið fyrirtækið Alta um að skipuleggja og stjórna þessu samráði hér á þinginu og greina helstu niðurstöður. Niðurstöður sem ég  ætla mikilvægan sess í mótun stefnu um velferð til framtíðar, stefnu sem mun leiða okkur nær takmarkinu um sjálfbært samfélag. Ég hvet ykkur öll til að taka virkan þátt í þessari samráðsvinnu að loknum málstofum í dag og eftir klukkan tíu í fyrramálið.      

Þau málefni sem fjallað er um í litprentuðu skýrslunni sem þið hafi fengið í hendur og drög að velferð til samfélags,  spanna flest svið samfélagsins og kalla á lifandi umræðu og þátttöku almennings, félagasamtaka, atvinnulífs og stjórnvalda. Það er kraftur lýðræðisins, að reyna að komast að kjarna máls og góðrar niðurstöðu með upplýstri umræðu og aðkomu fjöldans. En það er ekki úr vegi að umhverfisráðherra nefni nokkur þau atriði sem henni þykja miklu varða, bæði í þeim málum sem falla undir hennar ráðuneyti og öðrum sem tengjast hugsjóninni um sjálfbæra þróun samfélagsins.

Öflug vernd náttúru Íslands er grunnþáttur í starfi umhverfisráðuneytisins. Landið og fegurð þess og sérstæð náttúra er dýrmætasta eign þjóðarinnar ásamt tungunni og menningunni. Þessa dýrmætu eign höfum við að láni frá komandi kynslóðum og við höfum ekki leyfi til að ganga á þennan rétt framtíðarinnar. Við höfum líka skyldum að gegna við heimsbyggðina að vernda þessa náttúru. Ég hef þegar sett í gang vinnu við stækkun friðlandsins í Þjórsárverum, sem á að vera lokið á næsta ári. Þjórsárverin eru eitt af helstu djásnum landsins, græn vin umkringd auðnum og ís, en þau hafa líka orðið táknræn fyrir baráttuna fyrir náttúruvernd. Stækkun friðlandsins, þannig að það nái yfir mestallt votlendi veranna, er þannig merkur áfangi í sögu náttúruverndar á Íslandi.

Við megum ekki bara einblína á einstök svæði varðandi náttúruvernd, heldur þurfum við að móta og framfylgja heildstæðri áætlun, sem byggir á vísindum og faglegu mati á verndargildi svæða. Það er leiðarljósið varðandi náttúruverndaráætlun, en ég vonast til þess að Alþingi samþykki 2. náttúruverndaráætlun fyrir árin 2009-2013 á þessu þingi, þar sem lagt er til að 12 ný svæði verði friðlýst, í viðbót við stækkun Þjórsárvera. Friðlýsingar samkvæmt náttúruverndaráætlun hafa gengið hægt. Þar liggja margar ástæður að baki, en ein er sú að margir líta á friðlýsingar sem íþyngjandi aðgerð. Vissulega er svo í sumum tilvikum, en friðlýsingar geta verið hvati til að byggja upp aðstöðu til útivistar og náttúruskoðunar og eflingu ferðaþjónustu á svæðinu. Oft fylgir líka ónógt fé metnaðarfullum áformum í náttúruvernd, ef miðað er við sambærilegar aðgerðir sem ætlað er að styrkja byggð og skapa ný tækifæri fyrir heimamenn. Skipulögð náttúruvernd er hins vegar ein helsta undirstaða ferðaþjónustu, þar sem flestir ferðamenn sem heimsækja Ísland tilgreina náttúru landsins sem helstu ástæðu heimsóknar sinnar. Það eru hagsmunir bæði ferðaþjónustu og náttúruverndar til lengri tíma að efla landvörslu og byggja upp viðunandi aðstöðu til að taka á móti ferðamönnum við náttúruperlur og á viðkvæmum svæðum. Til þess er eðlilegt að marka slíkum framkvæmdum tekjustofn af ferðamönnum, eins og gert er víða í öðrum löndum.  Eins og fram kemur í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar á að kanna grundvöll þess að leggja á umhverfisgjöld tengd ferðaþjónustu sem renni til uppbyggingar þjóðgarða og annarra fjölsóttra og friðlýstra áningarstaða ferðamanna og til eflingar ferðaþjónustu. Fjármálaráðherra hefur skipað nefnd til að vinna að þessum tillögum og óskað eftir að nefndin hraði störfum sínum eftir föngum þannig að fyrir liggi tillögur eða bráðabirgðaskýrsla eigi síðar en í lok nóvember nk. Standa vonir til að þessi tekjustofn verði til þess að  efla landvörslu og náttúruvernd.

Náttúruvernd má ekki vera olnbogabarn í íslensku stjórnkerfi, hana á að hefja til virðingar og hafa í fyrirrúmi. Í mörg ár hefur náttúrvernd verið vanrækt af stjórnvöldum og orðið undir í þeirri framkvæmdagleði sem hér ríkti. Náttúran hefur verið illa varin og ekki fengið að njóta þess vafa sem henni ber. Birtingamynd þess ójafnræðis sem náttúran býr við, til að mynda gagnvart framkvæmdaaðilum, er  einna skýrust við túlkun laga þ.e. að  litið skuli á ákvörðun um umhverfismat sem íþyngjandi ákvörðun. Sú ríkisstjórn sem nú er við völd leggur áherslu á náttúrvernd og að staða hennar innan stjórnarráðsins verði styrkt til muna. Í þessu felst m.a. að náttúrverndarlögin verða endurskoðuð, verndarákvæðið treyst og almannaréttur tryggður.  

Umræða um náttúruvernd á Íslandi hefur verið nátengd umræðunni um virkjanir undanfarin ár, sem er skiljanlegt, því staðið hefur verið að miklum framkvæmdum á því sviði, einkum í nágrenni höfuðborgarinnar og við Kárahnjúka, þar sem unnið hefur verið að stærstu einstöku framkvæmd Íslandssögunnar. Mikil ásókn er í orkulindir Íslands, enda er fyrirsjáanlegt að orkuverð víða um heim muni fara hækkandi, m.a. vegna þess að aukin gjöld verða lögð á jarðefnaeldsneyti til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Við hljótum að spyrja hvort menn geri sér vonir um að fá ódýran aðgang að orku hér við þær aðstæður sem nú ríkja á Íslandi og hvort við viljum binda orkulindir okkar til langrar framtíðar til einhæfra nota og til örfárra fyrirtækja. Nú er unnið að Rammaáætlun, sem er ætlað að meta alla virkjunarkosti og raða þeim með tilliti til náttúruverndarsjónarmiða og hagkvæmni. Við verðum að líta til lengri tíma og með víðara sjónarhorni á orkumálin. Orkustefna í anda sjálfbærrar þróunar býður okkur að nýta orkuna til fjölbreyttrar atvinnusköpunar og lágmarka áhrif orkuvinnslu á víðerni og náttúru landsins.

Hið sama gildir um aðrar auðlindir okkar til lands og sjávar. Sjálfbær nýting fiskistofnanna er okkur lífsnauðsyn og okkur ber skylda til að endurheimta gróður og jarðveg eftir aldalanga ofnýtingu og uppblástur. Við megum ekki móta auðlindastefnu út frá kröfum um skyndiplástra. Nýtt umhverfis- og auðlindaráðuneyti, sem sett verður á fót í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna, á samkvæmt yfirlýsingunni að hafa „lykilhlutverk varðandi rannsóknir, nýtingarstefnu, ráðgjöf og verndun á sviði auðlindamála“. Þessi breyting á ekki að hafa neina byltingu í för með sér, þar sem þegar hefur verið unnið gott starf við að þróa vísindaleg viðmið varðandi sjálfbæra nýtingu helstu nytjastofna sjávar og á fleiri sviðum. Samþætting auðlinda- og umhverfismála á hins vegar að efla það starf og gera okkur kleift að nýta auðlindirnar sem grunn að nýrri uppbyggingu til langs tíma. Sjálfbær nýting verður að vera grunnurinn í allri nýtingu náttúruauðlinda, svo arðurinn af þeim nýtist allri þjóðinni til framtíðar, en verði ekki skyndigróði sem rati í vasa fárra.

Á góðæristímanum, sem svo var gjarnan nefndur, jókst neysla Íslendinga á nær öllum sviðum gífurlega. Við eigum einhvern stærsta bílaflota heims miðað við höfðatölu, svo dæmi sé tekið og nær örugglega þann eyðslufrekasta, miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir um slíkt í alþjóðlegum samanburði. Kreppan hefur neytt okkur til að breyta hugsunarhætti okkar varðandi neyslu og þótt það komi ekki til af góðu eru fólgin í því tækifæri. Neysla er ekki af hinu illa, en við þurfum að huga meira að gæðum en síður að magni. Sjálfbær neysla felur í sér að taka umhverfisáhrif með í reikninginn í kaupum á vöru og þjónustu. Ríkið er einn stærsti neytandinn á markaðnum og þarf að ganga á undan með góðu fordæmi. Við þurfum að tryggja að nýlega samþykktri stefnu um umhverfisvæn innkaup í opinberum rekstri sé fylgt í raun. En ábyrg neysla er líka verkefni hvers og eins. Við getum öll lagt okkar af mörkum til að bæta umhverfið, með því að stilla neyslu í hóf, velja umhverfismerktar vörur og flokka og endurvinna úrgang. Umhverfisvernd í hinu daglega lífi á ekki að vera leiðinleg kvöð, heldur sjálfsagður hlutur og ljúf skylda hvers ábyrgs þjóðfélagsþegns. Nú fer fram öflugt grasrótarstarf í umhverfisvernd í skólum landsins og geta nær 160 skólar flaggað Grænfánanum sem vott um skipulagt umhverfisstarf. Ég bind miklar vonir við að öflug umhverfisfræðsla og sýnilegt umhverfisverndarstarf í skólum og á heimilum verði til þess að ábyrgir og hollir lífshættir verði tíska framtíðarinnar, en ekki óhóf og skeytingarleysi. Í drögum að stefnumörkun um velferð til framtíðar er í fyrsta skipti sett fram markmið um menntun til sjálfbærrar þróunar. Í menntamálaráðuneytinu er unnið að endurskoðun aðalnámskrár með það í huga að efla menntun til sjáflbærrar þróunar og mun  fulltrúi ráðuneytisins fjalla um þetta efni í fyrramálið.

Það er við hæfi að ljúka efnislegri umfjöllun í þessarri ræðu á að ræða um loftslagsbreytingar, því ekkert viðfangsefni samtímans er jafn umtalað og kristallar jafn vel þann vanda sem við blasir í umhverfismálum. Vísindamenn segja okkur að það séu órækar sannanir fyrir því að andrúmsloftið sé að hlýna vegna losunar gróðurhúsalofttegunda og að komandi hlýnun muni á næstu áratugum valda meiri breytingum á loftslagi, náttúrufari og lífsskilyrðum manna en dæmi eru um frá upphafi siðmenningar. Þeir eru enn til sem telja að besta ráðið við þessum tíðindum sé að loka eyrunum og láta skeika að sköpuðu en þeim fer þó fækkandi. Íslandi ber skylda til að taka þátt í alþjóðlegu átaki til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það hefur væntanlega farið fram hjá fáum að eftir nokkrar vikur verður alþjóðleg ráðstefna í Kaupmannahöfn þar sem reynt verður að ganga frá nýju samkomulagi sem taki við af Kýótó-bókuninni. Menn eru misbjartsýnir á árangur í Kaupmannahöfn, en enginn dregur í efa nauðsyn þess að nýtt samkomulag um hertar aðgerðir líti dagsins ljós þar eða fljótlega í kjölfarið, því vandinn hverfur ekki. Það skiptir máli að allir komi að borðinu í Kaupmannahöfn með gagnlegt innlegg, en ekki sérkröfur og undanþágubeiðnir. Ég hyggst gera það fyrir Íslands hönd og ætla ekki að biðja þar um nýjar undanþágur fyrir stóriðju eða aðra starfsemi á Íslandi. Við eigum að vinna innan alþjóðlegs regluverks í loftslagsmálum, en ekki reyna að fá undanþágur til að vera einhvers konar aflandsparadís fyrir mengandi losun. Það eru heldur engar líkur til að slíkar beiðnir falli í frjóan jarðveg og þær því einkum til þess fallnar að draga úr orðspori Íslands. Við þurfum ekki á slíku að halda. Við eigum frekar að reyna að leita leiða til að reisa það til vegs og þar getur metnaðarfull stefna og góður árangur í loftslagsmálum reynst okkur heillavænleg. Slík stefna á að hlúa að því sem vel er gert nú þegar, svo sem mörg áhugaverð tilraunaverkefni sem verið hafa í gangi hér á landi varðandi niðurdælingu koltvíoxíðs, vinnslu eldsneytis úr útblæstri, bætta eldsneytisnýtni skipa og nýtingu vetnis og metans sem eldsneytis. Hún þarf líka að taka á því sem stingur í augum, en þar ber hæst losun frá vegasamgöngum, sem er nær hvergi meiri á mann en hér á landi. Við þurfum að ganga og hjóla meira, efla almenningssamgöngur, greiða veg loftslagsvænna bíla og eldsneytis og ekki síst að kaupa sparneytnari bíla í stað eldsneytisháka. Ábyrgð og trúverðugleiki ríkja í alþjóðasamfélaginu verður í vaxandi mæli metinn af árangri þeirra í loftslagsmálum. Ég legg áherslu á að Ísland vindi ofan af þeirri undanþágustefnu sem verið hefur við lýði lengi og móti metnaðarfulla og trúverðuga aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, sem geri okkur kleift að bera höfuðið hátt. Höfum við efni á slíku nú í kreppunni? spyr kannski einhver. Höfum við efni á því að spara eldsneyti? mætti spyrja á móti. Margar aðgerðir til að draga úr losun borga sig fjárhagslega, samkvæmt niðurstöðu sérfræðinganefndar sem skilaði niðurstöðum sínum síðastliðið vor. Aðrar eru ódýrar en skila margvíslegum ávinningi til viðbótar við samdrátt í losun. Til lengri tíma litið höfum við alls ekki efni á því að stofna velferð afkomenda okkar í hættu með óheftri losun efna sem valda jörðinni og öllum jarðarbúum ómældan skaða.  

Góðir gestir,

Á þessum degi fyrir réttu ári síðan voru Íslendingar rétt að byrja að átta sig á afleiðingum hruns bankanna og íslenska efnahagsundursins. Nú skiljum við margt betur, bæði um eðli hrunsins og hina veiku innviði hins meinta undurs. Bankakerfið þandist út 35-falt á tíu árum fram að hruni. Sumir töldu það ekki bara gott mál, heldur lögðu til að það yrði „gefið í“. Getur hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar hjálpað okkur að bregða ljósi á þessa sögu? Jú, hún segir að við verðum að gæta að höfuðstólnum, hvort sem hann er í bankahólfi eða syndir í sjónum eða er fólginn í öðrum auðlindum og gæðum. Vöxtur bankanna var ekki sjálfbær. Íslenska efnahagsundrið var fengið að láni, frá útlöndum og frá börnunum okkar. Þau verða að borga hluta af reikningnum. Stór hluti þeirra verðmæta sem fólust í tölunum sem þuldar voru samviskusamlega í sjónvarpsfréttunum á hverju kvöldi var í raun ekki til, nema kannski í Excel-töflum og innistæðulausum bréfum. Vandinn sem þessi bóla og bréf skildu eftir sig er hins vegar raunverulegur og áþreifanlegur og reynir á alla krafta stjórnvalda, atvinnulífsins og heimila að leysa hann. Margir vilja að við setjum okkar raunverulegu verðmæti – auðlindir og náttúru landsins – á brunaútsölu til að stoppa í einhver göt, kannski í von um að óheftur vöxtur og árið 2007 komi þá aftur.

Ég legg til að við stöldrum við í þeim efnum. Við skulum ekki bæta úr mistökum liðinna ára með því að endurtaka þau. Við skulum ekki setja öll fjöregg efnahagslífsins í sömu körfu. Við skulum nýta auðlindir lands og sjávar til að skapa velferð fyrir alla Íslendinga, en ekki ofsagróða fyrir fáa. Við skulum reyna að mæta knýjandi þörfum líðandi stundar án þess að eyðileggja möguleika komandi kynslóða. Við skulum ekki selja frumburðarrétt okkar fyrir brauð og baunarétt, þótt hart sé í ári.

Til skamms tíma litið eru gífurlega erfið úrlausnarefni framundan fyrir íslenskt samfélag. Við verðum að vinna úr þeim, koma þjóðarskútunni á réttan kjöl og ausa. Til lengri tíma litið er útlitið bjart hjá íslenskri þjóð. Við eigum gnótt auðlinda og hreint umhverfi. Við erum menntuð þjóð með lýðræðislegt stjórnfyrirkomulag, sem býður upp á stefnumótun með rökræðum á grunni góðra upplýsinga. Við getum lært af mistökum okkar og markað nýja stefnu um raunverulega velferð til framtíðar. Við eigum eina jörð, sem getur mætt þörfum íbúa sinna en ekki sætt græðgi þeirra. 2007 kemur ekki aftur. Við þurfum ekki að sýta það. Framtíðin getur orðið betri en 2007.

Við sem vinnum að umhverfismálum og ræðum hér á Umhverfisþingi og í framhaldi þess um leiðir að sjálfbærri þróun eigum ekki að sitja á hliðarlínunni í umræðu dagsins. Við eigum ekki að láta segja okkur að vera ekki að „þvælast fyrir“. Þau efni sem við ræðum hér snúast um að byggja traustan grunn fyrir endurreisn á efnahag og velferð og orðspori þjóðarinnar. Tökumst óhrædd á við þá umræðu. Umhverfismál eiga heima í öndvegi þjóðfélagsumræðunnar. Sjálfbær þróun er ekki ein leið út úr kreppunni, hún er eina leiðin út úr kreppunni.

Með þessum orðum set ég þetta sjötta umhverfisþings og fel þeim Þóru Arnórsdóttur og Frey Eyjólfssyni að stjórna þinginu.

Takk fyrir.


 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum