Hoppa yfir valmynd

Frétt

13. október 2009 Heilbrigðisráðuneytið

Nýbygging Heilbrigðisstofnunar Siglufjarðar tekin í notkun

Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra, tók í dag formlega í notkun viðbyggingu við Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar. Framkvæmdir við fyrsta áfanga viðbyggingarinnar hófust í desember 2005 og framkvæmdum lauk ári seinna eða í desember 2006. Í lok október 2006 var byrjað á öðrum áfanga, vinna við uppsteypu hófst á vormánuðum 2007 og framkvæmdum lauk í desember 2008. Nýbygging er samtals um 1.030 fermetrar.

Í viðbyggingunni verður heilsugæslustöð Siglufjarðar, en hún hefur fram til þessa verið í gömlu sjúkrahúsbyggingunni í óhentugu húsnæði.

Á neðri hæð hússins er aðalinngangur heilsugæslustöðvar og sjúkrahúss. Þar er einnig aðkoma fyrir sjúkrabíl og slysastofa. Í nýbyggingunni er einnig biðstofa sjúklinga, hluti sameiginlegrar setustofu og borðsalar heilsugæslu- og sjúkrahúss, ásamt almennum þjónusturýmum. Skrifstofur og skoðunarstofur lækna og hjúkrunarfræðinga eru flestar á neðri hæð. Á efri hæðinni eru auk þess fjögur legurými, fundarsalur, skrifstofur yfirstjórnar og almenn vinnuaðstaða starfsfólks.

Hönnuðir við breytingar og nýbyggingu voru Helgi Hafliðason, arkitekt, sem sá um hönnun nýbyggingar og breytinga á eldra húsnæði, Lagnatækni sá um vatns og hitalagnir, Rafhönnun um raflagnir og Almenna verkfræðistofan um verkfræðiteikningar. Umsjón með framkvæmdum f.h. heilbrigðisráðuneytis hafði Framkvæmdasýsla ríkisins. Aðalverktaki við fyrsta og annan áfanga var Byggingafélagið Berg.

Í tilefni dagsins gáfu systur Birgis Guðlaugssonar, þær Regina, Helena, Sonja og Birgitta Guðlaugsdætur listaverkið Þorp, eftir Guðjón Ketilsson, myndlistamann, til minningar um Birgi og var verkið formlega afhent við hátíðlega athöfn á sjúkrahúsinu. Birgir Guðlaugsson var framkvæmdastjóri Bergs, byggingafélags, en Birgir lést á liðnu ári. Verkinu var komið fyrir í aðalinngangi sjúkrahússins og var systrum Birgis þökkuð hin veglega gjöf.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum