Hoppa yfir valmynd

Frétt

13. október 2009 Dómsmálaráðuneytið

Tillögur nefndar sem endurskoðaði reglur um skipan dómara

Ragna Árnadóttir dómsmála- og mannréttindaráðherra kynnti ríkisstjórn í morgun skýrslu nefndar sem skipuð var til að endurskoða reglur um skipan dómara og koma með tillögur að nýjum reglum.

Ragna Árnadóttir dómsmála- og mannréttindaráðherra kynnti ríkisstjórn í morgun skýrslu nefndar sem skipuð var til að endurskoða reglur um skipan dómara og koma með tillögur að nýjum reglum. Nefndin leggur m.a. til að sömu reglur gildi um skipan hæstaréttardómara og héraðsdómara og fjölgað verði í dómnefnd. Þá verði skipunarvaldið áfram hjá dómsmálaráðherra, en ákveði hann að skipa annan en dómnefndin mælir með, verði hann að leggja tillögu um skipun annars hæfs umsækjanda fyrir Alþingi. Ráðherra hyggst nú leita sjónarmiða um tillögur nefndarinnar og gefst áhugasömum tækifæri til að senda ábendingar á netfangið [email protected] fyrir 15. nóvember næstkomandi.

Nefndin var skipuð 3. mars síðastliðinn til að vinna að því að móta tillögur um setningu nýrra reglna um skipan dómara, í samræmi við verkefnaskrá þáverandi ríkisstjórnar. Í nefndinni sátu Guðrún Erlendsdóttur, fyrrverandi hæstaréttardómari, sem var formaður hennar, Hákon Árnason hæstaréttarlögmaður og Ómar Hlynur Kristmundsson, stjórnmálafræðingur og dósent við Háskóla Íslands. Jafnframt var skipaður sérstakur samráðshópur sem í sátu fulltrúar ASÍ, BHM, BSRB, Mannréttindastofnunar Íslands og Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands.

Tillögur nefndarinnar

1. Sömu reglur gildi um skipan hæstaréttardómara og héraðsdómara.

2. Fjölgað verði í dómnefnd sem skili til ráðherra faglegu, rökstuddu mati um alla umsækjendur um dómaraembætti þannig að hún verði skipuð fimm (sex) mönnum; tveimur (þremur) dómurum, einum lögmanni og tveimur fulltrúum almennings.

3. Felld verði niður ákvæði 4. mgr. 4. gr. dómstólalaga um umsögn Hæstaréttar en Hæstiréttur gefi umsögn til dómnefndar um hverjar séu þarfir réttarins hverju sinni.

4. Skipunarvaldið verði áfram hjá dómsmálaráðherra en ákveði hann að skipa annan en dómnefndin mælir með verður hann að leggja tillögu um skipun annars hæfs umsækjanda fyrir Alþingi. Samþykki Alþingi tillögu ráðherra getur hann skipað þann mann sem dómara, annars er ráðherra bundinn af niðurstöðu dómnefndar.

5. Sérstakar reglur verði settar um starf dómnefndar.

6. Lögfest verði þau sjónarmið sem gilda eiga við mat dómnefndar um hæfni umsækjenda.

Sjá skýrslu nefndarinnar hér.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum