Hoppa yfir valmynd

Frétt

23. október 2009 Heilbrigðisráðuneytið

Lungnavélar keyptar fyrir Landspítala

Ákveðið hefur verið að festa kaup á tveimur lungnavélum til viðbótar fyrir Landspítala og bregðast þar með við hugsanlegum afleiðingum inflúensufaraldurs.

Sóttvarnalæknir og ríkislögreglustjóri vöktu í gær athygli Álfheiðar Ingadóttur, heilbrigðisráðherra, á þörf fyrir fleiri lungnavélar á Landspítalanum vegna svínainflúensunnar og hugsanlegum afleiðingum hennar.

Heilbrigðisráðherra brást þegar í stað við og var ákveðið í samráði við fjármálaráðuneytið að festa kaup á tveimur lungavélum til viðbótar þeim sem spítalinn notar. Landspítalinn hafði yfir að ráða þremur lungnavélum, en þær eru ekki til á öðrum sjúkrahúsum. Með nýju vélunum batnar viðbúnaður Landspítalans til muna þegar um er að ræða mjög alvarleg veikindi og verða þá til taks fimm lungavélar á spítalanum.

Lungnavélar nýtast við meðferð sjúklinga þegar öndunarvélar duga ekki, en öndunarvélar eru til á mörgum sjúkrahúsum landsins. Meðferð sjúkra af völdum inflúensu á Landspítalanum gengur vel, en farsóttarnefnd spítalans endurskoðar viðbúnaðaráætlun spítalans frá degi til dags í samræmi við kringumstæðurnar sem ríkja hverju sinni.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum