Hoppa yfir valmynd

Frétt

3. nóvember 2009 Heilbrigðisráðuneytið

Réttur þolenda mansals til heilbrigðisþjónustu treystur

Með reglugerðarbreytingu hefur heilbrigðisráðherra tryggt þolendum mansals ótvíræðan rétt til heilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra, breytti reglugerðinni um rétt þeirra sem ekki eru sjúkratryggðir á Íslandi sl. föstudag með það fyrir augum að tryggja ótvíræðan rétt þolenda mansals óháð greiðslugetu viðkomandi og samningum við önnur ríki um greiðslur fyrir veitta þjónustu. Þetta þýðir að 15. grein reglugerðar nr. 1206/2008 í fjórða kafla hefur verið breytt. Kaflinn fjallar um rétt til aðstoðar og greiðslur í hinu opinbera heilbrigðiskerfi þegar milliríkjasamningar um sjúkratryggingar gilda ekki.

Eftir reglugerðarbreytinguna hljóðar 15. greinin svona: “
Einstaklingar sem ekki eru sjúkratryggðir hér á landi samkvæmt lögum um sjúkratryggingar og sem milliríkjasamningar um sjúkratryggingar taka ekki til, eiga rétt á neyðaraðstoð hjá hinu opinbera heilbrigðiskerfi hér á landi, þ.e. heilbrigðisþjónustu sem hinu opinbera er skylt að veita samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu.

Útlendingar sem fengið hafa dvalarleyfi og/eða atvinnuleyfi samkvæmt lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga og eru ekki sjúkratryggðir samkvæmt lögum um sjúkratryggingar eiga rétt á neyðaraðstoð, sbr. 1. mgr.

Erlendir fangar í íslenskum fangelsum eiga rétt á neyðaraðstoð, sbr. 1. mgr.

Fórnarlömb mansal eiga rétt á neyðaraðstoð, sbr. 1. mgr.

Um greiðslur fyrir heilbrigðisþjónustu samkvæmt þessari grein gilda ákvæði 16. gr. Sjúkratryggingar Íslands greiða ekki þjónustuveitanda og hafa ekki milligöngu um endurkröfur í þessum tilvikum. Ef erlendir fangar geta ekki greitt fyrir heilbrigðisþjónustu skv. 16. gr. fellur kostnaður á viðkomandi þjónustuveitanda. Sama á við um fórnarlömb mansals.”



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum