Hoppa yfir valmynd

Frétt

4. nóvember 2009 Heilbrigðisráðuneytið

Lífeyrissjóðir og ríkið: Vilji til að reisa nýjan Landspítala

Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra við undirritun viljayfirlýsingarinnar
Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra

Viljayfirlýsing ríkisstjórnarinnar og tuttugu lífeyrissjóða um samstarf vegna undirbúnings byggingar Landspítala var undirritað í dag.

Það voru þau Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra og Arnar Sigurmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, sem ásamt forsætis- og fjármálaráðherra og fulltrúum tuttugu lífeyrissjóða sem undirrituðu viljayfirlýsinguna á Landspítalanum um hádegisbil. Lífeyrissjóðirnir sem standa að viljayfirlýsingunni ráða yfir um 83% af eignum lífeyrissjóðanna og standa vonir til að fjölgi í hópi sjóðanna.

Spítali sem þjónar landinu öllu

Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra, fagnaði í ávarpi sínu þátttöku lífeyrissjóðanna í verkefninu og sagði það sérstakt ánægjuefni að fjölmargir lífeyrissjóðir utan höfuðborgarsvæðisins væru í þeim hópi lífeyrissjóða sem standa að viljayfirlýsingunni. „Menn skynja og skilja að við erum að byggja Landspítala, sem þjónar landinu öllu“, sagði heilbrigðisráðherra.

Viljayfirlýsing lífeyrissjóðanna og heilbrigðisráðuneytisins fyrir hönd ríkisstjórnarinnar er söguleg og hún er táknræn að mínum dómi. Í henni felst nefnilega víðtækur skilningur á mikilvægi þess að við Íslendingar sköpum forsendurnar fyrir því að geta áfram og um langa framtíð verið í fremstu röð þjóða í heilbrigðismálum.

Í viljayfirlýsingunni felst viðurkenning á því að uppbygging nýs spítala er nauðsynleg og samofin viljanum til að standa sem best að þjónustunni við sjúka. Og að skapa öllum sem starfa á Landspítalanum forsendur til að gera vel við sjúklinga alveg burtséð frá því hvert hlutverk menn hafa í þeirri flóknu vél sem Landspítali hlýtur alltaf að verða.

Spítalinn sem hér mun rísa er ekki Reykjavíkur-spítali. Hér mun rísa spítali fyrir allt landið, fyrir alla landsmenn. Hlutverk hins nýja spítala verður fyrst og síðast bundið við að lækna og annast sjúka, en við megum heldur ekki gleyma því að Landspítalinn er lífæðin í bæði menntun heilbrigðisstétta og innan spítalans, eða í tengslum við hann, fer fram gríðarlegt rannsóknar- og vísindastarf.

Það tekur langan tíma og það þarfnast mikils undirbúnings að reisa spítala sem þjóna á þjóðinni allri. Viljayfirlýsingin er stórt stökk fram á við á þeirri löngu leið. Fyrsta útfærslan að nýjum spítala einkenndist af uppgangstíð liðinna ára. Spítalinn sem við erum nú að tala um að reisa er nær þeim raunverulegu aðstæðum sem við búum við á Íslandi í dag“, sagði heilbrigðisráðherra við athöfnina á Landspítalanum í dag.

Samfélagslegt verkefni

Í ávarpi Arnars Sigurmundssonar, sem hann flutti við undirritun viljayfirlýsingarinnar, sagði m.a: „Við lítum á Landspítalamálið fyrst og fremst sem samfélagslegt verkefni af okkar hálfu, að uppfylltum skilyrðum um viðunandi arðsemi. Landspítalinn er þjóðarsjúkrahús, lykilþáttur í okkar góða heilbrigðiskerfi og í menntun heilbrigðisstarfsfólks. Við sjáum það best í inflúensufaraldrinum sem herjar nú á landsmenn hvernig reynir á alla þætti heilbrigðisþjónustunnar og starfsmenn hennar og þar mæðir mest á Landspítalanum. Við skynjum álagið á starfsfólkið sem fær afleiðingar inflúensufaraldursins í fangið í bókstaflegum skilningi í viðbót við allt hitt og viljum að aðstæður allar á sjúkrahúsi þjóðarinnar hæfi krefjandi hlutverki í þágu allra landsmanna.“

Til vegsauka fyrir lífeyrissjóðina

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, lagði í ávarpi sínu, áherslu á að viljayfirlýsingin væri hluti af samstarfi aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar og þannig hluti af stöðugleikasáttmálanum. Forsætisráðherra minnti á að gamla landspítalabyggingin væri meðal annars hluti af baráttu íslenskra kvenna á öndverðri liðinni öld og undirstrikaði hlutverk og þýðingu Landspítala í heilbrigðisþjónustunni við landsmenn alla. „Það er einstaklega ánægjulegt að lífeyrissjóðirnir skuli líta á byggingu Landspítalans sem samfélagslegt forgangsverkefni og það er sannarlega til vegsauka fyrir lífeyrissjóði landsmanna“, sagði forsætisráðherra.

Þjóðin byggir

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, tók undir með forsætisráðherra og sagði mikilvægt að átta sig á að það væri í raun og veru þjóðin sjálf sem stæði að baki byggingunni. Hann sagðist sannfærður um að nú væri rétti tíminn til að byggja upp. Hann sagðist gera skýran greinarmun á aðkomu lífeyrissjóðanna að verkefninu og einkaaðila sem gættu annarra hagsmuna en lífeyrissjóðirnir. „Þetta erum við sjálf. Það erum við þjóðin sem ætlum að reisa hér spítala fyrir allt landið, og það er mikilvægt í þessu sambandi að horfa fram í tímann. Við erum að gera rétt, við erum á réttum tíma og réttum stað“.

Sjá nánar: Fréttatilkynning frá Landssamtökum lífeyrissjóða og heilbrigðisráðherra (pdf)

Sjá nánar: Undirrituð viljayfirlýsing um aðkomu lífeyrissjóða að byggingu Landspítala (pdf)

Fulltrúar Landspítala, lífeyrissjóðanna og ríkisstjórnarinnar Fulltrúar lífeyrissjóðanna, Landspítala og ríkisstjórnarinnar við undirritunina
Arnar Sigurmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra

Arnar Sigurmundsson Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum