Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. nóvember 2009 Heilbrigðisráðuneytið

Afhentu ráðherra undirskriftir

Fulltrúar starfsmanna Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi hvetja til þess að væntanlegar fjárveitingar til stofnunarinnar verði endurskoðaðar. Fulltrúar starfsmanna eru þeirrar skoðunar að fjárlagafrumvarpið beri með sér að draga eigi meira úr fjárveitingum til heilbrigðisstofnunarinnar en gengur og gerist. Í yfirlýsingu sem fulltrúar starfsmannanna afhentu Álfheiði Ingadóttur, heilbrigðisráðherra, er skorað á þingmenn kjördæmisins „sem og allra annarra landsbyggðarkjördæma að standa vörð um þau okkar sem kjósum að búa úti á landi eins og þeir lofuðu í síðustu kosningum“. Afhentu fulltrúar heilbrigðisráðherra undirskriftir íbúa og starfsmanna á Blönduósi máli sínu til stuðnings.

Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra, þakkaði fulltrúum starfsmanna heimsóknina og sagði samdrátt í væntanlegum fjárveitingum til Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi skýrast af þrennu. Í fyrsta lagi þeim almenna niðurskurði ríkisútgjalda sem grípa þyrfti til vegna hrunsins í efnahagslífinu, í öðru lagi vegna samkomulags við stofnunina um að færa niður fjárveitingar til samræmis við aðrar stofnanir á þremur árum og í þriðja lagi vegna hjúkrunarrýma sem stofnunin hefur fengið greitt fyrir á föstum fjárlögum en ekki nýtt hin síðari ár. Ráðherra ítrekaði gagnvart fulltrúum starfsmanna hina erfiðu stöðu sem allar heilbrigðisstofnanir væru í og yrðu í næstu þrjú til fjögur ár og benti á að staðan væri svo alvarleg, að til dæmis vaxtagreiðslur ríkissjóðs yrðu á næsta ári meiri en öll framlög til heilbrigðisþjónustunnar á því ári.

Blonduos_radherra

Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra, tekur við undirskriftum fulltrúa starfsmanna og áskorun þeirra til fjarveitingavaldsins.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum