Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. nóvember 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Atvinnutækifæri framtíðarinnar

Norrænir vinnumálaráðherrar hittust á árlegum fundi sínum sem haldinn var í Reykjavík í dag. Vaxandi atvinnuleysi meðal ungs fólks á krepputímum og fyrirsjáanlegur skortur á vinnuafli til framtíðar vegna breytinga á aldurssamsetningu þjóða var helsta umfjöllunarefni ráðherranna. Fundinn sátu ráðherrarnir Árni Páll Árnason, formaður Norrænu ráðherranefndarinnar um málefni vinnumarkaðarins árið 2009, Anni Sinnemäki, Finnlandi, Sven Otto Littorin, Svíþjóð, Johan Dahl, Færeyjum og Jan-Erik Mattsson, Álandseyjum. Fulltrúi Danmerkur á fundinum var Bo Smith, ráðuneytisstjóri, fulltrúi Noregs Jan-Erik Støstad, ráðuneytisstjóri og fulltrúi Grænlands, Avva Mathiassen.

Á fundinum kom fram að með vaxandi atvinnuleysi hafa allar Norðurlandaþjóðirnar gripið til margvíslegra Frá samráðsfundi vinnumálaráðherranna með fulltrúum norrænna samtaka atvinnulífs og launafólksvinnumarkaðsaðgerða sem beinast sérstaklega að ungu fólki. Þetta er gert þar sem reynsla þjóða sem staðið hafa frammi fyrir miklu atvinnuleysi sýnir að samfélagslegar afleiðingar langtímaatvinnuleysis meðal ungs fólks geta verið mjög alvarlegar og langvarandi ef ekkert er að gert.

Ráðherrarnir voru sammála um að leiðir til að berjast gegn vaxandi atvinnuleysi meðal ungs fólks verði að hafa langtímamarkmið að leiðarljósi. Nýta þurfi tímann meðan kreppan gengur yfir til þess að veita ungu fólki menntun sem stuðlar að uppbyggingu atvinnulífsins og skapar atvinnutækifæri til framtíðar.

Margvísleg skammtímaúrræði eru einnig nauðsynleg meðan á efnahagskreppunni stendur. Í þeim efnum þurfa stjórnvöld að beita markvissum vinnumarkaðsaðgerðum sem auka tímabundið framboð starfa og stuðla að því að fólk haldi virkni sinni. Mestu skiptir að forða sem flestum frá langvarandi atvinnuleysi þar sem reynslan sýnir að langtímaatvinnuleysi eykur verulega hættu á örorku þeirra sem fyrir því verða. Þeim gengur jafnan erfiðlega að fóta sig á vinnumarkaði á ný og atvinnurekendur eru tregir til að ráða fólk í vinnu sem hefur verið lengi án atvinnu.

Til lengri tíma litið standa Norðurlandaþjóðirnar frammi fyrir hættu á vinnuaflsskorti vegna breytinga á aldurssamsetningu þjóða. Þetta er staðreynd sem eykur enn á vandann sem þjóðirnar glíma við núna vegna mikils atvinnuleysis. Vel menntað starfsfólk og sveigjanlegt vinnuafl er forsenda öflugs efnahagslífs og traustra velferðarkerfa í framtíðinni. Þess vegna verður að beita öllum tiltækum leiðum til að fyrirbyggja neikvæðar afleiðingar þess mikla atvinnuleysis sem fylgir kreppunni.

Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherraÁrni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, sagði á fundinum að ekkert fólk sem nú er ungt og án atvinnu megi sæta því hlutskipti að ganga iðjulaust og afskiptalaust af hálfu samfélagsins. „Við getum ekki og við megum ekki láta hundruð eða þúsundir ungmenna alast upp sem bótaþega. Okkur ber skylda til að skapa þessu unga fólki tækifæri til annars konar framtíðar. Við megum ekki kasta á glæ hugviti þeirra, mannafli og krafti.“ Ráðherra lýsti þeim aðgerðum sem nú er unnið að hér á landi og hvernig verið er að efla samvinnu opinberra stofnana, verkalýðshreyfingar, atvinnurekenda, sveitarfélaga og ýmissa félagasamtaka til að vinna gegn neikvæðum afleiðingum atvinnuleysis.

Fyrir fund norrænu vinnumálaráðherranna voru haldnar tvær ráðstefnur í Reykjavík um atvinnumál í víðu samhengi. Önnur þeirra fjallaði um áhrif atvinnuþátttöku eldra fólks á heilsu þess og lífsgæði en hin fjallaði um mikilvægi starfsendurhæfingingar til að virkja fólk sem af ýmsum ástæðum hefur verið lengi utan vinnumarkaðar og býr við skerta starfsgetu.

Auk ráðstefnanna tveggja var haldinn samráðsfundur norrænu vinnumálaráðherranna, fulltrúa norrænna samtaka atvinnurekenda og samtaka launafólks. Þann fund sat einnig Vladimír Spidla, framkvæmdastjóri Evrópusambandsins í félags- jafnréttis- og vinnumálum og kynnti aðgerðir Evrópusambandsins til að vinna bug á atvinnuleysi.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum