Hoppa yfir valmynd

Frétt

16. nóvember 2009 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra á fundi EES ráðsins

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ásamt Benitu Ferrero-Waldner, sem fer með utanríkismál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ásamt Benitu Ferrero-Waldner, sem fer með utanríkismál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sat í dag fundi EES ráðsins í Brussel og tók þátt í fundum með þingmannanefnd EFTA. Fundi EES ráðsins sitja utanríkisráðherrar Íslands, Noregs og Liechtenstein ásamt utanríkisráðherra Svíþjóðar, sem fer með formennsku ESB og fulltrúum Spánar, sem tekur við af Svíþjóð um áramót, framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Ráðherraráðsins.

Ráðherra ræddi framtíð EES samningsins og lýsti því að samningurinn hefði í flestum atriðum þjónað Íslendingum vel. Þó væri ljóst að ekki væri hægt að ná stöðugleika í gjaldmiðilsmálum eingöngu á grundvelli EES samningsins, til þess yrði að sækja um aðild að Evrópusambandinu og taka upp Evru í fyllingu tímans.

Utanríkisráðherra undirstrikaði mikilvægi þess að ríki heims næðu bindandi samkomulagi um takmörkun gróðurhúsalofttegunda á leiðtogafundinum í Kaupmannahöfn í næsta mánuði og lagði áherslu á hlutverk endurnýjanlegra orkugjafa til þess. Íslendingar hefðu náð því að 80 prósent orkunnar kæmi frá endurnýjanlegum orkugjöfum og Íslendingar væru viljugir til að deila reynslu sinni og þekkingu af nýtingu jarðhita með öðrum þjóðum.

Ráðherrarnir ræddu ástandið í Afganistan, Íran og Mið-Austurlöndum. Utanríkisráðherra hafði framsögu um málefni Afganistan og lýsti áhyggjum af þróun mála þar í landi, nýlegum kosningum og fregnum af skipan ráðherra í nýja ríkisstjórn. Að auki hefði Karzai forseti ekki komið nægilega langt til móts við gagnrýni á hin svokölluðu sharía-lög sem gangi freklega gegn réttindum kvenna. Carl Bildt utanríkisráðherra Svíþjóðar og Jonas Gahr Störe utanríkisráðherra Noregs gerðu grein fyrir ástandinu í Afganistan og leiðum fram á við en þeir voru báðir í Afganistan í síðustu viku.

Þá undirritaði utanríkisráðherra samkomulag við Benitu Ferrero-Waldner, sem fer með utanríkismál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, um stofnun sendiskrifstofu ESB í Reykjavik sem taka mun til starfa í upphafi næsta árs.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum