Hoppa yfir valmynd

Frétt

18. nóvember 2009 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra sækir leiðtogafund FAO

Franco Frattini og Össur Skarphéðinsson
FF_og_OS

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra situr nú leiðtogafund Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) í Róm um fæðuöryggi í heiminum. Lagði ráðherra í ræðu sinni áherslu á aðgerðir til að auka fæðuöryggi á komandi árum og sagði Íslendinga reiðubúna að deila þekkingu sinni í því sambandi. Þá átti ráðherra fund með utanríkisráðherra Ítalíu, Franco Frattini, og ræddu þeir samskipti ríkjanna og aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu.

Í ræðu sinni hjá FAO sagði utanríkisráðherra þjóðum heims hafa mistekist að nýta þann mikla auð sem skapast hefði á síðustu árum, áður en til efnahagskreppunnar kom, til að auka fæðuöryggi í heiminum. Sagði ráðherra ljóst að eitt mikilvægasta verkefni þjóða heims væri að ná bindandi samkomulagi um losun gróðurhúsalofttegunda á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn í desember. Samkomulag myndi hafa bein áhrif á fæðuöryggi í heiminum, þar sem auka þyrfti landbúnaðar- og sjávarútvegsframleiðslu um 70% á næstu 40 árum miðað við mannfjöldaspár.

Sagði ráðherra Íslendinga vera reiðubúna að deila þekkingu sinni á nýtingu sjálfbærra fiskistofna, á landgræðslu til að endurheimta land sem nýta mætti til landbúnaðar og á nýtingu endurnýjanlegra orkulinda. Þessari þekkingu væri nú þegar komið á framfæri í gegnum stofnanir Sameinuðu þjóðanna, m.a. sjávarútvegs- og jarðhitaskóla SÞ.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum