Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. nóvember 2009 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra Umbúðalaus umræða - málþing um neyslu og úrgangsmál

Ágætu ráðstefnugestir,

Það er mér mikil ánægja að taka þátt í þessu málþingi hér í dag um neyslu og úrgangsmál. Þeir sem standa að þessu málþingi vilja vekja umræðu um neyslumenningu okkar og tengsl við úrgangsmál, hvetja til hraðari innleiðingu vistvænni leiða í vöruhönnun og úrgangsmálum og skapa vettvang fyrir samvinnu þeirra sem tengjast þessum málaflokka. Því hlýt ég að fagna.

Það er nauðsynlegt og löngu tímabært að hver og einn líti í eigin barm og horfi á sig sem neytanda sem getur haft jákvæð áhrif á umhverfismál. Minn lífstíll og þinn svo og breytni okkar skiptir umhverfi okkar máli. Þótt ábyrgð stjórnvalda sé mikil í umhverfismálum þá snúast þau kannski fyrst og fremst um breytta hegðun okkar sem neytenda. Stjórnvöld eiga að sjálfsögðu að ganga fram með góðu fordæmi og skapa skilyrði fyrir vistvæna hegðun neytenda en þegar allt kemur til alls þá eru það fyrst og fremst við sem getum ákveðið með hegðun okkar að breyta og gera betur.

Skipuleg vinna að vistvænum opinberum innkaupum er í gangi hjá mörgum nágrannaþjóðum okkar og hafa þær flestar sett sér aðgerðaráætlanir á landsvísu á þessu sviði.

Fyrr á þessu ári tóku stjórnvöld hér á landi mikilvægt skref þegar ríkisstjórnin samþykkti stefnu um vistvæn innkaup sem var undirrituð af Kolbrúnu Halldórsdóttur umhverfisráðherra og Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra þann 27. mars sl.

Í stefnunni er sagt fyrir um hvernig samþætta á umhverfissjónarmið í innkaupum hjá ríkinu og fyrstu skref tekin hjá hinu opinbera í breyttum neysluháttum. Stefnan er jafnframt aðgerðaráætlun Íslands um vistvæn opinber innkaup.

Íslenska ríkið kaupir vörur, þjónustu og verk fyrir meira en 100 milljarða króna á ári sem er um fjórðungur af útgjöldum ríkisins. Opinber innkaup vega því mikið í heildar innkaupum og því eru vistvæn innkaup gott tæki sem opinberir aðilar geta notað til hvetja til aukins framboðs á vistvænum vörum á markaðnum og um leið draga verulega úr neikvæðum umhverfisáhrifum opinberrar starfsemi. Vistvæn innkaup fela í sér margs konar ávinning fyrir kaupendur, birgja og samfélagið allt. Vistvæn innkaup draga úr umhverfisáhrifum, þau geta minnkað kostnað og aukið gæði og þau hvetja til nýsköpunar. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna er m.a. lögð áhersla á að við innkaup ríkisins, þar á meðal vistvæn innkaup, verði horft til þess að styðja við bakið á innlendri atvinnustarfsemi og nýsköpun.

Við innleiðingu á stefnu um vistvæn innkaup hefur verið lögð rík áhersla á samstarf ríkis og sveitarfélaga. Áhersla er lögð á að þróa verklag og verkfæri sem gera vistvæn innkaup einföld, fagleg og aðgengileg.

Unnið er að því að taka upp vottað umhverfisstjórnunarkerfi í umhverfisráðuneytinu og lögð er áhersla á að nota umhverfismerktar vörur og þjónustu. Umhverfisstjórnunarkerfi og umhverfismerkingar hafa áhrif á vistvæna vöruhönnun og um leið úrgangsmálin.

Norræna umhverfismerkið Svanurinn varð 20 ára þann 6. nóvember sl. Svanurinn hefur náð ótrúlegum árangri á tuttugu árum, er leiðandi umhverfismerki á Norðurlöndum og setur að miklu leyti þann grunn sem evrópska umhverfismerkið Blómið byggir sínar viðmiðanir á. Framtíðarsýn Svansins er sjálfbært samfélag með sjálfbæra framleiðslu og neyslu. Neytendur og innkaupaðilar sem velja umhverfismerkt stýra markaðnum í átt að sjálfbærni og lágmarka heildarumhverfisáhrif samfélagsins. Í dag er hægt að Svansvotta yfir 60 vöru- og þjónustuflokka, þar á meðal þvottaefni, pappír, tölvur, hótel, veitingastaði, ræstiþjónustu, vistvænt eldsneyti o.fl. Undanfarið hefur verið unnið að því að styrkja Svansmerkið hér á landi. Þannig hafa Umhverfisfræðsluráð og Umhverfisstofnun unnið markvisst að því nú síðustu mánuði að efla vitund merkisins hér á landi og hefur það starf þegar borið töluverðan árangur. Mikilvægt er að því starfi verði haldið áfram.

Stefna ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum byggir á meginreglum umhverfisréttar, svo sem varúðarreglunni og mengunarbótarreglunni, eins og þær eru skilgreindar í alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að. Umhverfisvernd sem hefur sjálfbæra þróun samfélags og efnhags að leiðarljósi er sá grunnur sem ný atvinnu- og auðlindastefna stjórnarinnar byggir á. Þannig eru tekin mikilvæg skref í átt til hins nýja græna hagkerfis sem skilar jöfnum vexti, og tryggir að ekki sé gengið á höfuðstól auðlindanna. Þá hefur ríkisstjórnin á dagskrá sinni að endurskoða lög um meðhöndlun úrgangs með þarfir almennings og umhverfis að leiðarljósi í því skyni að ná markmiðum um að dregið verði úr magni úrgangs sem fer til endanlegrar förgunar og auka endurnýtingu.

Hér á landi höfum við haft fyrirkomulag sem hvetur frekar til endurnýtingar úrgangs en að draga úr myndun hans. Það kerfi sem er í gangi hefur þó skilað miklum árangri varðandi endurnýtingu og má t.d. nefna að hlutfall endurvinnslu miðað við magn úrgangs sem fer til endanlegrar förgunar hefur aukist mikið frá því að Úrvinnslusjóður tók til starfa. Árið 2007 fór um 42% úrgangs í endanlega förgun miðað við 83% árið 1995. Endurvinnsla drykkjarvöruumbúða hefur verið mjög há hér á landi frá því að Endurvinnslan tók til starfa fyrir tuttugu árum síðan. En við verðum líka að horfa í hina áttina þ.e. að draga úr myndun úrgangs.

Í þessu sambandi kemur upp orðtakið „ að ósi skal á stemma" sem komið er úr goðafræði en þar segir frá ferð Þórs og Loka til Geirröðagaðra. Á leið þeirra komu þeir að ánni Vimur og óð Þór ána. Allt í einu urðu miklir vatnavextir og náði vatnið Þór upp á herðar. Hann sér þá ofar í ánni hvar dóttir Geirröðar, Gjálp að nafni, stendur og mígur í ána. Þór grípur stein úr ánni og kastar í hana og mælir um leið: „Að ósi skal á stemma." Með því átti hann við að stöðva skal á við upptök hennar en ós virðist hafa merkt upptök í fornu máli, ólíkt nútímamerkingu orðsins. Þessi sannindi eiga enn við. Það verður að huga að hönnun, efnisvali, framleiðslu auk hugafars og vilja hvers og eins þegar draga á úr myndun úrgangs og stuðla að umhverfisvernd. Við verðum semsagt að taka á verkefninu við upptök þess þannig að það verði ekki að vandamáli.

Ný rammatilskipun Evrópusambandsins (2008/98/EB) um úrgang tók gildi 12. desember 2008. Áhersla í nýrri tilskipun er meðal annars á að styrkja aðgerðir til að draga úr myndun úrgangs og innleiða lífferilshugsun. Markmið tilskipunarinnar er að vernda umhverfi og heilsu með því að minnka neikvæð áhrif úrgangsmeðhöndlunar sem og að minnka heildaráhrif auðlindanotkunar og auka hagkvæmni í notkun þeirra.

Ráðuneytið hefur átt greiðan aðgang að fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga og hagsmunasamtaka atvinnulífsins þegar unnið er að hugmyndum í úrgangsmálum og innleiðingu á úrgangsgerðum sem eru eða verða hluti af EES-samningnum. Þetta góða samráð hefur verið ráðuneytinu mjög gagnlegt. Ég tel að ráðuneytið þurfi við vinnu að úrgangsmálum að byggja upp í auknum mæli samráð og samstarf við frjáls félagasamtök og mun ég leggja mitt að mörkum til að stuðla að því.

Starfsemi á vegum hins opinbera og atvinnulífsins hefur með innkaupum, framleiðslu og verklagi veruleg áhrif á úrgangsmál og getur því annars vegar stuðlað að því að draga úr myndun úrgangs og endurnýtingu og hins vegar að því að viðhalda eða auka magn úrgangs. Magn úrgangs hefur hingað til haldist í hendur við efnahagslífið og nú sjást þess merki hér á landi að verulega hefur dregið úr úrgangsmagni. Sumir trúa því að þetta sé lögmál sem ekki verði breytt. Ég tel hins vegar að nú sé lag að byggja grunn til frambúðar til að slíta á þessi tengsl. Það er í auknum mæli unnið markvisst að umhverfisstjórnun og vistvænum innkaupum og hagrænn ávinningur af því er nú þegar merkjanlegur í starfsemi sem hefur tileinkað sér verklag og breytni í þessa veru að vart vilja þeir sem kynnst hafa þessu snúa til baka.

Góðir gestir

Niðurstaða nýliðins þjóðfundar sýnir að umhverfismál og sjálfbær þróun eru mál málanna. Þessi mál komu hvað oftast fram í huga þátttakenda á þjóðfundi þegar fjallað var um þær stoðir sem skipta mestu máli við framtíðarskipan mála á Íslandi. Þessi niðurstaða er okkur mikill meðbyr og á að verða okkur hvatning til að gera enn betur í umhverfismálum og nýta þann jarðveg sem svo sannarlega er fyrir hendi í íslensku samfélagi.

Takk fyrir.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum