Hoppa yfir valmynd

Frétt

23. nóvember 2009 Heilbrigðisráðuneytið

Virkari velferð

Það þarf að snúa af braut stofnanauppbyggingar og koma á kerfi sem byggir á persónulegri notendastýrðri þjónustu. Þetta eru höfuðdrættirnir í tillögum stýrihóps svokallaðs ViVe verkefnis, en Vi Ve stendur fyrir virkari velferð. Stýrihópurinn og þeir sem hafa beitt sér fyrir ViVe verkefninu afhentu og kynntu verkefnið fyrir Álfheiði Ingadóttur, heilbrigðisráðherra, og Árna Páli Árnasyni, félags- og tryggingamálaráðherra, á dögunum.

MND félagið á Íslandi og Öryrkjabandalagið ákváðu á sínum tíma í samvinnu við Evald Krog og félag fólks með vöðvarýrnun í Danmörku að setja saman nýja áætlun fyrir íslensk stjórnvöld um breytingar á velferðarkerfinu í átt til sjálfstæðs lífs fatlaðra utan stofnana. Þetta var gert ma. til að benda á að Ísland hafi setið eftir í þróun aðstoðar við fatlaða til að geta lifað sjálfstæðu lífi. Hér á landi hafi stofnanaúrræði orðið ofan á meðan boðið væri upp á notendastýrða aðstoð í vaxandi mæli annars staðar á Norðurlöndum.

Tillögurnar sem hópurinn afhenti ráðherrunum eru afrakstur hópastarfs verkefnisins þar sem fólk úr öllum stjórnmálaflokkum, hagsmunaaðilar, sérfræðingar og fagfólk hafi komið að smíði þeirra. Segir meðal annars í tillögum hópsins: „Áhersla hér á landi undanfarna áratugi hefur verið á uppbyggingu stofnanarýma og stofnanastýrðrar þjónustu við einstaklinga. Þar fá þeir sem þurfa, aðstoð sem er veitt á forsendum stofnunarinnar og fá engu um það ráðið hver veitir aðstoðina, hvenær hennar er kostur og fæstir eiga möguleika á aðstoðinni annars staðar en innan veggja stofnunarinnar. Vegna þessarar stefnu hafa opinberir fjármunir verið bundnir í steypu í stað þess að efla þjónustu. Á Íslandi búa yfir 5000 einstaklingar í stofnanarými, á hjúkrunarheimilum, sambýlum eða vistheimilum. Kostnaður við stofnanaþjónustu er alla jafna dýrasta þjónustuúrræðið en fullnægir sjaldnar þjónustuþörf. Það er hægt að gera miklu betur í velferðarkerfinu og veita miklu betri þjónustu fyrir sömu fjárhæð.

Það er okkar vilji að velferðarkerfið breyti um stefnu í átt að persónulegri notendastýrðri aðstoð. Þá er þjónustuþörf hvers einstaklings metin á hans forsendum, hann fær tækifæri til að ráða til sín aðstoð, búa heimili sitt þannig að þar sé nægilega gott aðgengi og aðgangur að tækjum og tólum til að lifa sjálfstæðu lífi. Með þessari breytingu á hugsunarhætti og framkvæmd í kerfinu eykst þátttaka fólks með þörf fyrir aðstoð í samfélaginu og á vinnumarkaði, lífsgæði þeirra þar með og heilsufar. Þetta sýnir reynsla annarra landa.“

Í stýrihópi verkefnisins sátu Guðjón Sigurðsson formaður MND félagsins, Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ, Sigursteinn Másson, formaður Geðhjálpar, Sigrún Björk Jakobsdóttir, forseti bæjarstjórnar á Akureyri, og Evald Krog.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum