Hoppa yfir valmynd

Frétt

18. desember 2009 Utanríkisráðuneytið

Samkomulag um þróunarsjóð EFTA áritað

Ísland, Noregur, Liechtenstein og Evrópusambandið árituðu í dag drög að samningi um nýjan þróunarsjóð EFTA. Samið var um að framlag til þróunarsjóðsins verði tæplega 200 milljónir evra á ári næstu fimm árin, sem er um 30% hækkun. Engin hækkun verður þó á framlagi Íslands í evrum talið og gaf ESB verulega eftir frá sínum upphaflegu kröfum. Samhliða samningaviðræðunum hafa átt sér stað viðræður um markaðsaðgang með sjávarafurðir. Var staðfest framlenging samninga um árlega tollfrjálsa viðbótarinnflutningskvóta fyrir sjávarafurðir frá Íslandi; nánar tiltekið 950 tonn heilfryst síld, 520 tonn humar og 750 tonn karfaflök.

Samkvæmt samningnum verður framlag Íslands í þróunarsjóð EFTA næstu fimm árin óbreytt í evrum talið frá því sem verið hefur undanfarin fimm ár, eða ríflega 7 millj. evra árlega. Á sama tíma hækka heildarframlög Noregs um alls 22% og framlög Liechtenstein um 33%.

Þróunarsjóður EFTA var stofnaður í þeim tilgangi að jafna efnahagslegan og félagslegan mismun á EES-svæðinu. Með samningnum um stækkun EES-svæðisins var samið um aukin framlög EFTA-ríkjanna þriggja til fjármögnunar á umbótum og uppbyggingu í þeim aðildarríkjum ESB sem standa illa í efnahagslegu tilliti. Markmiðið er að jafna samkeppnisstöðu þeirra aðildarríkja sem standa að innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins með því að draga úr efnahagslegri og félagslegri misskiptingu innan svæðisins.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum