Hoppa yfir valmynd

Frétt

28. janúar 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Suðvesturlínur ekki í sameiginlegt mat

Umhverfisráðuneyti
Umhverfisráðuneyti

Umhverfisráðuneytið hefur staðfest ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 30. október 2009 um að ekki skuli fara fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar Suðvesturlínur, styrking raforkuflutningskerfis á Suðvesturlandi, og öðrum framkvæmdum sem henni eru háðar og/eða eru á sama svæði. Ráðuneytinu bárust kærur frá Landvernd, Náttúruverndarsamtökum Íslands og Græna netinu vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar.

Umhverfisráðherra vísaði með úrskurði sínum 29. september 2009 fyrri ákvörðun Skipulagsstofnunar vegna Suðurvesturlínu frá 25. mars 2009 til nýrrar efnislegrar meðferðar hjá stofnuninni  þar sem málið taldist ekki nægjanlega upplýst. Í úrskurðinum fólst  ekki efnisleg afstaða ráðuneytisins til lykta málsins. Skipulagsstofnun tók málið til efnismeðferðar og tók ákvörðun að nýju í málinu þann 30. október 2009. Niðurstaða Skipulagsstofnunar var sú að ekki skyldi fara fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar Suðvesturlínur, styrking raforkuflutningskerfis á Suðvesturlandi, með öðrum framkvæmdum sem henni væru háðar og/eða væru á sama svæði. Í úrskurði umhverfisráðherra í dag kemur fram að  það sé mat ráðuneytisins að málið hafi verið upplýst á fullnægjandi hátt af hálfu Skipulagsstofnunar og að stofnunin hafi þar með uppfyllt rannsóknarskyldu sinni í málinu.

Ráðuneytið telur m.a. eftirfarandi meginröksemdir mæla gegn því að fram fari sameiginlegt mat á framkvæmdum tengdum Suðvesturlínum:

  1. Ekki liggja fyrir upplýsingar um fleiri en eina fyrirhugaða matsskylda framkvæmd sem séu á sama svæði eða háðar hver annarri. Kærendur nefna að ýmis áform sé uppi um virkjanir sem tengst gætu Suðvesturlínum, en ráðuneytið telur þau áform ekki vera nægilega skýr eða mótuð til að lagastoð sé fyrir því að kveða á um sameiginlegt mat umhverfisáhrifa þeirra og Suðvesturlína.
  2. Þegar hefur verið tekin ákvörðun um mat á umhverfisáhrifum nokkurra framkvæmda sem kæruaðilar vísa til og telja að tengist Suðvesturlínum. Er það mat ráðuneytisins að lögin geri einungis ráð fyrir að slíkt mat fari fram einu sinni. Þar sem umhverfismat viðkomandi framkvæmda er ýmist afgreitt eða á lokastigum sé réttmætt að framkvæmdaaðilar geti þess að umhverfismat haldi áfram í sama farvegi og þegar hefur verið markaður. Á þetta til dæmis við um stækkun Reykjanesvirkjunar, álver í Helguvík, kísilmálmverksmiðju í Helguvík, Bitruvirkjun, Hverahlíðavirkjun og jarðhitanýtingu við Gráuhnúka.
  3. Ýmsar fyrirhugaðar framkvæmdir á Reykjanesinu sem kærendur bentu á og töldu væntanlegt að muni nýta sér flutningskerfi Suðvesturlína teljast ekki matsskyldar og geta því ekki fallið undir sameiginlegt mat skv. 2. mgr. 5. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Þar hefur t.a.m. verið nefnt gagnaver á Ásbrú í Reykjanesi.

Í ljósi alls þessa telur ráðuneytið að ekki séu til staðar forsendur til að beita heimild 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum til sameiginlegs mats framkvæmdarinnar Suðvesturlínur, styrking raforkuflutningskerfis á Suðvesturlandi, með öðrum fyrirhuguðum eða mögulegum framkvæmdum sem henni eru háðar og/eru á sama svæði.

Nánari upplýsingar og nánari röksemdir fyrir niðurstöðu úrskurðar umhverfisráðherra má finna í III og IV. kafla í úrskurðinum sjálfum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum