Hoppa yfir valmynd

Frétt

13. febrúar 2010 Heilbrigðisráðuneytið

20 ára afmælisþing Tilveru

Álfheiður Ingadóttir
heilbrigðisráðherra

 

Ávarp heilbrigðisráðherra á 20 ára afmælisþingi Tilveru
Háskólatorgi
Laugardaginn 13. febrúar 2010 kl. 14:00

 

 

Ágætu afmælisgestir!

Það er mér mikil ánægja að ávarpa ykkur hér í dag í tilefni af 20 ára afmæli Tilveru.

Það hefur mikið áunnist í þessum málaflokki frá stofnun samtakanna og saga þeirra er svo sannarlega samofin sögu meðferða við ófrjósemi hér á landi. En formaður samtakanna, Katrín Björk Baldvinsdóttir, ætlar að fara yfir sögu félagsins hér á eftir og mun ég ekki hafa það af henni.

Hins vegar langar mig að víkja aðeins að yfirskrift afmælisþingsins sem er sálrænar og líkamlegar hliðar ófrjósemi.

Í dag er talið að 10 – 15% para á barneignaaldri eigi við ófrjósemi að stríða. Ófrjósemi veldur barnlausum oft miklum áhyggjum og hugarangri. Margir upplifa erfiða þrautagöngu og mikið andlegt og líkamlegt álag, að ógleymdri mikilli félagslegri pressu sem byggir á staðalímyndinni um að allir eigi sem fyrst að eignast maka og börn. Ef meðferðin skilar ekki árangri eykst álagið oft enn frekar.

Tilvera hefur staðið þétt við bak þeirra sem kljást við ófrjósemi og hafa samtökin átt mikinn þátt í að opna þá umræðu og auka skilning á ófrjósemi í samfélaginu, bæði hvað varðar orsakirnar, afleiðingarnar og ekki síður hafa samtökin bent á úrlausnirnar.

Kæru gestir!

Það er ánægjulegt til þess að vita að mikil gróska virðist nú vera hjá félagasamtökum á þessu sviði hér á landi. Nýverið hafa verið stofnuð samtök á borð við hið nýja félag um staðgöngumæðrun og Endó, samtök kvenna með endómetríósu eða „legslímuflakk“ eins og það nefnist á okkar ástkæra ylhýra. Það er gaman að segja frá því að líffræðingurinn Álfheiður Ingadóttir átti nokkurn heiður af þessu ágæta nýyrði og er mjög stolt af. Það var á þeim árum sem við 10 konur vorum að skrifa og staðfæra Nýja kvennafræðarann sem kom svo út 1981. Eitt af markmiðum nýju kvenna­hreyfingarinnar var einmitt að svipta hulunni af kynlífi, kvensjúkdómum og æxlunarfærum kvenna og karla, en öll orðræða um þessi efni var ýmis sveipuð skömm eða dulúð. Og við þóttumst nokkuð góðar að finna lýsandi og gagnsætt íslenskt orð yfir þennan erfiða sjúkdóm sem á latínu og læknamáli nefnist endómetríósis og við fjölluðum um í bókinni undir báðum heitum.

Orðið tæknifrjóvgun kemur þar hins vegar hvergi fram enda aðeins rúm tvö ár frá því fyrsta glasabarnið fæddist í heiminum og ellefu ár þar til sami árangur náðist hér á landi. Í Nýja kvennafræðaranum var hins vegar fjallað um ófrjósemi og sérstaklega á það bent að orsakir hennar megi jafnoft rekja til karla sem kvenna, enda þótt þá hafi verið venjan að kenna konunum um.

Góðir afmælisgestir.

Á þeim rúmum fjórum mánuðum sem liðnir eru frá því að ég tók við embætti hef ég átt þess kost að kynnast starfi fjölmargra félagasamtaka og stofnana innan heilbrigðis­þjónustunnar.

Frjáls félagasamtök eru mikilvægur hluti af hverju samfélagi og svo sannarlega eru þau hluti af innviðum íslenskrar heilbrigðisþjónustu. Þau veita landsmönnum óeigingjarna og mikilvæga þjónustu um leið og þau veita fólki tækifæri til að sameinast um málefni og hafa áhrif og hvetja til framfara.

Málefni félagasamtaka og aðkoma þeirra að heilbrigðiskerfinu eru mér hugleikin og hef ég boðað fulltrúa tæplega 100 félagasamtaka sem sinna verkefnum sem falla að starfssviði heilbrigðis­ráðuneytisins á svokallað ,,Stefnumót ráðuneytisins við þriðja geirann” þann 24. mars nk. og vænti ég þátttöku frá ykkar samtökum. Meginþemu og umræðuefni á þessum fundi verða lífsgæði og grunnþjónusta.

Kæru afmælisgestir!

Að lokum vil ég víkja aðeins að þvi sem verið er að vinna að í ráðuneyti heilbrigðismála. Í maí 2008 var lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um tæknifrjóvgun nr. 55/1996, og m.a. lagt til að einhleypum konum yrði heimilt að gangast undir tæknifrjóvgunar­meðferð. Í athugasemdum við frumvarpið kom fram að nefnd sem undirbjó frumvarpið hefði rætt þann möguleika að heimila staðgöngumæðrun, en komist að þeirri niðurstöðu að slíkar breytingar þyrftu að fá vandaða og ítarlega umræðu og umfjöllun í samfélaginu áður en tillögur að slíkum breytingum yrðu lagðar fyrir Alþingi.

Í lok janúar 2009 var því skipaður vinnuhópur á vegum ráðuneytisins „til að skoða siðfræðileg, lögfræðileg og læknis­fræðileg álitaefni varðandi staðgöngumæðrun og hvort leyfa eigi staðgöngu­mæðrun hér á landi.“

Vinnuhópurinn hefur unnið að áfangaskýrslu sem kom út í vikunni og er aðgengileg á vef ráðuneytisins og standa vonir til þess að hún geti orðið grundvöllur upplýstrar umræðu um staðgöngumæðrun. Vinnuhópurinn hefur aflað ýmissa gagna og upplýsinga um staðgöngumæðrun, m.a. um læknisfræðilegar ábendingar, hvar staðgöngumæðrun er leyfð í heiminum og þá með hvaða skilyrðum. Þá hefur hópurinn leitast við að greina helstu siðferðileg álitamál tengd staðgöngumæðrun, m.a. með því að kynna sér skrif innlendra og erlendra fræðimanna þessa efnis. Loks hefur vinnuhópurinn leitað eftir sjónarmiðum aðila sem hafa hagsmuna að gæta sem og aðila sem hafa reynslu og þekkingu á þessu sviði.

Þetta eru aðeins nokkur brot úr áfangaskýrslunni til að gefa mynd af inntaki hennar. Í skýrslunni er ekki tekin afstaða til spurningarinnar sem brennur á mörgum: Á að leyfa staðgögumæðrun á Íslandi og þá með hvaða takmörkunum? Um það verður fjallað á opnum fundi í mars n.k. sem ráðuneytið mun boða til.

Góðir afmælisþingsgestir.

Mig langar að óska ykkur hjartanlega til hamingju með tugina tvo og félagsmönnum Tilveru alls velfarnaðar í framtíðinni.

Þakka ykkur fyrir.

 

(Talað orð gildir)

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum