Hoppa yfir valmynd

Frétt

23. febrúar 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherrra á stofnfundi Vistvænnar byggðar

Ágætu fundarmenn,

Það er mér sérstakur heiður að fá að setja þennan stofnfund „Vistvænnar byggðar – vettvangs um sjálfbæra þróun í mannvirkjagerð“. Sá vettvangur sem hér er verið að koma á fót er afar mikilvægur fyrir íslenskt samfélag og endurreisn þess. Í slíkri uppbyggingu er ekki aðeins verkefni stjórnvalda að móta stefnuna heldur verða allir að koma að mótun þeirrar framtíðar sem við viljum skapa fyrir komandi kynslóðir. Umhverfismál skipa mikilvægan sess í uppbyggingunni og er þess skemmst að minnast að á þjóðfundinum voru m.a. umhverfismál og sjálfbærni talin tveir helstu máttarstólpa þjóðarinnar til framtíðar.

Ég er sammála þeirri sýn sem fram kemur hjá undirbúningshópnum sem boðaði til þessa stofnfundar að umhverfisvænir starfshættir eru vaxtabroddurinn í mannvirkjaiðnaðinum öllum. Reyndar tel ég það ekki einungis eiga við um mannvirkjaiðnaðinn heldur um alla þá starfsemi sem mótar samfélag okkar.

Leiðarljósið verður að vera sjálfbær þróun í víðu samhengi. Leiðarljós sem felur í sér heiðarleika og gagnsæi gagnvart þeim sem ákvarðanir og stefnumótun hefur áhrif á, jafnrétti kynslóðanna og jafnrétti þjóðanna, virðingu fyrir þeirri náttúru og þeim auðlindum sem við höfum að láni hjá komandi kynslóðum og svo réttlæti þegar við ákveðum með hvaða hætti við nýtum þau gæði sem okkur er treyst fyrir. Allt þetta þarf að hafa í huga þegar teknar eru ákvarðanir stórar sem smáar. Þetta eru þau lífsgildi sem þjóðfundurinn lagði til að væru höfð að leiðarljósi í mótun samfélagsins. Heiðarleiki, jafnrétti, virðing og réttlæti.

Það gefur auga leið að hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar á að umlykja allt í stefnu og starfsemi allra ráðuneyta innan stjórnarráðsins og þar ber umhverfisráðuneytið sérstaka ábyrgð ekki síst að því er varðar skipulags- og byggingarmál. Á dögunum lagði ég fram í ríkisstjórn lagafrumvörp sem munu hafa mikil áhrif á skipulags- og byggingarmál. Annars vegar er um að ræða frumvarp til laga um mannvirki sem gerir meðal annars ráð fyrir að sett verði á fót Byggingarstofnun, sem taki yfir hlutverk Brunamálastofnunar og sinni mannvirkjamálum á mun öflugari hátt en verið hefur til þessa.

Hins vegar er um að ræða endurskoðuð lög um skipulagsmál. Í báðum þessum frumvörpum, og þeim reglugerðum sem setja á í framhaldinu, eru framsækin markmið um sjálfbæra þróun í skipulagi og mannvirkjagerð. Þess má reyndar geta að í núgildandi skipulags- og byggingarlögum er afdráttarlaust markmiðsákvæði um að sjálfbær þróun skuli höfð að leiðarljósi við nýtingu lands og landgæða. Kann að vera að pólitískan vilja hafi skort til að beita ákvæðinu þegar ákvarðanir hafa verið teknar.

Ég hef skipað starfshóp sem hefur það hlutverk að semja byggingarreglugerð með hliðsjón af nýju frumvarpi um mannvirkjalög. Markmiðið starfsins er að setja fram framsæknustu byggingareglugerð á Norðurlöndum hvað varðar sjálfbæra þróun þar sem opin stjórnsýsla, gagnsæi og lýðræðisumbætur eru höfð að leiðarljósi. Þá skal starfshópurinn sérstaklega huga að atriðum eins og vistvænum byggingum, vistvænni byggð, með markmið sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi, þar með talið vistvænni samgöngumáta, til dæmis með því að huga vel að fjölda og staðsetningu bílastæða, reiðhjólastæða, hjólageymsla, sköpun betri aðstæðna til flokkunar sorps í íbúðar- og atvinnuhúsnæði og hagkvæmri orkunotkun í byggingum.

Þá skal nefndin skoða sérstaklega aðbúnað barna s.s. hljóðvist í skólum og íþróttamannvirkjum sem og aðgengismál. Nefndinni er ætlað hafa víðtækt samráð við ýmsa hagsmunaaðila við þessa vinnu m.a. þann nýja vettvang sem hér er verið að stofna til.

Þá má geta þess að Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs hefur ákveðið að gestastofa garðsins á Skriðuklaustri verði byggð samkvæmt vistvænum stöðlum og er reiknað með að gestastofan verði fyrsta húsið hér á landi sem fær slíka vottun samkvæmt viðurkenndum stöðlum. Þá hefur verið ákveðið að nýtt húsnæði Náttúrufræðistofnunar sem rísa mun í Urriðaholti verði byggt samkvæmt vistvænum stöðlum.

Góðir fundarmenn.

Sá vettvangur sem hér er stofnað til í dag er mikilvægur þáttur í uppbyggingu og endurreisn samfélags. Ég vil nota tækifærið og óska Vistvænni byggð alls hins besta og hvet fundarmenn til að nýta þennan nýja vettvang til hagsbóta fyrir manngert umhverfi á Íslandi og þar með betra samfélag til langrar framtíðar. Ég hlakka til að eiga við ykkur samstarf í þessum efnum, þakka ykkur fyrir mikilvægt frumkvæði og vænti þess að okkur takist í sameiningu að efla umræðu og taka ákvarðanir í þágu sjálfbærrar þróunar á öllum sviðum.

Takk fyrir.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum