Hoppa yfir valmynd

Frétt

26. febrúar 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nýjung á sviði vinnumiðlunar og þjónustu við unga atvinnuleitendur

atvinnumidstod-014-allir
atvinnumidstod-014-allir

Atvinnumiðstöð Hafnarfjarðar verður opnuð á næstunni þar sem sinnt verður svæðisbundinni vinnumiðlun, ráðgjöf og annarri þjónustu við atvinnuleitendur í Hafnarfirði, einkum langtímaatvinnulausa og ungt fólk. Þetta þróunarverkefni byggist á samstarfs- og þjónustusamningi milli Vinnumálastofnunar og Hafnarfjarðarbæjar með aðild Fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Hafnarfirði. 

Markmið verkefnisins er að efla þjónustu við unga atvinnuleitendur og fólk sem hefur verið án atvinnu um langt skeið og aðstoða þá við að verða á ný virkir þátttakendur á vinnumarkaði. Stefnt er að opnun svæðisbundinna atvinnumiðstöðva í fleiri sveitarfélögum á næstunni og stórauknu samstarfi Vinnumálastofnunar við stéttarfélög. Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, og Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, undirrituðu samninginn í dag ásamt Gissuri Péturssyni, forstjóra Vinnumálastofnunar, og Haraldi Eggertssyni og Kolbeini Gunnarssyni fyrir hönd Fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Hafnarfirði.

„Það er mikilvægt að nýta krafta nærsamfélagsins á þann hátt sem ráðgert er með þessum samningi. Áhugi Hafnarfjarðarbæjar og aðkoma stéttarfélaganna er mikilvæg forsenda þess að vel takist til og því bind ég miklar vonir við þetta verkefni“ sagði Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra við undirritun samningsins í dag.

Samstarf við stéttarfélög, atvinnurekendur, menntastofnanir og frjáls félagasamtök

Árni Páll Árnason og Lúðvík GeirssonSamkomulagið felur í sér að Hafnarfjarðarbær mun í samráði við Vinnumálastofnun hafa forgöngu um svæðisbundið samstarf við stéttarfélög, atvinnurekendur, menntastofnanir, frjáls félagasamtök og fleiri aðila eftir þörfum. Sérstaklega er stefnt að því að efla vinnumiðlun og faglega starfs- og námsráðgjöf, auka virkni atvinnuleitenda og byggja upp fjölbreytt framboð vinnumarkaðsúrræða á svæðinu, til dæmis með auknum ráðningum atvinnuleitenda í starfsþjálfun, reynsluráðningum, vinnustaðanámi, átaksverkefnum og fleira. Atvinnumiðstöð Hafnarfjarðar mun sinna verkefnum á eftirtöldum sviðum:

  •  Vinnumiðlun
  • Almennri ráðgjöf Vinnumálastofnunar fyrir atvinnuleitendur í Hafnarfirði
  • Sértækri ráðgjöf Vinnumálastofnunar fyrir unga atvinnuleitendur
  • Sértækri ráðgjöf Vinnumálastofnunar fyrir langtímaatvinnulausa
  • Náms- og starfsráðgjöf fyrir einstaklinga og hópa
  • Starfs- og námstengdum vinnumarkaðsúrræðum
  • Atvinnutengdri endurhæfingu
  • Öflun og kynningu á hafnfirskum úrræðum og vinnumarkaði
  • Staðbundnum úrræðum fyrir ungt fólk

Gert er ráð fyrir að allt að fimm starfsmenn sinni þjónustu hjá Atvinnumiðstöð Hafnarfjarðar. Vinnumálastofnun leggur til starfs- og námsráðgjafa eftir þörfum en Hafnarfjarðarbær ræður tvo starfsmenn á grundvelli samnings um átaksverkefni. Annar þeirra skal hafa góða þekkingu á atvinnumálum Hafnarfjarðarbæjar og hinn vera með góða þekkingu á aðstæðum ungs fólks. Bæjarfélagið leggur verkefninu til húsnæði og skrifstofuaðstöðu.

Árangursmat og eftirlit með framkvæmd samningsins

Í lok maí munu samningsaðilar meta árangur verkefnisins og hvort gera þurfi einhverjar breytingar. Vinnumálastofnun annast eftirlit Undirritun samningsinsmeð framkvæmd samningsins og fær reglulega upplýsingar um samskipti Atvinnumiðstöðvar Hafnarfjarðar við atvinnuleitendur í samræmi við ákvæði laga um vinnumarkaðsúrræði og atvinnuleysistryggingar.

 Samningurinn gildir frá undirritun til 1. janúar 2011.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum