Hoppa yfir valmynd

Frétt

9. mars 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Friðlýsing Gjástykkis undirbúin

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra á ferð um Gjástykki
Á ferð við Gjástykki

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra hefur ákveðið að hefja undirbúning að friðlýsingu Gjástykkis. Ákvörðun þess efnis var tilkynnt á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.

Umhverfisráðuneytið óskaði eftir því í ágúst síðastliðnum að Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands sendu ráðuneytinu álit á hugmyndum sem fram höfðu komið um friðlýsingu Gjástykkis, þar á meðal frá Samtökum um náttúruvernd á Norðurlandi. Í áliti Náttúrufræðistofnunar kemur meðal annars fram að Gjástykki sé hluti af eldstöðvakerfi Kröflu sem hafi verndargildi á heimsmælikvarða sem kennslubókardæmi um megineldstöð í rekbelti. Í úttekt stofnunarinnar á verndargildi háhitasvæða á Íslandi segir meðal annars að Leirhnjúkur og Gjástykki skuli njóta hámarks verndar vegna sérstöðu þeirra. Í áliti Umhverfisstofnunar kemur fram að svæðið hafi hátt verndargildi og sé einstakt þegar kemur að náttúruupplifun og tækifærum til fræðslu varðandi landrek og eldgos.

Á grundvelli þessara álita og ótvíræðs verndargildis svæðisins ákvað umhverfisráðherra að undirbúningur yrði hafinn að friðlýsingu Gjástykkis samkvæmt náttúruverndarlögum. Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun verður nú falið að gera formlega tillögu að friðlýsingunni að höfðu samráði við sveitarstjórnir og landeigendur.

Hér er hægt að nálgast álit Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar á hugmyndum um friðlýsingu Gjástykkis.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum