Hoppa yfir valmynd

Frétt

12. mars 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ríki og borg virkja atvinnulaust ungt fólk

Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, og Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, hafa undirritað viljayfirlýsingu um samstarf ríkis og borgar um námskeið fyrir ungt atvinnulaust fólk á aldrinum 16 til 24 ára. Samstarfið byggist á átaki ráðuneytisins og Vinnumálastofnunar Ungt fólk til athafna, og áherslum Reykjavíkurborgar í atvinnumálum ungs fólks.

Markmið námskeiðanna er að stuðla að aukinni virkni ungs fólks án atvinnu í borginni og verður lögð áhersla á að:

  • Efla sjálfstraust
  • Styrkja félagsfærni
  • Styðja við virka náms- og atvinnuleit
  • Þróa í hverfinu úrræði sem henta atvinnulausu ungu fólki

Íþrótta- og tómstundasvið, Vinnumálastofnun og þjónustumiðstöðvar skipuleggja námskeiðin í samráði við Rauða kross Íslands og aðra samstarfsaðila í einstökum hverfum.  Með samstarfi þessara lykilaðila opnast ný tækifæri til að styðja við ungmennin og nýta úrræði sem eru í hverfunum s.s. tómstunda-, mennta-, menningar- og íþróttatilboð. Ennfremur verður leitað samstarfs við fyrirtæki og félagasamtök.

Nýleg könnun rannsóknamiðstöðvarinnar Rannsóknar og greiningar ehf.  í samráði við Reykjavíkurborg, menntamálaráðuneytið og Háskólann í Reykjavík leiðir í ljós neikvæðar afleiðingar atvinnuleysis á ungt fólk.  Reynsla annarra þjóða hefur ennfremur sýnt fram á að ungt fólk í hópi atvinnulausra á frekar en fólk í öðrum aldurshópum á hættu að hafna varanlega utan almenns vinnumarkaðar. Námskeiðin eru liður í því að sporna gegn þessari þróun.

Námskeiðin eru tilraunaverkefni og verður árangur þeirra metinn með reglulegu millibili á framkvæmdatímanum sem er eitt ár. Fyrsta námskeiðið verður haldið í Breiðholti en þar eru á þriðja hundrað manns í þessum aldurshópi án atvinnu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum