Hoppa yfir valmynd

Frétt

22. mars 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Skipulögð leit að krabbameini tryggð til næstu ára

Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra staðfesti samninginn milli Krabbameinsfélagsins og Sjúkratrygginga Íslands
Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra staðfestir samninginn milli Krabbameinsfélagsins og Sjúkratrygginga Íslands

Þjónustusamningur milli Krabbameinsfélags Íslands og Sjúkratrygginga Íslands um skipulagða leit að krabbameini í leghálsi og brjóstum kvenna var undirritaður þann 18. mars í aðalstöðvum Krabbameinsfélagsins í Skógarhlíð. Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra var viðstödd undirritunina og staðfesti samninginn.


„Samstarfið við Krabbameinsfélagið hefur verið mjög árangursríkt og með þessum samningi er félaginu tryggt fjármagn næstu árin til að sinna krabbameinsleitinni áfram,“ segir Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra. „Ísland er fremst í röð hvað varðar bæði forvarnir og meðhöndlun á krabbameini og viljum við tryggja áframhaldandi góða þjónustu í þeim efnum.“

 

37 þúsund skoðanir á ári hverju

Þetta er fimmti samningurinn  sem gerður er milli Krabbameinsfélagsins og stjórnvalda um þessa þjónustu en sá fyrsti var gerður 1988.

Næstu fimm árin verður konum á aldrinum 20-69 ára boðið að koma til leitar að krabbameini í leghálsi með tveggja til fjögurra ára millibili eftir viðmiðum samningsins. Gert er ráð fyrir að gerðar verði um 23.500 slíkar skoðanir á ári.  Brjóstakrabbameinsleit með myndatöku verður boðin konum á aldrinum 40-69 ára á tveggja ára fresti og er áætlaður fjöldi skoðana um 13.500 árlega.

„Tilgangur leitarinnar er að draga úr sjúkdómum af völdum krabbameina í brjóstum og leghálsi og fækka dauðsföllum af þeirra völdum,“ segir Ragnheiður Haraldsdóttir, nýráðinn forstjóri Krabbameinsfélags Íslands, og bætir við að árangur leitar hafi verið mjög góður á Íslandi undanfarin ár.

„Dánartíðni af völdum leghálskrabbameins hefur lækkað um 84% og rúmlega 35% lækkun hefur orðið í dánartíðni vegna brjóstakrabbameina.  Þessum árangri ber að fanga – en hann bendir þó einnig til þess að ná megi enn frekari árangri með reglulegri mætingu í þær skoðanir sem nú hefur verið tryggt að bjóðast áfram hér á landi. Ég hvet því allar konur til að mæta reglulega í skoðun og láta alls ekki hjá líða að mæta!“

Upplýsingar um Leitarstöðina og tímapantanir má finna á vef Krabbameinsfélags Íslands, www.krabb.is

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum