Hoppa yfir valmynd

Frétt

26. mars 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Styrkir til atvinnumála kvenna

Frá afhendingu styrkja til atvinnumála kvenna
Frá afhendingu styrkja til atvinnumála kvenna

Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, úthlutaði í dag rúmum 30 milljónum króna í styrki til atvinnumála kvenna. Sótt var um styrki til rúmlega 300 verkefna og hafa umsóknir aldrei verið fleiri frá því að árlegar styrkveitingar hófust úr sjóði til að efla atvinnusköpun kvenna árið 1991.

Samkvæmt ákvörðun dómnefndar var ákveðið að veita styrki til 55 verkefna og fékk hvert þeirra á bilinu 300.000–2.000.000 króna. Að þessu sinni var auglýst sérstaklega eftir styrkumsóknum frá atvinnulausum konum sem gert höfðu samning um þróun eigin viðskiptahugmyndar.

Miðlun kolefnisheimilda, íslenskt morgunkorn, upplýsingaveita um aðgengismál og margt fleira

Sem dæmi um einstök verkefni sem hlutu styrk að þessu sinni má nefna styrk til vöruþróunar og markaðssetningar á íslensku morgunkorni. Annað verkefni lýtur að kynningu á kolefnismarkaði og byggist á að veita fræðslu, ráðgjöf og upplýsingar til stjórnvalda og verðandi markaðsaðilum í tengslum við miðlun kolefnisheimilda. Þá má nefna upplýsingaveitu um aðgengismál í þjónustufyrirtækjum, opinberum byggingum og við áningar- og útivistarstaði, framleiðslu á birkisafa, vöruþróun og markaðssetningu á ljómandi endurskinsfylgihlutum og margt fleira. Verkefnin eru á fjölbreyttum sviðum og snúa meðal annars að framleiðslu, hönnun, gagnvirkri upplýsingamiðlun og tækniráðgjöf svo fátt eitt sé nefnt.

„Verkefnin sem hlutu styrki og einnig sá mikli fjöldi umsókna sem barst sýnir hve mikill kraftur er meðal kvenna til atvinnusköpunar, mikil hugmyndaauðgi og frumkvæði sem rétt er og skylt að virkja í þágu samfélagsins“ sagði Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, við afhendingu styrkjanna í dag. „Við göngum í gegnum miklar efnahagsþrengingar og því er svo jákvætt og uppbyggilegt að sjá hverju einstaklingar geta áorkað með stuðningi og hvatningu. Styrkir til atvinnumála kvenna hafa verið veittir frá árinu 1991 og hluti af verkefninu er að veita konum sem hyggja á atvinnurekstur ráðgjöf og fræðslu sem ég veit að hefur verið mörgum ómetanlegur stuðningur.“

Styrkirnir voru veittir í Hugmyndahúsi háskólanna kl. 13.00 í dag. Klukkan 16.00 verður húsið opnað og hefst þá kynning á ýmsum áhugaverðum verkefnum kvenna sem hlotið hafa styrki úr sjóðnum undanfarin tvö ár.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum