Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. apríl 2010 Innviðaráðuneytið

Færanlegt forvarnahús tekið í notkun

Sjóvá afhenti í dag Forvarnahúsi svokallað færanlegt forvarnahús, sem er sérinnréttaður vöruflutningabíll með tengivagni sem hefur að geyma búnað og aðstöðu til ökukennslu. Ætlunin er að fara með bílinn um landið og bjóða ökunám.

Færanlegt forvarnahús tekið í notkun.
Færanlegt forvarnahús tekið í notkun.

Jafnframt skrifuðu fulltrúar Forvarnahúss og Ökukennarafélags Íslands undir samstarfsyfirlýsingu um að taka höndum saman um að bjóða uppá ökukennslu í samræmi við nýja reglugerð um ökunám sem tók gildi um áramót og kveður meðal annars á um að ökunemar æfi sig í áhættuvarnaakstri.

Færanlegt forvarnahús tekið í notkun.

Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, flutti ávarp og sagði mikilvægt að ökunemar væru alltaf sem best búnir undir raunveruleikann þegar þeir héldu út í umferðina. Þá sagði hann þennan búnað gefa mikilvægt tækifæri til endurmenntunar ökumanna sem hann sagði brýna, það væri gagnlegt eldri ökumönnum að rifja upp kunnáttu sína sem ökumenn á námskeiði hjá Forvarnahúsi.

Færanlegt forvarnahús tekið í notkun.

Helgi Bjarnason, aðstoðarforstjóri Sjóvár, afhenti forsötðumönnunum Herdísi Storgaard og Einari Guðmundssyni færanlega forvarnahúsið sem gestir skoðuðu síðan.

Með færanlegu forvarnahúsi verður unnt að bjóða námskeiðahald um landið allt og þannig munu ökunemar hvarvetna um landið sitja við sama borð. Búnaður forvarabílsins er hinn sami og finna má í Forvarnahúsinu í Reykjavík og þar er einnig kennsluaðstaða. Bíllinn getur flutt bíl og skrikvagn og veltibíllinn, þar sem menn geta upplifa hvernig bílbelti bjarga, er í tengivagni með bílnum.

Grundvallaratriði í slysavörnum

Ávarp samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fer hér á eftir:

Góðir gestir.

Undanfarin misseri hafa verið gerðar ýmsar breytingar á reglum um ökunám sem miða að því að ökunemar séu sem best búnir undir raunveruleikann þegar þeir halda einir út í umferðina. Við þurfum að búa ökunemum aðstæður og skilyrði sem þeir geta búist við að mæta í hinum harða heimi umferðarinnar og við þurfum að kenna þeim að bregðast rétt við.

Þetta er grundvallaratriði í því markmiði okkar að gera umferðina slysalausa.

Þetta gerum við meðal annars með því að taka í notkun ýmis tæki og tól sem hægt er að nota til að búa til margs konar óvæntar aðstæður sem ökunemi þarf að kunna að bregðast við. Þannig geta nemendur sem læra á bíl á sumrin fengið að aka í ,,hálku” í skrikvagni og þeir geta ekið í lausamöl eða ísingu í ökugerðum og slíkum sérhönnuðum svæðum sem við komum smám saman í notkun.Færanlegt forvarnahús tekið í notkun.

Í dag er stigið þýðingarmikið skref í þessu efni þegar færanlegt forvarnahús fer af stað. Tilgangur þess er einmitt að jafna aðstöðu ökunema um allt land þannig að allir geti æft sig í réttum tækjum og við réttar aðstæður. En þetta á ekki aðeins við kennslu ökunema heldur býður hið færanlega forvarnahús til dæmis uppá það að halda námskeið fyrir eldri ökumenn eða aðra sem vilja auka hæfni sína, fyrir bílstjóra fyrirtækja sem vilja halda sér í góðu formi og raunar fyrir hvern sem er sem vill tryggja að hann sé ávallt góður ökumaður.

Hér er með öðrum orðum komið tækifæri til endurmenntunar í akstri og er það ekki síður þýðingarmikið að mínu viti en margs konar önnur endurmenntun sem okkur stendur til boða.

Þess vegna fagna ég þessu framtaki og óska Forvarnahúsi til hamingju með þennan áfanga. Við stígum hér ákveðið skref í þessa átt og ég fagna sérstaklega samstarfi Forvarnahússins og Ökukennarafélagsins í þessum efnum.

Góðir gestir, ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar en ég sé fyrir mér nýjan áfanga í bættri ökukennslu. Við þurfum að innprenta nýliðinum góða siði og við þó að það sé erfitt að kenna gömlum hundi að sitja þá vil ég brýna fyrir okkur sem þykjumst hafa nokkra reynslu sem bílstjórar að líta vel og vandlega í eigin barm og athuga hvort við gætum ekki haft gott af eins og einu námskeiði hjá Forvarnahúsi eða Ökukennarafélaginu.

Til hamingju með daginn.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum