Hoppa yfir valmynd

Frétt

22. apríl 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra við afhendingu umhverfisviðurkenningar Hveragerðis 2010

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra afhenti umhverfisviðurkenningu Hveragerðisbæjar á sumardaginn fyrsta, 22. apríl 2010, og flutti eftirfarandi ávarp af því tilefni.

Ágætu Hvergerðingar og aðrir góðir gestir,

Ég vil byrja á því að óska ykkur gleðilegs sumars. Sumardagurinn fyrsti er fyrsti dagur Hörpu sem samkvæmt gamla norræna tímatalinu er fyrstur af sumarmánuðum sex. Í norræna tímatalinu  miðaðist tímatalið og heiti mánaða við árstíðir sveitasamfélagsins og skiptust í sex vetrarmánuði og sex sumarmánuði.

Á sumardaginn fyrsta verða kærkomin tímamót á Íslandi. Veturinn er liðinn og við tekur sumar með björtum nóttum, gróanda og vonandi yl og hlýju. Farfuglarnir streyma til landsins og það er alltaf tilhlökkunarefni að fylgjast með komu þeirra. Um þetta leyti hefst sauðburður í sveitum og krakkar eru í óðaönn rifja upp útileiki og alls staðar liggur viss eftirvænting í loftinu.

Íslensk þjóðtrú segir að ef sumar og vetur frjósa saman boði það gott sumar, en með því er átt við að hiti fari niður fyrir frostmark aðfararnótt sumardagsins fyrsta. Áður fyrr var hvarvetna fylgst með þessu, þ.e. hvort saman frysti sumar og vetur. Yfirleitt var það talið góðs viti og jafnvel álitið að rjóminn ofan á mjólkurtrogunum yrði jafn þykkur og ísskánin á vatninu þessa nótt. Í því skyni settu menn skál eða skel með vatni út að kvöldi síðasta vetrardags og vitjuðu svo eldsnemma morguns.

Þessi gamla þjóðtrú minnir okkur á hvað líf okkar Íslendinga er samofið náttúrunni og því sem hún gefur bæði fyrr og nú. Þessar vikurnar erum við enn og aftur minnt á náttúruöflin hér á landi og hvernig þau hafa áhrif á líf okkar, ekki bara okkar sem búum hér á landi heldur í raun fólks um heim allan.

Þið, íbúar Hveragerðis, hafið á síðustu árum verið minnt á kraft náttúruaflanna. Hið nýja hverasvæði sem laðar til sín fjölda ferðamanna sannar þó að sem betur fer gerist það oftar en ekki að eftir hamfarir verður til nýtt og jafnvel enn stórbrotnara landslag. Þessa dagana hugsum við til þeirra sem búa næst þeirri ógn sem stafar af gosinu í Eyjafjallajökli og eiga lífsviðurværi sitt undir auðlindum náttúrunnar þar um slóðir.

Nafn Hveragerðis er í huga mínum tengt sérstökum lífsgæðum - heilsusamlegu líferni þar sem gnægð er af fersku, íslensku grænmeti og stutt að fara út í einstaka og fjölbreytilega náttúru. Bærinn er að mörgu leyti einstakur, hann er einn fárra íslenskra bæja sem ekki stendur við sjávarsíðuna heldur kúrir hér á hraunbreiðu umvafinn fjöllum og hverum, með einstakt útsýni til ósa Ölfusár og á haf út.

Hitinn í iðrum landsins er ein mikilvægasta auðlind okkar og auk hefðbundinnar nýtingar til húsahitunar og rafmagnsframleiðslu höfum við nýtt hann á fjölbreytilegan annan hátt. Þar hafa Hvergerðingar um margt verið í fararbroddi, bæði hvað varðar nýtingu jarðhita sem heilsulindar og síðast en ekki síst til að hefja stórfellda blómarækt og verða þannig „Blómabær Íslands”.

Nýting okkar Íslendinga á jarðhitaauðlindinni er gott dæmi um sjálfbæra þróun í framkvæmd. Reynt hefur verið að gæta þess að taka ekki meira en svæði geta gefið af sér til lengri tíma. Ég tel  mikilvægt að fara varlega gagnvart þessari auðlind eins og öðrum. Þá ber einnig að hafa í huga  að við aukna jarðhitanýtingu eykst losun ýmissa efna út í andrúmsloftið þar á meðal brennisteinsvetnis sem getur valdið óþægindum og haft áhrif á heilsufar fólks.

Við getum þakkað jarðhitanum að við búum við hreinna loft en ella. Það væri hins vegar öfugþróun ef nýting hans færi að verða mengunarvaldur sem getur skaðað heilsuna. Þess vegna ákvað ég að láta vinna að reglugerð um brennisteinsvetni sem ætlað er að taka á umhverfismörkum og áhrif þessarar mengunar á fólk. Vinna við þá reglugerð er nú á lokastigi.

Með stækkun þéttbýlis eykst þörf fólks fyrir að leita út í náttúruna. Fá bæjarfélög - sem þar að auki eru alveg við jaðar stærsta þéttbýlis landsins - hafa upp á jafn fjölbreytta möguleika að bjóða til útivistar og Hveragerði.

Hér í bænum sjálfum eru einstakar náttúruperlur á borð við hverasvæðið þar sem fræðast má um mismunandi tegundir hvera og Varmáin sem liðast í gegnum bæinn. Á svæði skógræktarinnar undir Hamrinum og í kringum bæinn eru fallegar gönguleiðir við allra hæfi. Ekki má gleyma Hengilssvæðinu þar sem njóta má stórbrotinnar náttúru í mikilli nánd við náttúruöflin í iðrum jarðar, hvort sem er gangandi, á hesti eða jafnvel á skíðum. Svona mætti lengi telja.

Golf er íþrótt sem hin síðari ár hefur hrifið fleiri og fleiri Íslendinga. Og svo er einnig hér í Hveragerði þar sem golfklúbbur hefur verið starfræktur í 17 ár. Völlurinn er í sérlega tignarlegu umhverfi. Ætli hann sé ekki eini golfvöllurinn í veröldinni þar sem hveri er að finna inni á vellinum sjálfum og allt í kringum hann?

Golfvellir taka óhjákvæmilega nokkuð landrými og því tel ég mikilvægt að reynt sé að gera þá þannig úr garði að þeir falli sem best að náttúru og landslagi á hverjum stað.

Mér hefur verið sagt að það sé fyrst og fremst fyrir þrotlausa sjálfboðavinnu félaga í klúbbnum að golfvöllurinn í Gufudal er eins og raun ber vitni - til fyrirmyndar hvað varðar uppbyggingu húsa og nánast eins og skrúðgarður sem fellur vel að hinu náttúrulega umhverfi sínu.

Fyrir það hefur Hveragerðisbær ákveðið að veita Golfklúbbi Hveragerðis umhverfisverðlaun bæjarins þetta árið. Það er mér heiður og ánægja að fá að afhenda Golfklúbbnum þessa viðurkenningu hér í dag og vil ég biðja fulltrúa hans um að koma hingað og veita henni móttöku.

Að lokum vil ég óska ykkur öllum góðs og gjöfuls sumars.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum