Hoppa yfir valmynd

Frétt

23. apríl 2010 Utanríkisráðuneytið

Ávarp við opnun ráðstefnu um stuðning ESB við atvinnuuppbyggingu og byggðaþróun í aðildarríkjunum.

 

Ávarp

Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra við opnun ráðstefnu um

stuðning ESB við atvinnuuppbyggingu og byggðaþróun í aðildarríkjunum,

Salnum í Kópavogi 15. apríl 2010

 

HIÐ TALAÐA ORÐ GILDIR

Góðir ráðstefnugestir,

Ég vil aftur á því ástkæra, ylhýra bjóða ykkur hjartanlega velkomin til þessarar

ráðstefnu um stuðning ESB við atvinnuuppbyggingu og byggðaþróun. Við

beislum tæknina, þessi ráðstefna er send út á vefnum, og mér er kunnugt um að

víða um land eru hópar og áhugamenn komnir saman til að fylgjast með á

netinu. Fyrir hönd okkar hér í Salnum í Kópavogi býð ég ykkur sem fylgist með

fjarri velkomin í hópinn.

 

Framundan eru tveir dagar, vonandi innihaldsríkir, þar sem fjallað verður um

málefni sem skipta miklu máli. Byggða- og atvinnumálin snerta alla Íslendinga

og brenna kannski heitar á okkur núna en nokkru sinni fyrr.

 

Íslendingar hafa aldrei staðið frammi fyrir varanlegu atvinnuleysi svo nokkru

nemi. Ég er sjálfur af kynslóð þar sem menn gátu yfirleitt valið um störf og lífið

byggðist oft á því að vera í 2-3 störfum á fjárfrekum átakaskeiðum í lífi ungra

fjölskyldna. Bankahrunið með öllum sínum geigvænlegu afleiðingum hefur

breytt þessu.

 

Þó spár greiningarstofnana og alþjóðlegra stofnana um atvinnuleysi í upphafi

kreppu hafi ekki gengið eftir, og atvinnuleysi sé sem betur fer töluvert minna en

spáð var í upphafi bankahruns, þá er samt engum blöðum að fletta um þá

staðreynd að við þörfnumst á næstu árum róttækra aðgerða í atvinnumálum. Þar,

ekki síst, liggja áskoranir dagsins.

 

Við getum ekki sætt okkur við að 15 þúsund Íslendingar séu án atvinnu og það

má aldrei gerast að atvinnuleysi festist hér í sessi. Þess vegna er þessi ráðstefna

svo þörf og smellur raunar inn í brýnustu mál dagsins.

 

Atvinnumálin tengjast líka byggðamálunum með beinum hætti. Það er ótækt ef

hinar dreifðu byggðar landsins sitja ekki við sama borð og höfuðborgarsvæðið

hvað varðar tækifæri til að halda í fólkið sitt. Það segir gamall byggðaráðherra

úr hundrað-og-einum sem að upplagi er líka sveitamaður í blóðinu. Ekkert á

mínum ferli gegnum fjórar ríkisstjórnir hefur gefið mér eins mikla ánægju og

vinna að byggðamálum og af fáu er ég jafn stoltur og þeirri staðreynd að síðasta

árið mitt sem byggðaráðherra var jafnframt fyrsta árið þar sem þróuninni var

snúið við eftir áratuga niðursveiflu, og fleiri fluttust á landsbyggðina en af henni.

Svo ég er vanur maður í byggða- og atvinnumálum!

 

Þessi ráðstefna hér í dag er einmitt kjörið tækifæri til þess að kynnast og fræðast

um stuðning ESB við atvinnu- og byggðamál, hvernig við viljum undirbúa

okkur fyrir aðild, og til að ræða stefnu og strauma í þessum málum í löndunum í

kringum okkur.

 

Ágætu gestir,

Síðustu dagar hafa verið viðburðarríkir og öll höfum við fylgst náið með

umræðu um skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Þar kom gríðarlega margt á

óvart. Rannsóknarskýrslan snýst um uppgjör við fortíðina. Í henni er skoðað hvað fór

úrskeiðis, hvort og þá hvernig lög voru brotin og hverjir bera ábyrgðina. Nú

þegar skýrslan liggur fyrir ber okkur að sýna þá ábyrgð að fjalla vandlega um

hana og draga af henni rétta lærdóma. Það erum við meðal annars að gera á

öðrum minna vinnustaða, þeim við Austurvöll, og út um allt samfélagið.

Umsókn Íslands um aðild að ESB snýst hinsvegar um framtíðina. Að fá úr því

skorið hvað felst í aðild Ísland að ESB, skýra út hvaða heildarávinning það færir

íslenskri þjóð, og hvernig tryggja megi grundvallarhagsmuni Íslands í

aðildarsamningi.

Ég er þess fullviss að aðildarviðræðurnar muni ganga vel og að aðild, ef

samþykkt af íslensku þjóðinni, muni reynast gæfuspor. Fyrir þeirri skoðun minni

liggja mörg rök.

Í fyrsta lagi hefur ESB alltaf tekið vel á móti nýjum aðildarríkjum sem hefur

tekist að verja grundvallarhagsmuni sína í aðildarsamningum. ESB hefur ávallt

sýnt sveigjanleika og skapandi hugsun til þess að koma til móts við þarfir nýrra

aðildarríkja. Gildir einu hvort um er að ræða landbúnað á norðurslóðum eða í

Ölpunum, sumarbústaðajarðir á Jótlandi eða fiskveiðar á Möltu, - í öllum

tilvikum hefur tekist að finna lausnir sem tryggja allra hag.

Það er enginn efi í mínum huga um að við Íslendingar getum í komandi

aðildarviðræðum náð samningum sem tryggja að hér verði áfram blómlegur

sjávarútvegur, þróttmikill landbúnaður og sterkur alþjóðlegur gjaldmiðill. Við

höfum sterkari stöðu í samningum en flestir gera sér grein fyrir.

Samkvæmt reglum Evrópusambandsins á ekkert aðildarríkja tilkall til

veiðiheimilda í íslenskri lögsögu. Íslenskur sjávarútvegur er gríðarlega öflugur

og samkeppnishæfur.

Íslenskur landbúnaður nýtur jafnframt ótvíræðrar sérstöðu, hann er

umhverfisvænn og íslenskir bændur framleiða frábærar afurðir sem ég er viss

um að ekki bara Íslendingar munu áfram kaupa, heldur einnig neytendur um alla

Evrópu. Við höfum líka sterkt hald í þeirri staðreynd að í víðsjálum heimi verða

þjóðir, ekki síst þær sem eru úr alfaraleið, að búa við tryggt fæðuöryggi. Það er

heldur enginn efi í mínum huga um að með tilliti til fyrirhugaðra breytinga í

heiminum í kjölfar samninga Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar verður íslenskum

landbúnaði betur borgið innan Evrópusambandsins en utan.

 

Í öðru lagi hafa hrakspár og hræðsluáróður í tengslum við Evrópusamstarfið og

Ísland aldrei reynst á rökum reistar. Þannig var bæði talið að aðildin að EFTA

árið 1970 og EES rúmum tveimur áratugum síðar myndu leiða til þess að við

glötuðum sjálfstæðinu, landið yrði fámennt, fátækt, við myndum missa bæði

lönd og gæði og tapa yfirráðum yfir fiskveiðiauðlindinni. Ekkert af þessu

gerðist. Þróunin varð gagnstæð.

Síðast en ekki síst hefur Evrópusambandið náð veigamiklum árangri í að tryggja

stöðugleika í aðildarríkjum sínum með lágri verðbólgu og vöxtum, heilbrigðu

viðskiptaumhverfi og viðvarandi og hóflegum hagvexti.

Ég er þeirrar skoðunar, með hliðsjón af þeim alvarlega vanda sem við blasir á

Íslandi eftir hrunið, að nú sé enn meiri ástæða en nokkru sinni fyrr að fá úr því

skorið hvað í aðild getur falist.

Þegar við horfum til framtíðar, og endurreisnarleiðangursins sem við erum stödd

í, þá má segja að Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, taki vel utan um kjarna

þessa máls í stórmerku viðtali við DV fyrr í vikunni þar sem hann segir að það

sé hönnunargalli á íslenska kerfinu. Til framtíðar standi valið um evru eða krónu

með varanlegum gjaldeyrishöftum.

Umsókn um aðild er þannig grundvallarþáttur í endurreisn Íslands. Við þurfum

traustari umgjörð utan um okkar atvinnu- og efnahagslíf. Við þurfum

langtímastöðugleika fyrir fjölskyldur og fyrirtæki og við þurfum að rjúfa

vítahring verðbólgu, vaxta og verðtryggingar sem allt sligar. Við þurfum að losa

okkur við kollsteypuhagkerfið.

Út frá þessum valkostum hafa stjórnarflokkarnir staðið fast við þá

grundvallarafstöðu að fara í aðildarviðræður, ljúka samningi og að því loknu að

láta þjóðina sjálfa eiga lokaorðið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Á því er engin

breyting.

 

Við skulum því standa saman um að aðildarferlið verði okkur öllum til sóma, að

hér fari fram opin og lýðræðisleg umræða um kosti og galla aðildar. Við skulum

bera virðingu fyrir skoðunum hvers annars og ræða málin út frá því hvað best er

fyrir Ísland í bráð og lengd.

ESB er ekki töfralausn en aðild getur orðið okkur að verulegu liði til að byggja

hér nýtt Ísland, nýja framtíð.

 

Ég óska ykkur góðrar umræðu og skoðanaskipta á þessari mikilvægu ráðstefnu.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum