Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. maí 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Nýtt hjúkrunarheimili rís í Reykjanesbæ

Hjukrunarheimili-Reykjanesbae-023Hjúkrunarheimili fyrir 30 aldraða verður byggt á Nesvöllum í Reykjanesbæ samkvæmt samningi sem Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, og Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, undirrituðu í gær. Áætlað er að heimilið verði tekið í notkun sumarið 2012.

Reykjanesbær leggur heimilinu til lóð og sér um hönnun og byggingu þess. Áætlaður stofnkostnaður er 813 milljónir króna. Íbúðalánasjóður mun lána Reykjanesbæ fyrir allt að 100% byggingarkostnaðar til 40 ára að hámarki. Ríkissjóður greiðir síðan leigu á samningstímanum sem svarar til 85% af stofnkostnaði og hefjast leigugreiðslur við afhendingu húsnæðisins. Stofnkostnaður sveitarfélagsins er 15%.

Lengi hefur verið stefnt að byggingu hjúkrunarheimilis í Reykjanesbæ og hefur Félag eldri borgara á Suðurnesjum verið ötull talsmaður fyrir framkvæmdunum. Undirritun samningsins markar því tímamót og er af mörgum ástæðum gleðiefni, sagði félags- og tryggingamálaráðherra við þetta tilefni: „Samningurinn gerir langþráð áform um byggingu hjúkrunarheimilis í Reykjanesbæ að veruleika. Þörf fyrir nýtt hjúkrunarheimili er óumdeilanleg og brýn og mun bæta til muna aðstæður aldraðra á svæðinu sem þurfa á þessari þjónustu að halda. Framkvæmdirnar skapa líka störf á svæði þar sem atvinnuástand er afar erfitt og það er líka mjög mikils virði."

Félags- og tryggingamálaráðherra gekkst nýlega fyrir lagabreytingu sem heimilar Íbúðalánasjóði að lána sveitarfélögum fyrir öllum byggingarkostnaði hjúkrunarheimila og er samkomulagið byggt á þeim grunni. Sambærilegir samningar hafa verið undirritaðir um byggingu 30 rýma hjúkrunarheimilis í Mosfellsbæ og 60 rýma heimilis í Hafnarfirði. Unnið er að samningsgerð við sex sveitarfélög til viðbótar og verða alls byggð um 360 hjúkrunarrými.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum