Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. maí 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfismál eru atvinnumál

Í Hallormsstaðaskógi
Í Hallormsstaðaskógi

Hluti af metnaðarfullu atvinnuátaksverkefni stjórnvalda fyrir námsmenn og atvinnulausa eru 337 störf í þágu umhverfis og náttúru á Íslandi.  Að verkefninu koma stofnanir umhverfisráðuneytisins og ráðuneytið sjálft og er um gríðarlega fjölbreytt störf að ræða. Sum gera ráð fyrir tiltekinnni menntun eða sérhæfingu en önnur felast í útiverkefnum þar sem tækifæri gefst á að kynnast landinu og vinna því gagn með ýmsu móti.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra leggur mikla áherslu á að sá mikli fjöldi starfa sem hér er til ráðstöfunar geti eflt umhverfis- og náttúruvernd umtalsvert en ekki síður gefið fjölda fólks tækifæri til að kynnast og fræðast um fjölmargar hliðar málaflokksins.

Í umhverfisráðuneytinu eru auglýst tvö störf bókasafns- og upplýsingafræðinema. Umhverfisstofnun auglýsir meðal annars starf aðstoðarmanns við Svaninn og vistvæn innkaup, 50 verkamannastörf með sjálfboðaliðum á friðlýstum svæðum og starf háskólanema við gerð kynningarefnis um loftslagsmál og efnavörur. Náttúrufræðistofnun Íslands auglýsir meðal annars fjögur störf við gróðurkortagerð og níu störf við skráningu á dýrasöfnum og skráningu steinasafns. Vatnajökulsþjóðgarður auglýsir meðal annars þrjú störf við fræðslu í gestastofum og fjölda starfa við stígagerð, málningarvinnu og garðyrkju. Landmælingar Íslands auglýsa tíu störf vegna átaks við skráningu örnefna. Veðurstofa Íslands auglýsir sex störf við viðhaldsvinnu á tækjabúnaði. Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn auglýsir þrjú störf við greiningu líffræðilegra sýna úr Mývatni og Laxá. Skipulagsstofnun auglýsir starf tengt nýrri skipulagsvefsjá og Úrskurðanefnd skipulags- og byggingarmála auglýsir starf laganema. Stofnun Vilhjálms Stefánssonar auglýsir starf aðstoðarmanns við aðsetur alþjóðlegra norðurslóðasamtaka. Brunamálastofnun auglýsir eftir starfsfólki til að sinna tölvuverkefnum og til að útbúa hættumat og viðbragðsáætlun vegna gróðurelda. Landgræðsla ríkisins auglýsir meðal annars 40 störf við förgun aflagðra og ónýtra girðinga um land allt og þrjú við kortlagningu á útbreiðslu lúpínu. Skógrækt ríkisins auglýsir meðal annars 40 störf við gróðursetningu og áburðargjöf, 20 störf við grisjun skóga og eitt starf starf háskólanema í náttúruvísindum hjá Hekluskógum.

Störfin eru opin öllum sem eru á atvinnuleysisskrá og námsmönnum sem eru á milli anna og skólastiga. Störfin eru auglýst á heimasíðu Vinnumálastofnunar og opnað verður fyrir umsóknir á miðvikudaginn 12. maí og umsóknarfrestur er til 19. maí.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum