Hoppa yfir valmynd

Frétt

12. maí 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á ráðstefnu um vernd og endurheimt votlendis

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flutti eftirfarandi ávarp á ráðstefnu um vernd og endurheimt votlendis sem haldin var á Hvanneyri 12. maí 2010 undir yfirskriftinni Endurheimt votlendis - hvað þarf til?

 Fundarstjóri, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, góðir ráðstefnugestir,

Það er mér sérstök ánægja og heiður að fá að ávarpa þessa ráðstefnu og vera með ykkur hér í dag. Það voru hins vegar því miður aðrar annir, sem gerðu það að verkum að ég gat ekki verið með ykkur hér strax í morgun, eins og hugur minn stóð til.

Það er auðvitað ekki hægt annað en að nefna hversu einstakt er að koma hér í Borgarfjörðinn á svona fallegum degi. Og ekki er hægt að hugsa sér heppilegri vettvang fyrir umræðu um votlendi, enda Hvanneyrarstaður alltumlukinn votlendissvæðum. Sveitin ykkar hér heitir jú Andakíll, en það örnefni tónar við votlendin og fuglalífið sem eru umfjöllunarefni dagsins. Nafnið Andakíll kemur úr höfuðriti Borgfirðinga – Egilssögu – en um tilurð örnefnisins er fjallað í kaflanum þar sem Skalla Grímur ráðstafar jarðnæði til fylgdarmanna sinna eftir komuna til landsins og segir svo:

“Grími hinum háleyska gaf hann bústað fyrir sunnan Borgarfjörð, þar er kallað var á Hvanneyri; þar skammt út frá skarst inn vík ein eigi mikil; fundu þeir þar andir margar og kölluðu Andakíl, en Andakílsá, er þar féll til sjóvar”.

Og hér á þessum sama stað, Hvanneyri í Andakíl – nú rúmum 1000 árum síðar - eru votlendi enn til umfjöllunar. Það eru ennþá endur á Kílnum þó margt annað hafi breyst síðan á dögum Eglu! En þó endurnar hafi verið þar allar þessar kynslóðir megum við ekki gleyma því að okkur ber skylda til að gera það sem við getum, til að næstu kynslóðir geti notið þeirra líka. Um það snýst inntak sjálbærrar þróunar.

Ágætu áheyrendur:

Umhverfisráðuneytið hefur haft frumkvæði að þessari ráðstefnu með það að markmiði að draga athygli að votlendum í landinu og mikilvægi þeirra. Veit ég að þeir fjöldamörgu sérfræðingar og áhugafólk sem hér flytja erindi í dag munu nálgast það viðfangsefni frá fjölbreyttum sjónarhornum. Það eru mínar væntingar að þannig verði til - að þessum degi loknum - fyllri mynd af því hvað þurfi til eigi endurheimt votlendis að verða að ferkara viðfangsefni hér á landi en orðið er.

Hér í dag er dregin athygli að votlendum úr tveimur skyldum áttum umhverfismála.

- Frá sjónarhóli náttúruverndar, þar sem votlendisvistkerfi skipta miklu máli og eins að í ár er alþjóðlegt ár líffræðilegar fjölbreytni.

- Frá sjónarhóli loftslagsmála, í ljósi þeirrar miklu athygli sem votlendi og röskun þeirra hafa fengið undanfarið í samhengi loftslagsmála.

Jafnframt mun hér á eftir verða tilkynnt um ný svæði á lista Ramsarsamningsins. Ramsar er alþjóðlegur umhverfissamningur um votlendi með það að markmiði að stuðla að verndun og skynsamlegri nýtingu votlendissvæða í heiminum, sérstaklega sem búsvæði fyrir votlendisfugla. Nú þegar eru þrjú votlendissvæði hér á landi á lista samningsins. Það eru Þjórsárver, Mývatn og Laxársvæðið og Grunnafjörður, allt einstök svæði á heimsvísu. Það er mjög ánægjulegt á ári líffræðilegrar fjölbreytni að geta hér á eftir tilkynnt að íslensku Ramsar svæðunum muni fjölga um tvö og að undirrituð verði viljayfirlýsing um það þriðja.

Góðir gestir:

Votlendi eru mikilvægur og einkennandi hluti íslenskrar náttúru, bæði á hálendi og láglendi. Votlendi hafa jafnframt verið mikilvæg fyrir afkomu þjóðarinnar. Fyrir daga vélaaldar þegar þjóðin framfleytti sér af sjálfsþurftarbúskap nýtingu lands gegndu votlendi mikilvægu hlutverki meðal annars til fóðuröflunar auk þess sem mótekja var afar mikilvægur orkugjafi um aldir, ekki síst þegar skógana þraut.

Með innreið vélvæðingar var verulegum hluta votlendis á láglendi raskað eins og aðrir hafa rakið hér betur í morgun. Það að geta ræst fram votlendi varð þannig mikilvæg aðgerð fyrir framþróun landbúnaðar og mikil opinber hvatning til slíkra aðgerða. Skemmtileg ummæli Jóns Sigurðssonar forseta strax árið 1874 gefa vel tóninn um það sem síðar varð:

„Mér þykir vænt um það, ef þið getið drifið upp gufuskip, eða samskot til þess, en vænna hefði mér þótt um, ef þið hefðið strengt þess heit að skera fram og rækta allar mýrar á landinu og drífa upp nóg ket, smjer og osta, etc. — Þá kæmu gufuskipin sjálfkrafa á eftir að sækja vörurnar til ykkar.“

Lítið gerðist reyndar í þessum efnum strax eftir orð Jóns forseta, og má segja að veruleg framræsla votlendis hefjist ekki fyrr en eftir síðari heimstyrjöldina. Ég ætla ekki að rekja hér þessa sögu enda aðrir hér inni sem þekkja hana betur og munu fjalla um í sínum erindum. Staðreyndin er hins vegar sú skv. upplýsingum sérfræðinga hér við Landbúnaðarháskólann að um 4% af flatarmáli landsins hefur verið ræstur fram, sem er stærstur hluti alls votlendis á láglendi.

Það er hins vegar allnokkuð síðan umræða hófst um möguleika þess að endurheimta röskuð votlendi, ekki síst útfrá náttúruverndarsjónarmiðum. Votlendi eru afar mikilvægur hluti lífríkis á landi, enda samofið net frá fjörum og leirum upp um ósa, ár og vötn til mýra og flóa – mikilvæg búsvæði sem fjöldamargar lífverur byggja tilvist sína á.

Sumir segja að ákveðin viðhorfsbreyting hafi orðið í kjölfar róttækra skrifa Halldórs Laxness um „Hernaðinn gegn landinu“ í Morgunblaðið árið 1970. Jafnframt var afar mikilvægt starf unnið við að afla þekkingar á votlendum og leita leiða til endurheimtar á vegum sk. Votlendisnefndar sem starfaði um árabil undir forystu landbúnaðarráðuneytisins. Einnig hafa fulltrúar umhverfisverndarsamtaka eins og Fuglaverndar haft þar mikið að segja. Þessu til viðbótar hafa margir íslenskir vísindamenn unnið markvisst að rannsóknum á votlendum og mikilvægi þeirra, bæði við háskóla og stofnanir. Hér við Landbúnaðarháskólann hefur jafnframt verið stofnað sérstakt Votlendissetur, sem ætlað er að stunda rannsóknir á votlendum í framtíðinni.

Þó verulegur hluti framræstra votlenda hafi verið tekinn til rækunar og annarra landbúnaðarnota er einnig vitneskja um að verulegur hluti þess lands sem ræst var fram hafi ekki verið tekinn til slíkra nota. Það gefur því fyrirheit um að hér séu áhugaverð tækifæri í endurheimt votlendis, án þess að ganga á neinn hátt að hagsmunum íslensks landbúnaðar. Ef vel tekst til í samstarfi við bændur og aðra vörslumenn lands, er hægt að sjá fyrir sér að endurheimt votlendis geti orðið hér verkefni sem unnið verði staðfastlega að til framtíðar í samstarfi við landeigendur. Það er afar jákvætt í því samhengi að skynja það frumkvæði sem Landbúnaðarháskólinn hefur sýnt varðandi endurheimt votlendis og eins mikill fengur í því að fá hér í dag sjónarmið Bændasamtakanna á þetta viðfangsefni.

Votlendi skiptir jafnframt mjög miklu í samhengi loftslagsbreytinga. Staðreyndin er sú að votlendi geymir mikið magn kolefnis. Ísland hefur lagt fram tillögu í alþjóðlegu loftslagsamningaviðræðunum þess efnis að endurheimt votlendis verði gild loftslagsaðgerð í Kyoto samningnum. Með því verði hægt að hvetja til aðgerða til að koma í veg fyrir þá miklu losun kolefnis úr jarðvegi mýra, sem verður í kjölfar framræslu.

Ekki liggur fyrir hvort þessi tillaga verði samþykkt, en óhætt er að segja að hún njóti víðtæks skilnings enda mikilvægi votlenda fyrir loftslagið ótvírætt. Fyrir loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn lá fyrir í samningsdrögunum mótaður texti um það hvernig endurheimt votlendis gæti formast sem loftslagsaðgerð. Hins vegar varð niðurstaðan í Kaupmannahöfn þannig, eins og allir hér vita, að ekkert bindandi samkomulag náðist. Framundan er því ákveðin óvissa í þessu ferli. Fyrirhuguð er aðildaríkjaráðstefna í Mexíkó í vetur sem fremur litlar væntingar eru gerðar til að skili samningi, og síðan í Suður Afríku árið 2011 þar sem vonandi verður hægt að sjá til lands í þessu ferli. Ísland er í hópi þeirra ríkja sem knýja á um að samkomulag takist sem fyrst til að leiða vinnu einstakra ríkja í loftslagsmálum.

Við höfum þær væntingar að með því að endurheimt votlendis verði viðurkennd mótvægisaðverð gegn loftslagsbreytingum, verði til aukinn hvati að ráðast í slík verkefni.

Góðir gestir:

Titill þessara ráðstefnu er “ Endurheimt votlendis – hvað þarf til?”

Margir segja að þrátt fyrir mikla umræðu um endurheimt votlendis undanfarin ár hafi lítið náðst að framkvæma af þeim góðu hugmyndum. Ég hlusta á þau sjónarmið og hef því í hyggju að láta skoða það í umhverfisráðuneytinu hvernig hægt sé að forma viðfangsefnið „endurheimt votlendis“ þannig að það geti orðið handfast, viðvarandi viðfangsefni í stjórnkerfinu. Ég hygg að endurheimt votlendis eigi að skoðast sem langtíma viðfangsefni þar sem samráð og samvinna við bændur og aðra landeigendur er lykillinn að árangri. Við höfum fyrirmyndir af vel heppnuðum verkefnum á sviði landnotkunar svo í vörnum gegn landbroti, landgræðslu og skógrækt sem ég held að geti að einhverju leiti orðið fyrirmyndir að verkefnum á sviði endurheimtar votlendis. Einnig er það vilji umhverfisráðuneytisins að efla vernd lítt og óraskraðra votlenda, bæði með friðlýsingum eins og mun koma betur fram hér í hádeginu og eins með styrkingu á náttúrverndarlöggjöf. Nú er í gangi endurskoðun á náttúruverndarlögunum frá 1999 þar sem þetta verður skoðað sérstaklega.

Við þetta verkefni þarf ráðuneytið að treysta því að geta haft gott samstarf við ykkur sem hér eruð. Ég hef væntingar til þess að niðurstöður þessarar ráðstefnu verið til þess að draga fram hvaða tækifæri eru fólgin í endurheimt votlendis hér á landi og hvað við vitum og vitum ekki um gerð þeirra og virkni.

Ég vil að lokum færa ykkur ölllum sem hér flytja erindi mínar bestu þakkir. Ég þakka Landbúnaðarháskóla Íslands fyrir samstarfið um þessa votlendisráðstefnu og það að vera gestgjafi hér í dag og jafnframt þakka þeim stofnunum umhverfisráðuneytisins sem komu hér að undirbúningi, þ.e. Náttúrufræðistofnun Íslands, Umhverfisstofnun, Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins, ásamt Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu.

Takk fyrir

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum