Hoppa yfir valmynd

Frétt

12. maí 2010 Innviðaráðuneytið

Ótvíræð ósk um láglendisveg í stað fjallvega

Vegagerð á Vestfjarðavegi um Barðastrandasýslur var til umfjöllunar á borgarafundi á Patreksfirði í gær þriðjudaginn 11. maí. Til fundarins boðuðu sveitarstjórnir Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps.

Frá fundi um vegagerð á sunnanverðum Vestfjörðum.
Frá fundi um vegagerð á sunnanverðum Vestfjörðum.

Fundinn sátu fjölmargir íbúar sveitarfélaganna auk þingmanna kjördæmisins og ræðumenn sem voru Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og frá Vegagerðinni þeir Hreinn Haraldsson vegamálastjóri, Magnús Valur Jóhannsson svæðisstjóri og Stefán Erlendsson, forstöðumaður lögfræðideildar.

Alls sátu nærri 200 manns fundinn og eftir að framsögumenn höfðu farið yfir málið tóku þingmenn kjördæmisins og fjölmargir íbúar til máls. Voru fundarmenn nánast á einu máli um að láglendisvegur yfir Þorskafjörð, Gufufjörð og Djúpafjörð væri besti kosturinn en Hæstiréttur hefur ógilt úrskurð umhverfisráðherra um að sú leið væri möguleg.

Forsagan

Málið á sér allnokkra forsögu og snýst um vegagerð á kafla Vestfjarðavegar allt milli utanverðs Þorskafjarðar í austri og Kjálkafjarðar í vestri, einkanlega í Gufudalssveit. Árið 2002 kynnti Vegagerðin nokkrar mögulegar leiðir milli Þorskafjarðar og Kollafjarðar. Þar á meðal var hugmynd um að leggja veginn um Teigsskóg og þvera tvo firði, Gufufjörð og Djúpafjörð, sem kölluð er leið B eða byggja upp veginn í núverandi veglínu, um Hjallaháls og Ódrjúgsháls sem kölluð er leið D. Einnig hefur verið kannað hvað kosta myndi að sleppa veg um Hjallaháls og í stað hans jarðgöng undir hálsinn.

Frá fundi um vegagerð á sunnanverðum Vestfjörðum.

Magnús Valur Jóhannsson rakti í upphafi kostnað og samanburð á þessum leiðum. Þær eru mjög misdýrar og sá ódýrasti er að fara yfir hálsana sem myndi kosta rúmlega þrjá milljarða króna. Þar myndi leiðin þýða styttingu um 6 km miðað við núverandi veg. Dýrasti kosturinn er ef hluti hennar yrði í jarðgöngum en þá er kostnaðurinn áætlaður kringum sjö milljarðar króna og styttingin um 10 km.

Leiðin um þvera firðina, B-leiðin, myndi kosta rúma 4,4 milljarða króna og er hún 12 km styttri en núverandi leið.  

Annar kafli á Vestfjarðavegi sem fyrirhugað er að byggja upp til framtíðar er leiðin um Múlasveit milli Eyrar við Vattafjörð og Þverár í Kjálkafirði. Þar eru tveir valkostir í boði, annars vegar að fara nánast um núverandi veg sem myndi kosta um 2,6 milljarða króna og styttir leið um 5 km. Hinn kosturinn er að þvera utanverðan Mjóafjörð og Kjálkafjörð innanverðan og er kostnaður áætlaður um þrír milljarðar króna og stytting 8 km.

Stefán Erlendsson fór yfir hina lögfræðilegu stöðu málsins sem er þannig í dag að eftir niðurstöðu Hæstaréttar um að úrskurður umhverfisráðherra sé ógildur stendur niðurstaða Skipulagsstofnunar um að leiðin um hálsana sé heimil. Sagði hann unnt að fara þá leið að fengnu framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar Reykhólahrepps. Þrír kostir eru því mögulegir í þessari stöðu, þ.e. að umhverfisráðherra verði falið að úrskurða í málinu á ný, að Skipulagsstofnun taki málið á ný til meðferðar og í þriðja lagi að fara leiðina um hálsana eins og áður sagði.

Frá vegagerð á sunnanverðum Vestfjörðum.

Stefán sagði að yrði umhverfisráðherra fenginn til að úrskurða um málið á ný mætti búast við að málsmeðferð með hugsanlegum kærum gæti tekið tvö til fjögur ár og ef Skipulagsstofnun tæki málið fyrir á ný gæti sá ferill tekið frá fimm árum til sjö ára. Ef valið yrði að byggja upp leiðina á núverandi veglínu um hálsana gæti málsmeðferð tekið hálf til eitt ár og lengjast í tvö og hálft ár ef kæmi til kærumeðferðar á því máli.

Svæðið hefur setið á hakanum

Kristján L. Möller benti í ávarpi sínu á að framkvæmdakostnaður hefði hækkað mjög á síðustu misserum. Þannig myndi verk sem kostnaði einn milljarð árið 2007 kosta 1,6 milljarða króna í dag. Einnig rifjaði hann upp að skera hefði þurft niður framlög til vegamála.  Við fjárlagagerð fyrir árið 2009 hefði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar orðið að lækka framlögin um 6 milljarða króna og jafnframt hefðu hin sérstöku framlög frá sölu Símans sem ætluð voru til vegaframkvæmda einnig verið tekin út en þau námu rúmum fjórum milljörðum króna. Þá hefði ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs einnig orðið að lækka framlögin um 3,7 milljarða króna og við það bætist að skert er heimild til að færa ónotað fé á milli ára.

Í framhaldi af þessu spurði ráðherrann hvaða leið ætti að fara í málinu. Leiðina um hálsana sem tæki stystan tíma eða leiðina um Teigsskóg og þvera Djúpafjörð og Gufufjörð þar sem vegarstæðið er talið ákjósanlegast þar sem það liggur nánast við sjó. Mikil óvissa væri hins vegar um hvenær hægt yrði að hefjast handa ef það yrði yfir höfuð leyft.

Verður að leggja höfuðáherslu á Vestfjarðaveg, unnt getum ráðist í þetta á kannski þremur árum, bæði vegarkaflann um Múlasveit og Gufudalssveit sagði ráðherrann. ,,Þetta svæði hefur setið á hakanum og í það þurfum við að komast sem allra fyrst,” voru lokaorðin í ávarpi ráðherra.

Fjölmargir tóku til máls

Hér á eftir verða rakin nokkur atriði úr máli margra fundarmanna sem tóku til máls en mál þeirra er mjög stytt.

Þórólfur Halldórsson: Sveitarstjórnir og íbúar hafa gengið í takt. Vegagerðin lagði aldrei fram leið B en íbúar bentu á hana og sögðu vænlegasta kostinn. 3.9. 2003 var fallist á að leið B yrði tekin í umhverfismat, 10 ár síðan byrjað var að undirbúa vegagerð á þessu svæði. Arnkötludalur og Djúpvegur áttu að klárast á svipuðum tíma og um leið leiðin milli Flókalundar og Bjarkalundar. Peningar voru fluttir úr áætlunum héðan í verkefni annars staðar. Er fylgjandi leið B, tel hana besta kostinn. Arðsemismat má ekki fæla okkur frá besta kostinum. Stysta leiðin milli Ísafjarðar og Reykjavíkur verður um þessa leið og þá lagast arðsemismatið – ef það er eitthvað mál. En aðalmálið er þessi endalausa og aðdáanlega þrautseigja íbúa, búið að gerast það margt að ekki verði bakkað frá leið B. Hef engar áhyggjur af hæstaréttardómi. Engin umræða hefur verið um hvernig lög um mat á umhverfisáhrifum koma inní íslenska löggjöf, það er gegnum ESB. Í Evrópu er vaxandi áhersla á umferðaröryggi við mat á umhverfisáhrifum. Getur styrkt okkur í sanngjarnri kröfu um að fara leið B, allt að verða búið á norðaustur og austurhluta landsins, eini staðurinn sem við ökum enn á moldarvegum, gerum kröfu um sams konar uppbyggingu hér. Sættum okkur ekki við minna umferðaröryggi en aðrir landshlutar.

Frá fundi um vegagerð á sunnanverðum Vestfjörðum.

Einar K. Guðfinnsson: Brýnasta verkefnið í vegamálum á Ísland. Staðan er flókin og sérkennileg af því að þó að rigndi yfir okkur öllum heimsins peningum þá kæmumst við hvorki lönd né strönd, það sem hefur þvælst fyrir okkur eru lög, reglur, kærur og dómar. Í vegagerð í Gufudalssveit erum við strand, en þar er algjör samstaða heimamanna. Fyrrverandi umhverfisráðherra heimilaði vegagerð um B leið en þá hófst málareksturinn og þar hefur allt verið þeirri leið í óhag. Umhverfismat vegna Kjálkafjarðar tekur ár, skulum bara velja B leið í þetta eina skipti. Kostirnir að óbreyttum lögum eru óviðunandi. Sættum okkur ekki við að fara með veginn uppá hálsana. Hvað er til ráða – bíða í óvissu í 5 ár? 63 fara með löggjafarvald og geta breytt lögunum, við eigum næsta leik, það er ekki undan því vikist að Alþingi segi skoðun sína á málinu undanbragðalaust. Verðum að svara með þeim hætti sem við höfum tök á, að setja lög um málið. Er að undirbúa mál að vegagerð samkvæmt B-leið og úrskurði fyrrverandi umhverfisráðherra verði heimiluð, vona að þetta haldi áfram, vilji íbúa og þingmanna er sá og samgönguráðherra og Vegagerð hafa þegar lýst kostum hennar. Getum ekki verið lengur í óvissu. Alþingi hefur löggjafarvaldið.

Ólína Þorvarðardóttir: Eigi áætlanir um byggðamál að ná fram að ganga hvað varðar Vestfirði verður að bæta samgöngur. Framtíð byggðar veltur á því hvort vegakerfið hér muni standa undir nafni. Verkefnin eru tvö, annars vegar Vestfjarðavegur um Barðaströnd og Dynjandisheiði. Þegar þessar samgöngubætur verða báðar komnar í gagnið mun bílafjöldinn aukast að mun og arðsemin aukast. Lögin vega umhverfið þyngra en umferðaröryggi og almannahagsmuni. Sérstök lagasetning hefur komið til tals á Alþingi, með vísan til almannahagsmuna á þessu svæði, að leggja megi besta veginn að mati heimamanna og fagmanna. Þingmenn Norðvesturkjördæmis eru allir sem einn tilbúnir að leggja sitt lóð á þá vogarskál.

Gunnar Bragi Sveinsson: Lýsi stuðningi við B-leiðina, enda skynsemin sem ræður. Ekki hægt að tala um vegasamband og reikna arðsemismat eins og í Hvalfjarðargöngum eða á Suðurlandsvegi. Þá yrðu engar samgöngubætur. Hægt að reikna sig upp og niður með arðsemi. Dómar hafa ekki fallið vegna náttúru heldur vegna ónógra upplýsinga og umferðaröryggis. Samgönguráðherra verður að tala skýrt um hvaða leið eigi að fara. Ef við erum sammála þá eiga heimamenn að tala skýrt og það er þá B-leiðin. Mun styðja frumvarp vegna laga um leið B, er gott mál og ég vona að þingmenn muni koma í þetta með okkur. Hér eru almannahagsmunir og þetta snýst um líf fólks en ekki bara plantna.

Hreinn Haraldsson: Arðsemi kemur ekkert að valinu milli B og D leiðar, arðsemi er verkfæri sem við notum með ýmsum atriðum og skilur ekki á milli í þessum atriðum, umferðin þarf ekki að vera nema 200 bílar til að vera arðsöm og við vitum að hún verður það fljótlega þegar samgöngubætur eru orðin staðreynd. Vegtæknilega er leið B-besta leiðin.

Gústaf Jökull: Er í samgöngunefnd Fjórðungssambands Vestfirðinga, margar spurningar leita á hugann með þetta mál. Hversu mikið fé höfum við misst af sunnanverðum Vestfjörðum í önnur verkefni? Það er eitthvað að íslensku lagakerfi þegar plöntur og pöddur hafa meiri tilverurétt en við sem byggjum landið. Öll sveitarfélög eiga að hafa svæðisskipulag. Í nýju  aðalskipulagi frá Reykhólahreppi var leið B sem umhverfisráðherra hefur samþykkt.

Guðlaug Björnsdóttir: Finnst þetta niðurlæging, finnst B-leiðin sú eina færa, gott að Einar Guðfinnsson er búinn að uppgötva að eitthvað þarf að gera hérna.

Úlfar Thoroddsen: Glaður að heyra að Einar Kristinn ætlar að beita sér fyrir löggjöf til að þoka áfram vegagerð á þessu svæði. Hef sagt það lengi. Þetta tekur tíma og ég vona að hún njóti stuðnings meirihluta Alþingis. Á meðan á að halda áfram af fullum krafti á leiðinni milli Vatnsfjarðar og Vattarfjarðar, hitt getur tekið 1-2 ár að koma lögunum í gegn og það er raun og veru mjög merkilegt, það var tími til kominn að Einar færi að hugsa.

Guðrún Eggertsdóttir: Saknaði þess að sjá ekki A-leiðina í gegnum Reykhólasveit. Ég held að við verðum að hugsa málið alveg uppá nýtt, virkjun gæti einnig komið inní þetta. Skoðum málið uppá nýtt, held við séum komin í öngstræti.

Lilja Rafney Magnúsdóttir: Eigum allt okkar undir góðum samgöngum, að málinu hafi ekki þokað lengra gegnum árin bitnar mjög á öllu hér um slóðir, hafa þingmenn ekki skilning á aðstæðum hér, það er eins og beðið sé eftir að byggðin brotni undan þessum þunga, horfum ekki til baka, verðum að horfa fram á við og þá verður fólk hér að koma sér saman um hvaða leið á að fara, koma fjármunum í vinnu, ykkar er að leggja línur og okkar að fylgja því eftir.

Ásbjörn Óttarsson: Verkefnið er skýrt. Það liggur fyrir hver vilji heimamanna er, leið B. Búið að taka mörg ár að fá niðurstöðu. Er aðeins eitt að gera, setja lög sem heimila leið B. Því til rökstuðnings má benda á orð vegamálastjóra varðandi kaflann um Eyri-Þverá þar sem nota á sama vegstæði en ekki hægt að heimila endurnýjun vegar nema verkefnið fari í umhverfismat.

Jón Þórðarson: Er umhverfið verðmætara en það sem snýr að okkur. Ef breyta þarf lögum um umhverfismat þarf að gera það, ef það er betri kostur að setja lög um B-leið þá á að gera það. Sammála um að klára tengingu suður áður en við förum að hugsa um tengingu við norðurhluta Vestfjarða. Ekki þvera með hengibrú heldur fljótandi brú með tönkum þar sem koma má fyrir orkuveri. Tel A-leiðina besta kostinn vegna þessa. Þegar kemur að noður-suður leiðinni þarf að endurskoða möguleikana þar.

Guðbjartur Hannesson: Þið eigið ekki að sætta ykkur við neitt annað en það sem boðið er uppá í öðrum landshlutum. Er okkur til skammar að hafa ekki getað staðið okkur betur í þeim efnum. Verðum að skoða lagalegu hliðina, verðum að gæta þess að hugsanlega ný lagasetning komi okkur ekki í ógöngur. Viljinn liggur fyrir okkar er að finna leiðina, það er skylda okkar.

Úlfar Lúðvíksson: Bendi á hversu slæmt vegakerfi Barðstrendingar búa við. Ennþá verið að leggja vegi yfir fjöll, margir fjallvegir eru á leið hingað. Einhverra hluta vegna eru vegstæði hér í sýslunni illa unnin, besta dæmið er nýlagður vegur um Þorskafjörð. Bendi þingmönnum á að þeir verða að kynna sér niðurstöðu Hæstaréttar, hann gagnrýndi vinnubrögð umhverfisráðherra, ekki útséð að rétturinn komist að annarri niðurstöðu ef umhverfisráðherra fer að lögum. Hvað ætla Vestfirðingar að búa hér lengi, erum við ekki að kasta peningum á glæ ef við leggjum veg yfir hálsana, ráðlegg ráðamönnum að draga andann djúpt. Bendi á að á Hengilssvæðinu hafa verið unnin mestu umhverfisspjöll sem landið hefur mátt þola. Tel að sé það vilji Barðstrendinga að fara leið B, þar eru sóknarfæri, er viss um að ef umhverfisráðherra endurskoðar málið muni Hæstiréttur komast að annarri niðurstöðu.

Ásmundur Daðason: Erum sammála um að málið á að fá algeran forgang, í mínum huga er sú forgangsröðun skýr, er með fólkinu hér en ekki öðrum þáttum. Beiti mér með þingmönnum kjördæmisins í málinu til að finna hvaða leið á að fara.

Geir Gestsson: Vil fara leið B, vil ei lenda í erfiðleikum á Klettshálsi, vil vegi á láglendi.

Halldór Halldórsson: Gerðum samgönguáætlun fyrir fjórðungssambandið 1997 sem samstaða hefur verið um, að klára vegagerð um Djúp og sunnanverða Vestfirði. Ef við eigum að velja milli Dýrafjarðarganga og vegar austur frá Patreksfirði þá er ljóst að vegurinn um Barðastrandasýslur hefur forgang. Viljum sjá göng milli norður og suðurhluta en ef færa þarf fjármagn frá göngum eiga þau að fara í Vestfjarðaveg 60 leið B.

Bríet Arnardóttir: Hef áhuga á að ferðast um jökla og hálendið en einn farartálmi eru á heimleiðinni en það eru hálendisvegir á Vestfjörðum. Eigum að velja leið B, held að allir íbúa séu sammála um það.

Ragnar Jörundsson: Ljóst eftir fundinn að einhugur er um leið B. Þessi leið hefur algjöran forgang. Megum ekki sofna á verðinum með samgöngur norður úr. Minni á ályktun aðalfundar Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða sem styður bókun Fjórðungssambands Vestfirðinga sem minnir á að framlög til vegagerðar milli Bjarkalundar og Flókalundar hafa verið ákveðin og framlög til Dýrafjarðarganga eigi ekki að hafa áhrif á þau.

Sigurður Pétursson: Enginn vafi á skilaboðum fundarins til ráðherra og vegamálastjóra. Við styðjum Barðstendinga um leið B, láglendisveginn, og gott að finna skýr skilaboð fundarins um það. Það styrkir vegagerð hér ef við norðanmenn tengjumst við suðursvæðið.

Talað tæpitungulaust

Hreinn Haraldsson: Þakkar fyrir málefnalegan fund. Skýr vilji þorra fundarmanna til vegagerðar í Gufudalssveit. Vegagerðin mælir ekki sérstaklega með leið D umfram annað, en við berjumst áfram við leið B og erum tilbúin að ganga þann veg ef Alþingi og heimamenn vilja, en það þýðir lengri bið. Er óþolandi að horfa uppá þennan landshluta fá svo lítið framkvæmt, gætum þess vegna farið leið D fyrr en ef hægt er að breyta lagaumhverfinu þá höfum við alveg nýja mynd í stöðunni. Berjumst fyrir að þessi vegur komi eins fljótt og mögulegt er.

Kristján L. Möller: Góður fundur og gott að menn tala tæpitungulaust. Tilgangur með þessum fundum er að fá skoðanir ykkar beint í æð. Hef alltaf verið þeirrar skoðunar að íbúar eigi að ráða mestu um mál sín, færa á sem mest af valdinu út á land. Rifjaði upp samþykkt laga um mat á umhverfisáhrifum árið 1993, höfum við ekki stundum gengið of langt. Kannski vantar í lögum að það megi taka tillit til umferðaröryggis. Við skuldum ykkur að fara í þessar framkvæmdir. Arðsemismat – félagshagfræðilegt mat skiptir ekki minna máli, það tekur tillit til byggðar og samfélags, arðsemismat tekur ekki bara til bíla heldur líka fólks. Við höfum heyrt vilja ykkar, að fara B-leið. Erum sammála ykkur í því. Gengur það með þingmannafrumvarpi og samþykki Alþingis? Á meðan verður unnið í Eyri-Þverá og finnum svo fjármuni í hitt. Við vitum hvað þið viljið.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum