Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. maí 2010 Utanríkisráðuneytið

Hagsmunir Íslands og ábyrg utanríkisstefna

Í skýrslunni sem lögð er fyrir Alþingi árlega er m.a. fjallað um eftirfarandi málefni:  

  • Hlutverk utanríkisráðuneytisins í endureisnarstarfi stjórnvalda eftir bankahrunið, þ. á m. hvernig utanríkisráðherra og sendiráð Íslands erlendis hafa talað máli Íslands vegna samstarfsins við AGS og í tengslum við Icesave-málið;
  • Borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins en á hverju ári koma starfsmenn utanríkisþjónustunnar að yfir eitt þúsund málum er varða réttindi, velferð og hagsmuni íslenskra ríkisborgara erlendis;
  • Hagsmuni Íslands á norðurslóðum en í skýrslunni er að finna greiningu á þeim breytingum sem eru að verða í okkar heimshluta, og skýra stefnumótun um að efla utanríkispólitískt vægi Íslands í málefnum norðursins er varðar vernd náttúru og vistkerfa, nýtingu auðlinda, þróun siglingaleiða og samvinnu á sviði leitar- og björgunarstarfa;
  • Undirbúning aðildarviðræðna Íslands og Evrópusambandsins en í skýrslunni er greint frá skipulagi umsóknarferlisins, stöðu undirbúnings á öllum málefnasviðum fyrirhugaðra viðræðna og að fundargerðir samninganefndar og samningahópa hafi verið birtar opinberlega á heimasíðu utanríkisráðuneytisins;
  • Breyttar áherslur í öryggis- og varnarmálum sem endurspeglast m.a. í frumvarpi til laga um breytingar á varnamálalögum og í þeim ásetningi stjórnvalda að skapa breiða sátt í málaflokknum sem byggi á herleysi Íslands og víðtækri skilgreiningu á öryggi;
  • Bætta umgjörð um framlag Íslands til þróunarsamvinnu og áframhaldandi starf að alþjóðlegum mannréttinda- og jafnréttismálum sem er meginþáttur í utanríkisstefnunni;
  • Rekstur EES-samningsins og gerð viðskiptasamninga þar sem m.a. kemur fram að tíu nýir upplýsingaskiptasamningar um skattamál hafa verið gerðir við erlend ríki og að markmiðið sé að ná samningum við öll þau ríki sem OECD hefur skilgreint sem skattaparadísir á næstu tveimur árum;  
  • Starf utanríkisþjónustunar að upplýsinga- og menningarmálum en kröftug menningarkynning og hnitmiðuð upplýsingamiðlun um Ísland og íslensk málefni, þ. á m. á vettvangi fyrirhugaðrar Íslandsstofu, er mikilvægur þáttur í endurheimt orðspors Íslands;
  • Hagræðingu og sparnað í rekstri utanríkisþjónustunnar en utanríkisráðuneytið var innan fjárheimilda á árunum 2008 og 2009 sem náðist með samstilltu hagræðingarátaki á öllum sviðum s.s. með lækkun ferða- og launakostnaðar, lækkun húsnæðiskostnaðar sendiráða og fækkun útsendra starfsmanna.  

Umræður um skýrslu utanríkisráðherra hófust á Alþingi í morgun kl. 10.30 og munu standa fram eftir degi.

Skýrsla utanríkisráðherra til Alþingis (pdf skjal)

Framsaga Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra um skýrsluna (pdf skjal)

Horfa á framsögu Össurar Skarphéðinssonar um skýrsluna á vef Alþingis

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum