Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. maí 2010 Utanríkisráðuneytið

Ræða Katrínar Jakobsdóttur á Alþingi 14. maí 2010 vegna skýrslu samstarfsráðherra um störf Norrænu ráðherranefndarinnar 2009

Virðulegi forseti,

Ég mæli fyrir skýrslu samstarfsráðherra Norðurlanda um norrænt samstarf á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar á árinu 2009.

Skýrslan er unnin í góðu samstarfi við þá starfsmenn ráðuneytanna sem sitja fyrir Íslands hönd í embættismannanefndum á hinum mismunandi fagsviðum norræns samstarfs. Samstarfið er skipulagt í 10 fagráðherranefndum - við þær bætist svo ráðherranefnd samstarfsráðherranna sem ásamt forsætisráðherrum Norðurlanda markar meginstefnu fyrir starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar og mótar stefnu fyrir daglegt samstarf. Í skýrslunni er leitast við að gera því skil sem segja má að hafi borið hæst á árinu. Það ber þó að hafa í huga að norrænt samstarf er mjög umfangsmikið og því er skýrsla sem þessi langt frá því að vera tæmandi.

Í norrænu tilliti var árið viðburðarríkt fyrir okkur Íslendinga, en í skugga mikillar óvissu í stjórnmálum og efnahagsmálum kom röðin að okkur að taka við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni. Á Norðurlandaráðsþingi í lok október 2008 kynntum við formennskuáætlun okkar sem tók síðan gildi 1. janúar 2009. Eftir þeirri áætlun var unnið í samstilltu átaki allra þeirra ráðuneyta sem taka þátt í formlegu norrænu samstarfi, en Íslendingar gegndu formennsku í norrænum nefndum, ráðum og vinnuhópum á árinu.

Meðal áherslumála Íslendinga á formennskuári var að kannaðir yrðu möguleikar ráðherranefndarinnar á samstarfi við hagsmunaaðila í austurfylkjum Kanada um nýsköpun og rannsóknir, sérstaklega á áhrifum loftslagsbreytinga á lífríki hafsins. Í gegnum tíðina höfum við talað fyrir því að ráðherranefndin horfi til vesturs og taki upp samstarf við hagsmunaaðila á Norður-Atlantshafssvæðinu án þess að sá málflutningur hafi fengið mikinn hljómgrunn. Margt bendir til að breyting sé að verða á viðhorfum samstarfslandanna í þessum efnum en í lok formennskuársins fór sendinefnd skipuð fulltrúum ráðherranefndarinnar, Íslands og Danmerkur til fundar við kanadíska ráðherra og háttsetta embættismenn í Ottawa til þess að kanna samstarfsmöguleika. Áhugi Kanadamanna á samstarfi á framangreindum sviðum er mjög greinilegur og hafa Danir, sem gegna nú formennsku, tekið málið upp á arma sína og munu vinna áfram að framgangi þess. Ætlunin er að Norræna Atlantsnefndin, NORA, muni gegna lykilhlutverki í því sambandi.

Vegna efnahagsörðugleika á Íslandi í kjölfar bankahrunsins og hruns íslensku krónunnar ákváðu samstarfs- og menntamálaráðherrarnir að styrkja íslenska námsmenn á Norðurlöndum. Um var að ræða framfærslu- og ferðastyrki til ungs fólks í iðn- og starfsnámi og í háskólanámi. Alþjóðaskrifstofa háskólastigsins og Iðan, fræðslusetur önnuðust umsýslu og afgreiðslu umsókna en ríflega 100 milljónum var á árinu úthlutað til yfir 300 íslenskra námsmanna. Fyrir liggur að sama upphæð verður til ráðstöfunar 2010.

Í tengslum við átakið til að styrkja Ísland var einnig ákveðið að verja 700 þúsund dönskum krónum til þess að upplýsa Íslendinga um þá fjölbreyttu styrkmöguleika sem er að finna innan Norrænu ráðherranefndarinnar. Ráðinn var verkefnisstjóri til að sinna verkefninu sem er vistað hjá Impru. Sama upphæð verður til ráðstöfunar vegna þess á yfirstandandi ári.

Eitt af stærri formennskuverkefnum Íslands var á jafnréttissviði, en það er rannsókn á fyrirkomulagi og gildi fæðingar- og foreldraorlofs í norrænum löndum. Rannsóknarverkefnið var kynnt á ráðstefnu sem haldin var í Reykjavík í október undir heitinu ,,Umönnunarstefna, börn og jafnrétti á Norðurlöndum”. Rannsókninni lýkur á þessu ári og verða niðurstöður þá kynntar. Meðal annarra formennskuverkefna á jafnréttissviði var verkefni um jafnréttisfræðslu í skólum.

Haldin var ráðstefna í Reykjavík þar sem kynnt voru sólskinsverkefni úr skólum eða stefnumótun í norrænu löndunum. Þar var Hjallastefnan meðal annars kynnt, en hún átti 20 ára afmæli á árinu.

Frá árinu 2007 hefur norrænt samstarf í vaxandi mæli tekið mið af hnattvæðingaráætlun forsætisráðherranna sem þeir sammæltust um á sumarfundi sínum það ár. Stærsta einstaka verkefnið í þeirri áætlun er samnorræn rannsókna- og nýsköpunaráætlun á sviði umhverfis, loftslags og orku. Áætlunin er langstærsta samnorræna átakið á þessu sviði, en á 5 ára tímabili mun 400 milljónum danskra króna verða varið til hennar. Norræna nýsköpunarmiðstöðin, Norræna rannsóknarráðið og Norrænar orkurannsóknir munu í sameiningu sjá um framkvæmd áætlunarinnar en henni var formlega hleypt af stokkunum á hnattvæðingarþingi forsætisráðherra Norðurlanda sem haldið var í Bláa Lóninu í lok febrúar. Rannís og Nýsköpunarmiðstöð Íslands kynntu áætlunina fyrir íslensku vísindafólki á opnum fundi sem haldinn var í janúar á þessu ári en í henni eru fólgin mikil tækifæri fyrir þá sem fást við rannsóknir á þessum sviðum.

Vinnumálin eru eitt af viðfangsefnum norræns samstarfs og áttu Íslendingar frumkvæði að nokkrum verkefnum á því sviði á árinu. Haldin var ráðstefna um áhrif atvinnuþátttöku eldra fólks á heilsu og lífsgæði, en bæði fyrirtæki og samfélagið allt geta haft margvíslegan hag af því að þessi hópur sé virkur þátttakandi í atvinnulífinu. Einnig var haldin ráðstefna sem bar yfirskriftina ,,Vinnumarkaður fyrir alla” en viðfangsefni hennar var að benda á nýjar leiðir til að virkja þá sem af einhverjum ástæðum eru utan vinnumarkaðarins.

Á vettvangi norrænu fjármálaráðherranna var unnið að mörgum verkefnum á árinu en eitt þeirra vakti ef til vill mesta athygli hér á landi, en það var um gerð upplýsingaskiptasamninga við lágskattaríki. Fyrir hönd Íslands voru undirritaðir 10 tvíhliða upplýsingaskiptasamingar við lágskattaríki á árinu og er heildarfjöldi undirritaðra samninga 13 talsins.

Norrænt samstarf um sjávarútveg, landbúnað, matvæli og skógrækt er umfangsmikið en þessi málefni eru til viðfangs í einni ráðherranefnd. Bæði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfisráðherra koma að starfi nefndarinnar á norrænum vettvangi. Meðal verkefna sem Íslendingar beittu sér fyrir á árinu voru tvær alþjóðlega ráðstefnur sem haldnar voru í Reykjavík. Önnur fjallaði um nýsköpun í sjávarútvegi og hin um hagræna þætti í auðlindanýtingu. Þátttakendur voru frá Norðurlöndum, Kanada, Bandaríkjunum, Ástralíu og Evrópu auk alþjóðastofnana.

Ég vil að lokum geta þess að Ísland lagði á það sérstaka áherslu á formennskuári sínu að efla samráð Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs á sem flestum sviðum, og sérstaklega að því er varðar undirbúning fjárhagsáætlunar fyrir norrænt samstarf. Ráðherranefndin leitaðist eftir föngum við að koma til móts við óskir ráðsins um forgangsröðun fjárveitinga, en lítið bar í milli og var fjárhagsáætlun ársins 2010 samþykkt á þingi Norðurlandaráðs í góðri sátt.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum