Hoppa yfir valmynd

Frétt

19. maí 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Öryggismál rædd á alþjóðlegri ráðstefnu í Reykjavík

Innlendir og erlendir fyrirlesarar flytja erindi á ráðstefnunni sem sett var í morgun
Innlendir og erlendir fyrirlesarar flytja erindi á ráðstefnunni sem sett var í morgun

Öryggismál stórra og smárra samfélaga eru í brennidepli á ráðstefnu um öruggt samfélag (The European Safe Community), sem fram fer í dag og á morgun.

Fjölmenni tekur þátt í ráðstefnunni, sem Lýðheilsustöð stendur að. Tugir innlendra og erlendra fyrirlesara eru með erindi á ráðstefnunni, sem fram fer á Grand Hótel í Reykjavík. Meðal þess sem rætt verður eru forvarnir gegn sjálfsvígum, slysavarnir, öryggi barna og viðbragðsáætlanir við hamförum.

Ráðstefnan er önnur svæðisráðstefnan í Evrópu um málefnið og sú sjöunda á Norðurlöndunum, en þau hafa verið í fararbroddi í málaflokknum.

Í kynningu vegna ráðstefnunnar kemur fram að slys og ofbeldi eru þriðja algengasta dánarorsök í Evrópu. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, telur þetta ógn við efnahagslega og félagslega framþróun og einn meginvanda lýðheilsu. Til að bregðast við þessu hefur stofnunin beitt sér fyrir því að samfélög vinni að því að geta skilgreint sig sem „öruggt samfélag” og grípi til nauðsynlegra aðgerða til að draga úr líkum á slysum og ofbeldi.

Um 150 samfélög, stór og smá, hafa nú þegar gripið til nauðsynlegra aðgerða til þess að geta skilgreint sig sem örugg samfélög. Fyrsta íslenska bæjarfélagið til þess að taka þátt í verkefninu er Seltjarnarnes, sem nýverið samþykkti að starfa í anda öruggs samfélags.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum