Hoppa yfir valmynd

Frétt

26. maí 2010 Dómsmálaráðuneytið

Kynningarefni vegna sveitarstjórnarkosninga

Konsingaleiðbeiningar vegna sveitarstjórnarkosninga.
Kosningaleiðbeiningar vegna sveitarstjórnarkosninganna 29. maí 2010.

Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið hefur nú sent öllum kjörstjórnum á landinu veggspjöld með kosningaleiðbeiningum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar laugardaginn 29. maí. Annars vegar er um að ræða leiðbeiningar fyrir listakosningar, sem fram fara í 54 sveitarfélögum  og hins vegar fyrir óbundnar kosningar, sem verða í 18 sveitarfélögum. Verða veggspjöldin hengd upp á öllum kjörstöðum landsins.

Almennar leiðbeiningar

Í bæklingi sem ráðuneytið gaf út á ellefu tungumálum auk íslensku og sendi útlendingum sem eiga kosningarrétt í sveitarstjórnarkosningunum er stiklað á stóru varðandi framkvæmd kosninganna. Þar er m.a. fjallað um kosningarrétt, kjörskrá, kjörstaði og atkvæðagreiðslu á kjördag.

Taka ber fram að í bæklingnum er ekki fjallað um með hvaða hætti kjósendum er heimilt að greiða atkvæði sitt þ.m.t.  að breyta röð frambjóðenda eða til útstrikana á nafni frambjóðanda. Kann það að valda þeim misskilningi að sá réttur sé ekki fyrir hendi. Samkvæmt lögum um kosningar til sveitarstjórna má kjósandi breyta nafnaröð frambjóðenda eða hafna frambjóðanda með því að strika yfir nafn hans á þeim lista sem hann kýs. Kjósandi sem vill breyta röð gerir það með því að setja tölustafi við nöfn frambjóðenda, tölustafinn 1 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa efst, töluna 2 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa annað í röðinni o.s.frv., að svo miklu leyti sem hann vill breyta til. Til þess að útstrikun eða breyting á röðun hafi áhrif þurfa 9,1-50% kjósenda að gera breytingar eða strika út. Ekki má eiga við aðra lista á kjörseðlinum því þá getur atkvæðið talist ógilt.

Er nú unnið að þýðingu á ítarlegri kosningaleiðbeiningum fyrir útlendinga hvað þetta varðar, á sömu tungumál og eru í bæklingnum. Þær verða settar hér inn á vefinn jafnóðum og þær berast undir kaflann Information for foreigners og sendar kjörstjórnum fyrir kjördag.

Kosningaleiðbeiningar á kosning.is

Ítarlegar upplýsingar um framkvæmd sveitarstjórnarkosninga er að finna á vefnum www.kosning.is. Þar eru m.a. birtir framboðslistar í öllum sveitarfélögum og hægt er að skoða hvar kjósendur eru á kjörskrá.  

Kosningaleiðbeiningar vegna sveitarstjórnarkosninganna 29. maí 2010 (pdf-skjal)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum