Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. júní 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Skila tillögum vegna nýs Landspítala

Fimm hönnunarteymi sem taka þátt í samkeppni um frumhönnun nýs Landspítala skila í dag gögnum til Ríkiskaupa. Dómnefnd vegna samkeppninnar fær tillögurnar afhentar fyrir helgina, en niðurstöður úr keppninni á að birta 9. júlí næstkomandi.

Dómnefndin, sem níu manns eiga sæti í, og fjölmargir óháðir ráðgjafar, munu næstu vikurnar skoða tillögurnar, að sögn Gunnars Svavarssonar, formanns verkefnastjórnar vegna byggingar nýja Landspítalans. Dómnefndin vinnur eftir fyrirfram skilgreindri forskrift sem liggur fyrir í keppnislýsingu.

Samkeppnin tekur annars vegar til áfangaskipts skipulags lóðar Landspítala við Hringbraut í heild og hins vegar til útfærslu á 66 þúsund fermetra nýbyggingu spítalans. Hluti af verkefninu verður einnig að skoða frumhönnun á 10.000 fermetra byggingu fyrir Háskóla Íslands. Gert er ráð fyrir að hönnun hefjist af fullum krafti í ágúst á þessu ári.

Vel sóttir fundir á landsbyggðinni

Gunnar segir að verkefnastjórnin hafi undanfarnar vikur haldið fundi um nýja Landspítalann á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Fundaferðinni lauk með fundi í Vestmannaeyjum í gærkvöldi. Nokkur hundruð manns, þar á meðal heilbrigðisstarfsfólk, sveitarstjórnarfólk og áhugasamir íbúar hafi sótt fundina.

Meginmarkmiðið hafi verið að skýra verkefnið og tilgang þess. Verkefnastjórnin hafi verið ánægð með viðtökurnar á landsbyggðinni. Fólk hafi helst velt fyrir sér málum sem snúa að hverri sjúkrastofnun fyrir sig og tengslum Landspítala í nánustu framtíð við sjúkrastofnanir landsins.

Almenn ánægja hafi verið með áform um að reisa sjúkrahótel við nýja Landspítalann.

Vonir standa til þess að Alþingi samþykki fyrir þinglok í næstu viku frumvarp um stofnun opinbers hlutafélags vegna byggingar nýja Landspítalans. Þverpólitísk samstaða hefur verið í þinginu um málið, en annarri umræðu um það lauk í dag.

Gert er ráð fyrir að félagið geti hafið rekstur 1. júlí næstkomandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum