Hoppa yfir valmynd

Frétt

18. júní 2010 Utanríkisráðuneytið

Frávik – íslensk myndlist á óvenjulegum tímum

Umfjöllun um Ísland hefur á síðustu misserum verið áberandi í þýskum fjölmiðlum, nú síðast vegna eldgossins undir Eyjafjallajökli en einnig vegna umsóknar Íslands um aðild að ESB og efnahagsþrengingar þær sem Ísland er að ganga í gegnum. Það eru einmitt efnahagsþrengingarnar sem eru bakgrunnur sýningarinnar, FRÁVIK - Íslensk myndlist á óvenjulegum tímum, sem Gunnar Snorri Gunnarsson, sendiherra, opnaði þann 27. maí sl. í sameiginlegu húsi norrænu sendiráðanna í Berlín. Á sýningunni er skoðuð nálgun samtímalistamanna á góðærinu og efnahagskreppunni sem fylgdi í kjölfar falls íslensku bankanna en heiti sýningarinnar, Frávik, vísar til þess um hversu óvenjulegan tíma og ástand er að ræða.

Þessi efnistök listamanna voru einnig rædd á kynningarkvöldi um íslenska myndlist sem sendiráðið stóð fyrir þann 9. júní sl. en meðal gesta voru fulltrúar gallería og safna í Berlín, blaðamenn og listmenn. Nýr framkvæmdastjóri Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar, Dorothea Kirch, og listrænum stjórnanda menningardagskrár Sögueynunnar Íslands, Matthias Wagner K, leiddu umræðuna og gáfu gestum innsýn í íslenskan myndlistarheim. Dorothea notaði einnig tækifærið og kynnti listamennina Libiu Castro og Ólaf Ólafsson, sem verða fulltrúar Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2011.

Áður en umræður hófust leiddi sýningastjórinn, Markús Þór Andrésson, gesti um sýninguna en á henni eru sýnd verk 15 listamanna sem gefa innsýn í þá listsköpun sem átti sér stað á  óvenjulegum tímum. Verkin spanna 7 ára tímabil, sem einkenndist af miklum uppgangi og góðæri en einnig efnahagskreppunni sem þjóðin er nú að vinna sig út úr. Þrátt fyrir að verkin fjalli ekki endilega beint um ástandið þá segir hvert þeirra sína sögu sem endurspeglar veruleika þess umhverfis sem þau spruttu úr.

Listamenn sem eiga verk á sýningunni eru: Arnfinnur Amazeen, Ásmundur Ásmundsson, Bjarki Bragason, Curver Thoroddsen, Íslenski gjörningaklúbburinn, Haraldur Jónsson, Hrafnkell Sigurðsson, Hulda Rós Guðnadóttir, Hulda Hákon, Libia Castro & Ólafur Ólafsson, Ósk Viljálmsdóttir og Unnar Örn. Sýningastjóri er, eins og fyrr var getið, Markús Þór Andrésson.

Mikið hefur verið fjallað um efnahagserfiðleikana sem Ísland er að ganga í gegnum í þýskum fjölmiðlum og hefur gætt aukins áhuga á málefnum Íslands í Þýskalandi. Með sýningunni leitast sendiráðið við að nýta þá athygli á jákvæðan hátt með því að skoða þá listsköpun sem átti sér stað á Íslandi á óvenjulegum tímum, svo óvenjulegum að sýningastjóri sýningarinnar kýs að vísa til þess sem fráviks. Sýningin er unnin í samvinnu við Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar og studd af utanríkisráðuneyti, menntamálaráðuneyti, Útflutningsráði Íslands og Iceland Express.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum