Hoppa yfir valmynd

Frétt

21. júní 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Huga verður að heilbrigði ungmenna

Mikilvægt er að huga að heilbrigði og líðan ungmenna á aldrinum 12-20 ára í því efnahagsástandi sem nú ríkir á Íslandi og víðar í Evrópu, að því er fram kom í ræðu Álfheiðar Ingadóttur heilbrigðisráðherra á fundi norrænna heilbrigðis- og félagsmálaráðherra í Álaborg í Danmörku í dag.  

Á fundinum, sem lýkur á morgun, er m.a. rætt um skipulag heilbrigðiskerfisins, bætta geðheilsu og aðgerðir vegna fjölskyldna sem eru illa settar félagslega.  

Í ræðu sinni benti Álfheiður á að mikill og góður árangur hefði náðst á ýmsum sviðum heilbrigðisþjónustu. Hér stæðu Íslendingar mjög framarlega en ungbarnadauði hér á landi væri einn lægsti í heimi. Þá hefðu lífslíkur aldraðra og fólks með langvarandi sjúkdóma aukist.  

Í þessari stöðu sé mikilvægt að líta sérstaklega til ungmenna á aldrinum 12-20 ára, en hætta sé á að þessi hópur gleymist. Skoða þurfi hvaða lífsgæði þessum aldurshópi séu búin, nú á tímum kreppu og atvinnuleysis. Huga verði að líkamlegri heilsu ungmenna en ekki síður andlegri heilsu.  

Miklar kröfur séu gerðar til ungs fólks um að standa sig vel á öllum sviðum.Það eru gerðar ríkar kröfur um að ungmenni standi sig vel í námi, en jafnframt að þau uppfylli tilteknar staðalímyndir, svo sem útlitslega,” sagði ráðherra. Ýmiss konar iðnaður hafi ungt fólk sem markhóp og megi þar nefna tískuiðnað, áfengisframleiðendur, vímuefnasala og kynlífsiðnað.

Heilbrigðiskerfið hrundi ekki  

Ráðherra fjallaði jafnframt í erindi sínu um þróun í heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Hún lagði áherslu á að þótt efnahagslífið á Íslandi hefði hrunið hefði heilbrigðiskerfið ekki gert það.

Svipuð þróun eigi sér um þessar mundir stað á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum hvað varði endurskipulagningu heilbrigðisþjónustu. Áhersla sé nú lögð á færri einingar en stærri í því skyni að efla stóru sjúkrahúsin. Á sama tíma sé unnið að því að bæta nærþjónustu við fólk með því að efla heilsugæslu og bráðaþjónustu. Þetta hafi m.a. í för með sér nauðsyn þess að styrkja sjúkraflutninga verulega.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum