Hoppa yfir valmynd

Frétt

22. júní 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

3/2010

Mál nr. 3/2010.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

 

Ár 2010, mánudaginn 14. júní kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 3/2010 Torfi Pétursson, Kópalind 6, Kópavogi, hér eftir nefndur kærandi, gegn heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis, Garðatorgi 7, Garðabæ, hér eftir nefndur kærði.

 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

 

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 12. apríl 2010, kærði Torfi Péturssonúnbogason HH hf.   (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis, (hér eftir nefnd kærði) frá 8. mars 2010 um synjun á kröfu kæranda þess efnis að hundur yrði fjarlægður úr fjölbýlishúsinu að Kópalind 6 í Kópavogi.    

Er gerð sú krafa af hálfu kæranda að eiganda hundsins verði gert að fjarlægja hann úr húsinu án tafar.   

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

1. Stjórnsýslukæra dags. 12. apríl 2010 ásamt fylgiskjölum. 

2. Athugasemdir kærða dags. 4. maí 2010 ásamt fylgiskjölum. 

3. Athugasemdir kæranda dags. 14. maí 2010.             

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II. Málsmeðferð

Framangreind kæra barst úrskurðarnefnd 19. apríl 2010.  Kæruheimild er í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. 

III. Málsatvik

Þann 2. mars 2010 óskaði kærandi eftir því við fulltrúa kærða að hundur sem haldinn var í fjöleignarhúsinu að Kópalind 6 yrði fjarlægður úr húsinu án tafar. Ástæða kröfunnar var lykt sem kærandi kvað berast frá hundinum til annarra íbúa í húsinu í gegnum loftstokk og hræðsla barns kæranda við hundinn. Kærði svaraði kröfu kæranda með bréfi dags. 8. mars 2010 þar sem kröfu kæranda var synjað á þeim forsendum að eigandi hundsins hafi ekki gerst brotlegur við ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 eða ákvæði hundasamþykktar nr. 154/2000.

Með stjórnsýslukæru dags. 12. apríl sl. kærði kærandi framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar. 

Kærða var með bréfi dags. 19. apríl 2010 gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau 6. maí sl.

Kæranda var gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum kærða með bréfi dags. 6. maí 2010 og bárust athugasemdir þann 14. maí 2010.

IV. Málsástæður og rök kæranda. 

Til stuðnings kæru sinni byggir kærandi á 13. tl. A-liðar 41. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. Kærandi segir að ákvæðið sé skýrt en þar segir að samþykki allra íbúa í fjöleignarhúsi þurfi til að halda hund þegar fyrir hendi er sameiginlegur inngangur, stigagangur eða annað sameiginlegt húsrými í fjöleignarhúsi. Kærandi býr í fjöleignarhúsinu að Kópalind 6 og lýsir eigninni þannig að um sé að ræða fjölbýlishús þar sem fyrir hendi sé sameiginlegt húsrými. Þar sé m.a. sameiginleg hjólageymsla, vagnageymsla, lóð og sameiginleg og ruslageymsla. Kærandi segir að aðkoma hússins sé einnig sameiginleg en kærandi er íbúi á þriðju hæð hússins en eigandi hundsins er eigandi íbúðar á annarri hæð fyrir neðan kæranda. Kærandi telur aðstæður fyrir framan húsið vera þannig að eigandi hundsins þurfi að ganga fram hjá tröppum sem liggja upp að íbúð kæranda til að komast inn í sína íbúð. Kærandi bendir á að eigandi hundsins hafi ekki aflað samþykkis annarra eigenda hússins áður en hundurinn var fenginn og skráður.  Kærandi fór því fram á við kærða að hundurinn yrði fjarlægður þar sem lög segja að samþykki allra þurfi að liggja fyrir en barn hans er mjög hrætt við hundinn og þorir ekki að nálgast húsið ef hundurinn er úti. Kærandi mótmælir þeirri túlkun kærða í bréfi dags. 8. mars sl. að aðstæður fyrir framan húsið séu þannig að ekki þurfi að afla samþykkis allra eigenda hússins. Kærandi getur með engu móti fallist á framangreint sjónarmið kærða. Kærandi ítrekar í kæru sinni að aðstæður við eignina að Kópalind 6 séu þannig að sameiginleg húsrými séu fyrir hendi og því þurfi eigandi hundsins að afla samþykkis allra eigenda til að halda hundinn.

Kærandi telur það engu breyta í því sambandi að hundurinn hafi sótt hundanámskeið og sé skráður hjá kærða. Framangreint breyti engu um hræðslu barnsins. Kærandi telur  hræðslu barns við hund vega þyngra en heimild til að halda hund. Kærandi krefst þess að eiganda hundsins verði gert að fjarlægja hundinn án tafar þar sem ekki liggi fyrir samþykki allra íbúa hússins.

Í andmælum kæranda er afstöðu kærða þess efnis að ekki þurfi að afla samþykkis allra íbúa fjöleignarhússins mótmælt. Kærandi telur einnig að greinargerð kærða innihaldi rangfærslur og sé þar að auki óraunhæf miðað við þær aðstæður sem eru fyrir hendi í málinu. Kærandi hafnar því alfarið að inngangur hjá eiganda hundsins sé sérinngangur og hann aðgreindur frá öðrum hlutum hússins. Kærandi ítrekar að svæðið fyrir framan húsið sé sameiginlegt svæði sem allir íbúar hússins gangi um hvort sem þeir eru á leið sinni út í bíl eða annað. Kærandi bendir einnig á að eigandi hundsins sé eigandi bílskúrs við eignina og þurfi því óhjákvæmilega að ganga með hundinn yfir sameiginlega rýmið á leið sinni út í bíl. Þá bendir kærandi sérstaklega á að fyrir hendi sé stigi sem sé sameiginlegur og liggi niður í garð hússins. Þennan stiga noti allir íbúar hússins á leið sinni niður í garð, sjoppu, leikskóla eða róló sem er þar fyrir neðan húsið. Kærandi telur því alveg ljóst að eigendur hundsins gangi með hundinn í gegnum sameiginlegt rými hvort sem það er á leið sinni út í sjoppu, út í bíl eða niður í sameiginlegan garð. Kærandi bendir á að stéttin fyrir framan húsið sé lítil eða rétt um 1,92 fermetrar og nálægðin sé því mikil. Kærandi telur því fullljóst að inngangur eiganda hundsins sé ekki aðgreindur frá öðrum svæðum hússins eins og kærði heldur fram í greinargerð sinni. Kærandi fellst ekki á það sjónarmið kærða að við skráningu hunda eigi frekar að skilyrða skráningarleyfi á þann hátt að banna veru þeirra á sameiginlegum rýmum, en að banna hundahald á grundvelli 13. tl. 41. gr. laga nr. 26/1994. Kærandi telur óhjákvæmilegt, eins og aðstæður eru fyrir utan húsið, að íbúar þess og hundurinn hittist á sameiginlegum svæðum, ef eigendur hundsins ætla sér á annað borð út með hundinn. Kærandi telur að sjónarmið kærða sem rakin eru í greinargerð hans lýsi vanþekkingu kærða á lóðarskipulagi við húsið sem kærandi telur ámælisvert, þar sem kærði er bæði leyfisveitandi og umsagnaraðili í málinu.

Kærandi vill ennfremur mótmæla því sjónarmiði kærða að 13. tl. 41. gr. laga nr. 26/1994 hafi verið settur til að fyrirbyggja óþægindi vegna dýraofnæmis. Kærandi bendir á að hræðsla barns við hund hafi í för með sér mikil óþægindi eins og dýraofnæmi. Kærandi ítrekar því kröfu sína og telur ljóst að afla þurfi samþykkis allra íbúa hússins til að halda hundinn. Það komi skýrt fram í 4. gr. hundasamþykktar nr. 154/2000 og 13. tl. A-liðar 41. gr. laga nr. 24/1996, þar sem fyrir hendi sé sameiginlegt rými og sameiginlegir snertifletir við húsið.

Að lokum vill kærandi gera athugasemdir við þá umfjöllun í greinargerð kærða að niðurstaða málsins skipti miklu máli fyrir eiganda hundsins og að hann hafi einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta af úrlausn málsins. Kærandi telur það ekki samrýmast góðum og vönduðum stjórnsýsluháttum að kærði vísi á svo eindregin hátt til sérhagsmuna annars málsaðila. Kærandi ítrekar að báðir aðilar hafi jafn mikla hagsmuni að gæta af úrlausn málsins og að niðurstaða þess skipti alla málsaðila miklu máli. 

V. Málsástæður og rök kærða.

Kærði vill í fyrsta lagi benda á að úrslit málsins kunni að valda eiganda hundsins miklu máli og að hann hafi einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta af úrlausn þess. Af þeim sökum eigi hann rétt á því að fá aðild að málinu í skilningi stjórnsýsluréttar. Kærði telur mat á slíku vera á valdi úrskurðarnefndarinnar.  

Kærði bendir á að reglur um hundahald í lögsagnarumdæmi sveitarfélags Álftaness, Garðabæjar, Hafnarfjarðar og Kópavogsbæjar séu í hundasamþykkt nr. 154/2000 frá 3. mars 2000 en hún var birt í B deild Stjórnartíðinda. Samþykktin var sett með heimild í 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir með síðari breytingum. Kærði bendir á að samkvæmt samþykktinni sé hundahald í umdæminu takmarkað en ekki bannað. Til að mega halda hund verður viðkomandi að fá hann skráðan en skráningarleyfi er bundið ákveðnum skilyrðum sem nánar eru listuð upp í 4. gr. hundasamþykktarinnar. Kærði bendir á að sú afstaða sé viðhöfð við skráningu hunda í umdæminu að gæta þurfi varúðar þegar heimild til hundahalds er takmörkuð á grundvelli 13. tl. A-liðar 41. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 þegar fyrir hendi séu séreignarhlutar. Kærði bendir á að við Kópalind 6 séu ákveðin rými sameiginleg, t.d. rusla- og vagnageymsla, en inngangur inn í íbúð eiganda hundsins er sérinngangur. Að mati kærða er inngangurinn vel aðgreindur frá öðrum inngöngum hússins og t.d. er enginn annar inngangur við íbúð eiganda hundsins. Íbúð kæranda sé beint fyrir ofan íbúð hundaeigandans en þangað upp eru tröppur sem aðeins kærandi notar.

Kærði bendir á að tilgangurinn með 13. tl. A-liðar 41. gr. fjöleignarhúsakaupalaganna hafi verið til að vernda einstaklinga með astma og/eða dýraofnæmi. Töluliðurinn hafi við setningu laganna ekki verið í frumvarpi því er varð að lögum. Honum hafi verið bætt inn með breytingartillögu félagsmálanefndar í þeim tilvikum þegar eigendur íbúða eru í sama húsrými. Kærði telur að ekki megi túlka ákvæðið það þröngt að það banni dýrahald í fjöleignarhúsum þegar sameiginlegt húsrými er utandyra og þegar fyrir hendi eru séreignarhlutar sem eru aðgreindir frá öðrum inngöngum eða stigagöngum. Að mati kærða eru aðstæður í máli þessu líkari því að um nærliggjandi lóðir sé að ræða frekar en að aðstæður séu þannig að fyrir hendi sé sameiginlegur inngangur í fjöleignarhúsi. Kærandi telur að við túlkun á ákvæði 13. tl 41. gr. laga nr. 26/1994 verði að beita markmiðsskýringu, þ.e. notast við markmið og vilja löggjafans. Er það mat kærða að um óeðlilega formfasta lagatúlkun sé að ræða þegar samþykki allra er áskilið sem deila hvers konar sameiginlegum rýmum með eiganda dýrs. Kærði telur að upptalning lagaákvæðisins sé til marks um að samþykki þurfi að afla frá þeim sem gætu þurft að sæta því að hundur væri staddur á sameignarrýmum eins og geymslum. Það er mat kærða að frekar eigi að skilyrða leyfi til að halda hund á þann veg að hundur sé bannaður á þess konar sameignarrýmum frekar en að banna hundahald, sé yfir höfuð talin ástæða til að óttast að íbúar og hundur hittist fyrir í rusla- eða hjólageymslum.

Kærði bendir á að samkvæmt hundasamþykkt nr. 154/2000 sé hundahald í umdæminu ekki bannað heldur er það takmarkað þannig að skylt er að skrá hunda og við skráningu er miðað við tiltekin hlutlæg viðmið, t.d. að hundur sé skráður, ormahreinsaður og örmerktur, sbr. 4. gr. samþykktarinnar. Kærði telur mál þetta og mál nefndarinnar nr. 7/2008 frá 16. desember 2008 ekki vera sambærileg. Í máli nr. 7/2008 hafði sveitarfélag synjað um skráningu á hundi en í því máli sem nú er til meðferðar liggur fyrir að hundurinn fékk skráningu frá kærða án athugasemda, en þar að auki bárust engar athugasemdir við skráningarinnar í tæpt ár eða þar til bréf kæranda barst kærða. Þá bendir kærði einnig á að hundasamþykkt nr. 154/2000 fyrir Bessastaðahrepp, Garðabæ, Hafnarfjörð og Kópavog sé ekki efnislega samhljóða hundasamþykkt Reykjavíkurborgar sem deilt var um í máli nr. 7/2008.

Að lokum vill kærði einnig benda á að þar sem málið varði aðeins deilur um ákvarðanatökur innan fjöleignarhúss en ekki reglur sem binda staðbundin stjórnvöld í málefnum, sem þeim hefur með lögum verið falið vald til að ráðstafa, sé rétt að ágreiningurinn sé leystur milli eigenda fjöleignarhússins fyrir kærunefnd fjöleignarhúsamála eða fyrir almennum dómstólum.

VI.  Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar. 

Kæruheimild til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir er að finna í 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í 1. mgr. 31. gr. laganna segir að rísi ágreiningur um framkvæmd laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim, heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga eða um ákvarðanir yfirvalda, er heimilt að vísa málinu til úrskuðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í tilvitnuðu ákvæði kemur fram að heimilt sé að skjóta ágreiningi til úrskurðarnefndarinnar er varðar samþykktir sveitarfélaga og ákvarðanir þeirra. Í málinu er ágreiningur um ákvörðun yfirvalds og samþykkt sveitarfélags. Samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði er heimilt að vísa ágreiningi um framangreint til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir. Með vísan til þess er ekki unnt að fallast á kröfu kærða um frávísun málsins frá úrskurðarnefnd.  

 

Í greinargerð kærða kemur fram það álit kærða að eigandi hundsins eigi að eiga aðild að málinu á þeim forsendum að hann hafi einstakra og verulegra hagsmuna að gæta af úrlausn málsins. Í máli þessu er deilt um ákvörðun kærða sem beint var til kæranda sem er síðan kærð til úrskurðarnefndar. Réttarsambandið í máli þessu er því á milli kærða og kæranda en ekki eiganda hundsins.

 

Ágreiningur í máli þessu varðar 13. tl. A-liðar 1. mgr. 41. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 og ákvæði samþykktar um hundahald á Álftanesi, í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi nr. 154/2000 frá 3. mars 2000.

Í fyrri málslið 13. tl. 41. gr. laga um fjöleignarhús kemur fram að samþykki allra þurfi til þegar ákvörðun er tekin um hvort halda megi hund í fjöleignarhúsi. Í seinni málslið 13. tl. 41. gr. sömu laga kemur fram undantekning frá framangreindri meginreglu. Ef hús skiptist í aðgreinda hluta, nægir samþykki þeirra eigenda sem hafa sameiginlegan inngang, stigagang eða annað sameiginlegt húsrými. Af framangreindu er ljóst að meginreglan er sú að samþykki allra eigenda verður að liggja fyrir til að halda megi hund í fjöleignarhúsi, þar sem fyrir hendi er sameiginlegur inngangur og/eða stigagangur. Af gögnum málsins er ljóst að í fjöleignarhúsinu að Kópalind 6 er ekki hefðbundinn sameiginlegur inngangur eða stigagangur eins og er í stærri fjöleignarhúsum, heldur hefur hver eigandi hússins sérinngang að íbúð sinni. Fyrir hendi eru tröppur sem kærandi notar einn til að komast að íbúð sinni. Af framangreindu er ljóst að ekki er fyrir hendi sameiginlegur inngangur eða stigagangur sem þyrfti a.m.k. að afla samþykkis frá til að halda hund. Eigandi hundsins þarf ekki að fara með hann upp sameiginlegan stiga, í gegnum sameiginlegan inngang eða inn í sameign. Er því ljóst að aðeins kemur til skoðunar hvort fyrir hendi sé „annað sameiginlegt húsrými“ eins og segir í niðurlagi 13. tl. A-liðar 1. mgr. 41. gr. laga um fjöleignarhús. Að teknu tilliti til markmiðs og tilgangs laganna verður að túlka orðalagið „sameiginlegt húsrými“ þannig að rýmið verði að vera þannig í eðli sínu að ofnæmisvaldar geti borist frá dýri til annarra íbúa, þ.e. að rýmið sé innandyra, á sömu hæð eða inni í sameign eignar. Rýmið fyrir utan Kópalind 6 er utandyra.  Þar sem markmið 13. tl. 41. gr. laganna var að koma í veg fyrir ofnæmisóþægindi sem ekki á hér við. Er því ljóst að ekki er fyrir hendi sameiginlegt húsrými í skilningi 13. tl. 41. gr. laga nr. 26/1994 sem verður til þess að samþykki allra eigenda sé áskilið til að halda hundinn.

Kemur þá til skoðunar hvort hundurinn hafi sýnt af sér hegðun sem telst ógnandi eða óviðeigandi eða af honum sé óþrifnaður. Í hundasamþykkt nr. 154/2000 og reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti er kveðið á um meginskyldu hundaeigenda að gæta þess að hundur valdi ekki óþægindum, óþrifnaði eða að hann raski ró manna með stöðugu eða ítrekuðu gelti eða ýlfri, sbr. 10. gr. hundasamþykktar nr. 154/2000 og 56. gr. reglugerðar nr. 941/2002. Í málinu eru engin gögn sem sýna fram á að hundurinn valdi óþægindum með stöðugu eða ítrekuðu gelti eða ýlfri, eða að af honum sé óþrifnaður. Verður því ekki talið að hundurinn valdi óþægindum sem eru umfram það sem venjulegt og eðlilegt er með hliðsjón af reglum um nábýlisrétt. Fyrir liggur að barn kæranda er hrætt við hundinn en sú hræðsla verður ekki rakin til háttsemi eða hegðunar hundsins eða eiganda hans. Þá verður einnig að hafa í huga að hundahald er ekki bannað í umdæminu sem hér um ræðir, heldur aðeins takmarkað með ákveðnum skilyrðum hundasamþykktar nr. 154/2000, sem eigandi hundsins hefur uppfyllt. Þá hafa engin ákvæði hundasamþykktar nr. 154/2000 eða reglugerðarákvæði verið brotin og er því ekki tilefni til að fjarlægja hundinn.  

Með vísan til alls framangreinds er ljóst að í fjöleignarhúsinu að Kópalind 6 í Kópavogi háttar þannig til að íbúar hússins eru með sérinngang. Ekki er fyrir hendi sameiginlegur inngangur, stigagangur eða annað sameiginlegt húsrými í skilningi 13. tl. A-liðar 41. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Ekki er fallist á það sjónarmið kæranda að stéttin fyrir utan fjöleignarhúsið sé sameiginlegt húsrými í skilningi 13. tl. sömu laga með hliðsjón af markmiði og tilgangi lagasetningarinnar. Þá liggja engin gögn fyrir í málinu sem sýna fram á að hræðsla barnsins við hundinn megi rekja til hegðunar hans eða að hundurinn hafi sýnt af sér ógnandi háttsemi í eða við húsið. Þá hafa engar kvartanir borist vegna óþrifnaðar frá hundinum. Eru því ekki fyrir hendi ítrekuð eða alvarleg brot á hundasamþykkt nr. 154/2000 þannig að kærði afturkalli skráningu hundsins eða að eiganda hans sé gert að fjarlægja hundinn í samræmi við 14. gr. hundasamþykktarinnar. Með framangreint í huga ber að staðfesta ákvörðun kærða frá 8. mars 2010 og synja kröfu kæranda um að hundurinn verði fjarlægður án tafar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun kærða frá 8. mars 2010 er staðfest.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum