Hoppa yfir valmynd

Frétt

22. júní 2010 Utanríkisráðuneytið

Ráðherrafundur EFTA á 50 ára afmæli samtakanna

Árlegur ráðherrafundur EFTA verður haldinn í Reykjavík, 23-25 júní. Á fundinum verður 50 ára afmælis EFTA minnst en 40 ár eru jafnframt frá inngöngu Íslands í samtökin. Undirritaðir verða fríverslunarsamningar við Perú og Úkraínu og efnt til ráðstefnu undir heitinu;  “Efnahagshrunið og alþjóðaviðskipti” þar sem Jagdish Bhagwati, hagfræðingur og prófessor við Columbia háskólann í New York verður aðalfyrirlesari.

Ráðherrafundinn sækja Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, Doris Leuthard, forseti Sviss og efnahagsmálaráðherra, Trond Giske, viðskipta- og iðnaðarráðherra Noregs og Aurelia Frick, utanríkisráðherra Liechtenstein. Rætt verður um samstarf EFTA ríkjanna og málefni er varða EES-samninginn, Eftirlitsstofun EFTA og EFTA-dómsstólinn. Þá verða ræddir fríverslunarsamningar en EFTA-ríkin eiga m.a. í viðræðum við Indland og Hong Kong um gerð fríverslunarsamnings og hafa til skoðunar aukna samvinnu á sviði viðskiptamála við Rússland, Víetnam og Indónesíu.

Ráðherrarnir funda jafnframt með ráðgjafanefnd og þingmannaefnd EFTA.

Undirritaðir verða fríverslunarsamningar við Úkraínu og Perú að viðstöddum Kostyantyn Gryshchenko utanríkisráðherra Úkraínu og Eduardo Ferreyros aðstoðar-utanríkisviðskiptarráðherra Perú.

Ráðstefnan "Efnahagshrunið og alþjóðaviðskipti" verður haldin miðvikudaginn 23. júní kl. 14:30-17:00 á Hilton Nordica hótelinu en að henni standa utanríkisráðuneytið, Alþýðusamband Íslands og Samtök Atvinnulífsins. Jagdish Bhagwati, hagfræðingur og prófessor við Columbia háskólann í New York verður aðalfyrirlesari. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, opnar ráðstefnuna. Aðrir ræðumenn verða Kåre Bryn, aðalframkvæmdastjóri EFTA, Per Sanderud, forseti eftirlitsstofnunar EFTA og Carl Baudenbacher, forseti EFTA-dómstólsins. Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, stýrir pallborðsumræðum. Fundarstjóri er Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins.

Þá mun Bhagwati halda fyrirlestur um loftslagssamning í kjölfar Kaupmannahafnarráðstefnunnar fimmtudaginn 24. júní kl. 12 til 13 í sal 105 á Háskólatorgi Háskóla Íslands. Sjá nánar hér.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum