Hoppa yfir valmynd

Frétt

23. júní 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Lítil breyting á biðlistum

Staða á biðlistum eftir völdum aðgerðum á sjúkrahúsum landsins er almennt góð ef miðað er við sama tímabil fyrir ári að mati Landlæknisembættisins, sem birt hefur samantekt yfir stöðu biðlista í júní 2010.

Staðan er að mati Landlæknis furðugóð, sé miðað við samdrátt í mannafla og þann árangur sem t.d. Landspítali hafi náð við að halda kostnaði innan ramma fjárlaga.

Sem fyrr er enginn biðlisti eftir almennum skurðaðgerðum, né aðgerðum vegna krabbameins, en kvartað hefur verið undan slíkum biðlistum í ýmsum nágrannalöndum, segir Landlæknisembættið. Miðað er við bið lengur en í þrjá mánuði.  

Athugun Landlæknis nær til hátt í þrjátíu mismunandi skurðaðgerða. Þar sem árstíðasveiflur eru á biðlistum er miðað við sama mánuð árin áður. Í ljós kemur að staðan hefur nánast hvergi versnað, nema hvað varðar gerviliðaaðgerðir á hné. Fjöldinn á biðlista eftir slíkri aðgerð er svipaður og var fyrir þremur mánuðum, en hafði þá aukist talsvert.  

Fyrir nokkrum árum hafi verið umtalsverðir biðlistar eftir kransæðaaðgerðum. Þeir séu nánast horfnir, en þetta á við um bið lengur en í þrjá mánuði. Biðlistar vegna aðgerðar á augasteini hafi lækkað mjög, enda sé farið að gera slíkar aðgerðir í meira mæli utan spítala. Þá eru upplýsingar um aðgerðir vegna brjóstauppbyggingar í kjölfar brjóstnáms í fyrsta sinn tilgreindar nú. 36 konur eru á þeim biðlista en voru 45 á sama tíma í fyrra.

Frétt um biðlista á vef Landlæknis

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum