Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. júní 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Svandísar Svavarsdóttur við opnun Snæfellsstofu

Snæfellstofa, gestastofa fyrir austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs, var opnuð á Skriðuklaustri 24. júní 2010. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flutti eftirfarandi ávarp við opnunina.

 Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs, ágætu Fljótsdælingar, Héraðsbúar og aðrir gestir,

Það er mér mikil ánægja að vera með ykkur hér í dag við opnun Snæfellsstofu, glæsilegrar gestastofu fyrir Austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs. Það var mér jafnframt sérstakur heiður hér áðan að taka á móti lyklum úr hendi byggingarverktaka og eftirlitsaðila hússins og afhenda þá Agnesi Brá Birgisdóttur þjóðgarðsverði til varðveislu og fela henni um leið daglega umsjá Snæfellsstofu.

Með opnun Snæfellsstofu verða tímamót í sögu Vatnajökulsþjóðgarðs en með henni fjölgar gestastofum þjóðgarðsins um helming eða úr tveimur í þrjár og verða nú starfandi gestastofur á þremur af fjórum rekstrarsvæðum Vatnjökulsþjóðgarðs. En þetta hús brýtur einnig blað í byggingarsögu landsins, því það er fyrsta umhverfisvottaða húsbygging á Íslandi. Húsið sjálft og hönnun þess er að sjá einstaklega vel heppnað, listaverk sem innblásið er af náttúrufari þjóðgarðsins. Sýningin Veraldarhjólið sem hér hefur verið komið fyrir á að minna okkur á hringrás náttúrunnar um leið og hún beinir sjónum okkar að sérkennum í náttúru þjóðgarðsins. Allt er því húsið til þess fallið að vekja með okkur upplifun á einstakri náttúru Vatnajökulsþjóðgarðs og vil ég lýsa sérstakri ánægju með hvernig til hefur tekist og óska hönnuðum húss og sýningar til hamingju með þeirra vel heppnuðu verk. Sýnist mér öll efni standa til þess að gestir sem hingað koma eigi eftir að njóti þess og fara héðan sælir og glaðir og vonandi nokkurs vísari.

Vatnajökulsþjóðgarður stærsti þjóðgarður í Evrópu sem nú tekur til um 13% landsins markar að mörgu leyti ný spor í náttúruvernd á Íslandi. Þjóðgarðurinn er stærsta og metnaðarfyllsta átak í náttúruvernd á Íslandi, þar sem ferðaþjónusta, vernd náttúrusvæða og sjálfbær nýting hefðbundinna nytja eiga að leiðast saman hönd í hönd. Sjálfbær ferðaþjónusta í Vatnajökulsþjóðgarði mun skapa störf til framtíðar og vonandi styrkja og efla byggð á grenndarsvæðum þjóðgarðsins. Það er von mín að hið margþætta gildi náttúruverndar sem stundum vill gleymast í hita umræðunnar um nýtingu náttúruauðlinda muni koma vel fram í þeim nýju tækifærum sem þjóðgarðurinn mun skapa til atvinnuuppbyggingar bæði í þjónustu og framleiðslu. Í Vatnajökulsþjóðgarði er lögð áhersla á að tryggja aðkomu heimamanna að ákvarðanatöku um stefnumótun og rekstur þjóðgarðsins og hafa svæðisráð þjóðgarðsins mikilvægu hlutverki að genga í því sambandi. Hluti af landi þjóðgarðsins er í einkaeign, þar sem gerðir hafa verið samningar við landeigendur sem ég vænti að séu báðum aðilum til hagsbóta. Einnig vil ég nefna þann áhuga sem þjóðgarðurinn hefur fengið meðal þjóðarinnar, en búið er að stofna sérstök hollvinasamtök þjóðgarðsins, Vinir Vatnajökuls, sem munu standa að fjáröflun til stuðnings þjóðgarðinum. Er útlit fyrir að sá stuðningur geti haft verulega þýðingu fyrir framgang þjóðgarðsins. Öll þessi atriði skipta máli í þessu stóra verkefni í náttúruvernd sem felst í Vatnajökulsþjóðgarði.

Uppbygging þjóðgarðsins hefur því miður ekki gengið eins hratt fram og við höfðum vænst þegar þjóðgarðurinn var stofnaður þann 7. júní 2008 og ræður þar mestu efnahagsáfallið mikla sem þjóð okkar varð fyrir í október 2008. Opnun Snæfellsstofu hér í dag er því enn frekar fagnaðarefni á þeim erfiðu tímum sem við búum nú við. Ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar Græns framboðs vill setja náttúruvernd í öndvegi og vænti ég þess að það muni sjást m.a. í stuðningi ríkisstjórnarinnar við áframhaldandi uppbyggingu þjóðgarðsins á næstu árum, þó ljóst sé að við munum ekki geta fylgt eftir hinum upphaflegu áætlunum um uppbyggingu þjóðgarðsins.

Stofnun þjóðgarðs af stærð og umfangi Vatnajökulsþjóðgarðs er ekki áhlaupaverk, heldur langtíma verkefni sem krefst þolinmæði og þrautseigju þeirra sem stýra þjóðgarðinum frá degi til dags. Sú ákvörðun að tryggja aðkomu heimamanna að rekstri þjóðgarðsins hefur kallað á ný vinnubrögð sem stjórnendur þjóðgarðsins hafa þurft að þróa. Ég tel að stjórnendur þjóðgarðsins hafi náð frábærum árangri í vandasömu starfi í upphafi rekstrar hans við erfiðar aðstæður og tekist vel að ná sátt milli ólíkra sjónarmiða í öllum helstu málum þjóðgarðsins. Ég vil því nota þetta tækifæri til þess að þakka stjórn þjóðgarðsins og sérstaklega Önnu Kristínu Ólafsdóttur formanni stjórnar fyrir gott og farsælt starf að málefnum þjóðgarðsins. Sömuleiðis vil ég þakka þann mikla áhuga sem heimamenn hafa sýnt verkefninu og lýsa ánægju með hvernig þjóðgarðurinn hefur þegar orðið kveikja að nýsköpun í jafnvel óskyldum atvinnurekstri. Nú mun vera á lokastigi hjá stjórn þjóðgarðsins gerð verndaráætlunar fyrir þjóðgarðinn sem setur stefnu fyrir málefni þjóðgarðinn og verður vegvísir fyrir frekari þróun hans á næstu árum. Geri ég því ráð fyrir að ráðuneytið mun á næstunni staðfesta verndaráætlun fyrir Vatnajökulsþjóðgarð eins og lög gera ráð fyrir.

Upphaflegar tillögur að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs gera ráð fyrir að þjóðgarðurinn verði nokkuð stærri en hann er í dag og taki í framtíðinni til nýrra svæða sem hafa mikið náttúruverndargildi en eru nú utan marka þjóðgarðsins. Þar vil ég nefna m.a. svæði eins og Langasjó og Eldgjá að sunnan og hluta Brúaröræfa að norðan. Er það von mín að fljótlega takist okkur að ná niðurstöðu um frekari stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs á þessum svæðum.

Nokkur umræða hefur verið að undanförnu um breytingar á stofnanakerfi ríkisins með það markmið að hagræða en um leið styrkja og bæta starfsemi stofnana ríkisins. Þjóðgarðar og friðlýst eru ekki undanskilin þeirri umræðu. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna segir að rekstur þjóðgarða og friðlýstra svæða verði tekin til endurskoðunar með það að markmiði að sameina stjórn þeirra, styrkja stöðu þeirra og styðja við fjölbreytta atvinnuuppbyggingu um allt land. Ég á fastlega von á því að þetta málefni verði til umfjöllunar á næstu misserum og þá mun ráðuneytið kappkosta að aðstandendur Vatnajökulsþjóðgarðs eins og aðrir þeir sem málið varðar komi að þeirri umræðu.

Náttúra Vatnajökulsþjóðgarðs er afar fjölbreytt og um margt afar sérstök þó segja megi að sérstæðustu náttúrufyrirbæri þjóðgarðsins tengist með einum eða öðrum hætti samspili eldvirkni og jökla í tímans rás. Þau eru einstök á heimsmælikvarða. Magnús Tumi Guðmundsson jarðfræðingur bar á sínum tíma svæði þjóðgarðsins saman við sjö önnur hliðstæð svæði í heiminum og taldi hann svæði Vatnajökulsþjóðgarðs það fjölbreytilegasta og um leið það merkilegasta sem um getur. Það er því ekki að furða að vaxandi áhuga gæti á þjóðgarðinum um allan heim og megum við því gera ráð fyrir að heimsóknum í þjóðgarðinn eigi eftir að fjölga verulega þegar fram líða stundir. Snæfellsstofu bíður því mikið verkefni að taka á móti og fræða þá sem hingað munu koma í vaxandi mæli um náttúru svæðisins. Ég þykist þess fullviss að þetta hagleiks hús sem við opnum hér í dag muni þjóna vel sínu hlutverki og ég vil því að lokum óska Íslendingum öllum til hamingju með Snæfellsstofu og Vatnajökulsþjóðgarði og starfsfólki hans velfarnaðar í þeirri vinnu sem framundan er við að gera þjóðgarðinum kleift að sinna því mikilvæga hlutverki sem honum er ætlað.

Takk fyrir.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum