Hoppa yfir valmynd

Frétt

25. júní 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Snæfellstofa á Skriðuklaustri tekin í notkun

Anna Kristín Ólafsdóttir, formaður stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs, Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra og Agnes Brá Birgisdóttir þjóðgarðsvörður.
Við opnun Snæfellsstofu

Í gær tók Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra formlega í notkun Snæfellsstofu á Skriðuklaustri, nýja gestastofu fyrir austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs. Við þetta tækifæri var opnuð í Snæfellsstofu umhverfisfræðslusýningin „Veraldarhjólið“ sem fjallar um hringrás náttúrunnar með áherslu á samspil gróðurs og dýralífs á svæðinu. Auk sýningarinnar hýsir Snæfellsstofa upplýsinga- og þjónustumiðstöð fyrir ferðafólk og minjagripaverslun auk þess sem þar verða skrifstofur og vinnuaðstaða fyrir starfsfólk þjóðgarðsins.

Stórt skref í fræðslu-og upplýsingamálum þjóðgarðsins

„Opnun Snæfellsstofu er mikilvægur áfangi í uppbygginu Vatnajökulsþjóðgarðs en með henni er stigið stórt skref í fræðslu- og upplýsingamálum þjóðgarðsins. Gestastofum þjóðgarðsins fjölgar úr tveimur í þrjár og nú verða starfandi gestastofur á þremur af fjórum rekstrarsvæðum Vatnjökulsþjóðgarðs,“ segir Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra. Hún segir að auk þess sé nú  brotið blað í byggingarsögu landsins, því Snæfellsstofa sé fyrsta umhverfisvottaða húsbygging á Íslandi.

Með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs 7. júní 2008 tók gildi friðlýsing svæðisins. Markmiðið friðlýsingar Vatnajökuls og helstu áhrifasvæða hans er að vernda náttúru svæðisins, s.s. landslag, lífríki og jarðmyndanir og menningarminjar þess. Einnig að gefa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru svæðisins, menningar þess og sögu. Góð samvinna hefur tekist milli ríkis og sveitarfélaga um uppbyggingu þjóðgarðsins.

Verðlaunateikning

Gestastofan að Skriðuklaustri er byggð samkvæmt teikningu Arkis arkitekta sem vann til fyrstu verðlauna í hönnunarsamkeppni  um gestastofu sem efnt var til árið 2008.  Einnig var efnt til samkeppni um nafn á gestastofuna og varð Snæfellsstofa fyrir valinu. Framkvæmdir við Snæfellsstofu hófust fyrir rúmu ári en fyrsta skóflustunga að byggingunni var tekin um miðjan apríl 2009.  Alls er Snæfellsstofa um 700 fermetrar að stærð og nemur kostnaður við byggingu hennar um 350 milljónum króna, sem er samkvæmt þeim áætlunum sem gerðar voru að teknu tilliti til verðlagsþróunar.

 Útlit gestastofunnar sækir hughrif til Gunnarshúss sem er skammt undan og eru notuð byggingarefni af staðnum auk þess sem hleðslur í lóð eru úr heimafengnu grjóti. Lerki er eitt þeirra efna sem er mjög sýnilegt í Snæfellsstofu. Starfsmenn Skógræktar ríksins sáu um að fletta timburklæðningu úr lerki frá Hallormsstað og er henni fléttað inn í steypuveggi, bæði á byggingunni sjálfri og við aðkomu. Lárétt og hallandi jarðlög í nágrenninu endurspeglast í útliti hússins, en litaval og yfirbragð tekur mið af umhverfinu í Fljótsdal. Frumöflin eldur, ís, vatn og vindur eru meginþemu Snæfellsstofu og vísar form byggingarinnar til skriðjökuls sem brýtur sér leið í gegnum landið.

Umhverfisvottuð bygging

Snæfellsstofa er fyrsta bygging á Íslandi sem er vottuð samkvæmt BREEAM umhverfisstaðli um vistvænar byggingar, en hann tekur til hönnunar, byggingar og reksturs viðkomandi mannvirkis. Til að fá BREEAM vottun þurfa öll aðföng og meðhöndlun efna á byggingastað að uppfylla kröfur staðalsins og notkun efna sem geta haft skaðleg áhrif á umhverfið ber að halda í lágmarki. Byggingar með BREEAM vottun þarfnast minni orku og minna viðhalds en hefðbundin hús.

Frétt á heimasíðu Vatnajökulsþjóðgarðs.

Ávarp Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra við opnun Snæfellsstofu.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum