Hoppa yfir valmynd

Frétt

23. júlí 2010 Innviðaráðuneytið

Runólfur Ágústsson skipaður umboðsmaður skuldara

Runólfur Ágústsson
Runólfur Ágústsson

Runólfur Ágústsson, lögfræðingur, hefur verið skipaður í nýtt embætti umboðsmanns skuldara sem tekur til starfa 1. ágúst næstkomandi. Umsækjendur um embættið voru níu en staðan var auglýst í lok júní og rann umsóknarfrestur út 12. júlí síðastliðinn. Niðurstaða hæfnismats var sú að Runólfur væri hæfastur í starfið.

Runólfur Ágústsson er lögfræðingur að mennt. Hann lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1992 og hóf þá störf sem sýslumannsfulltrúi hjá sýslumanninum í Borgarnesi þar sem hann starfaði til ársins 1998. Runólfur hefur sinnt kennslu í lögfræði, var aðstoðarrektor við Samvinnuháskólann á Bifröst 1998-1999 og síðar rektor Háskólans á Bifröst árin 1999-2006. Árið 2007 var hann ráðinn framkvæmdastjóri Keilis, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, og gegndi því starfi til ársins 2009. Runólfur hefur frá árslokum 2009 verið stjórnarformaður Vinnumálastofnunar og er einnig stjórnarformaður Atvinnuleysis­tryggingasjóðs. Hjá Vinnumálastofnun hefur Runólfur unnið að samhæfingu aðgerða félags- og tryggingamálaráðuneytisins og stofnunarinnar í málefnum atvinnuleitenda og stjórnað átakinu Ungt fólk til athafna.

Embætti umboðsmanns skuldara er ríkisstofnun sem hefur það hlutverk að gæta hagsmuna og réttinda skuldara eins og nánar er kveðið á um í lögum um embættið nr. 100/2010. Embættið mun einnig annast fjármálaráðgjöf við einstaklinga sem til þessa hefur verið sinnt af Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna en starfsemi hennar rennur inn í embætti umboðsmanns þegar það tekur til starfa 1. ágúst.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum