Hoppa yfir valmynd

Frétt

2. september 2010 Forsætisráðuneytið

Munnleg skýrsla um störf og stefnu ríkisstjórnarinnar

Frú forseti

Nú þegar Alþingi snýr aftur til starfa eftir sumarleyfi hefur endurskipulögð ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs tekið við stjórnartaumum í stjórnarráðinu. Þessari ríkisstjórn er ætlað að halda áfram því árangursríka starfi sem fyrri ríkisstjórnir sömu flokka hafa skilað á liðnum 19 mánuðum og hún mun byggja á þeim góða grunni.

Á grundvelli þeirra skýru markmiða og fyrirheita sem kynnt hafa verið í ítarlegri samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna frá júní 2009 og fyrirliggjandi efnahagsáætlunar sem stöðugt er fylgt eftir í samstarfi við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn og fleiri vinaþjóðir hefur á undraskömmum tíma náðst gríðarlegur árangur á flestum sviðum samfélagsins. Árangur sem jafnvel bjartsýnustu menn sáu ekki fyrir. Árangur sem hefur vakið athygli í öðrum löndum, árangur sem erlendir hagfræðingar hafa séð sérstaka ástæðu til þess að fjalla um.

Hér hafa því orðið stakkaskipti. Nú hefur reynslan sýnt okkur að það er mikilvægt að hlýða á virta erlenda sérfræðinga og það er mikilvægt að nýta sér alþjóðlega þekkingu á sviði efnahagsmála og stuðning annarar þjóða.

Einangrun veikir okkur en með alþjóðlegum samskiptum treystum við sjálfstæði okkar og efnahagslegan grundvöll og mikilvægar samningaviðræður um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu eru hafnar.

Já, okkur hefur tekist að snúa efnahagslífi landsins til nýrrar sóknar, innleiða víðtækar aðgerðir til að verja fjárhag heimila og fyrirtækja og tryggja jákvæð samskipti við alþjóðasamfélagið eftir eitthvert alvarlegasta efnahagshrun sem nokkur þjóð hefur gengið í gegnum.

Helstu hagvísar benda til þess að algjör viðsnúningur hafi orðið í íslensku efnahagslífi.

Hagvöxtur hefur mælst undanfarna 6 mánuði, meira en hálfu ári fyrr en reiknað hafði verið með.

Atvinnuleysi er komið í 7,5% og er mun lægra en áætlanir gerðu ráð fyrir. Störfum er aftur farið að fjölga.

Verðbólga hefur lækkað úr 18,6% í 4,5% á einu og hálfu ári og ekki verið minni í 3 ár.

Stýrivextir hafa lækkað úr 18% í 7% á rúmu ári og ekki verið lægri í 6 ár.

Gengið styrkist jafnt og þétt og hefur ekki verið styrkara í eitt og hálft ár.

Forsvarsmenn SA, ASÍ, Seðlabankans, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og fleiri hafa lýst því yfir að kreppunni sé lokið og bjartsýni í samfélaginu eykst. 

Á sama tíma hefur farið fram víðtækt uppgjör í íslensku samfélagi gagnvart þeirri stefnu og vinnubrögðum sem viðgengust í atvinnulífi, stjórnmálum og stjórnsýslu fyrir hrun og birtast nú í víðtækri uppstokkun á innviðum samfélagsins. Ég nefni nokkur dæmi um mál sem við höfum komið fram, flest með fulltingi Alþingis:

Við höfum ráðist í löngu tímabærar breytingar á stjórnkerfinu.
Við höfum afnumið lífeyrisréttindi forréttindastéttanna.
Við höfum innleitt siðareglur fyrir stjórnarráðið og þar á meðal ráðherra og aðstoðarmenn.
Við höfum endurskoðað lög um fjármál stjórnmálaflokka.
Við höfum innleitt réttlátara skattkerfi.
Sanngirnisbætur fyrir börn sem voru þolendur á vistheimilum hafa verið samþykktar.
Barátta gegn kynbundnu ofbeldi hefur verið sett í forgang, m.a. með samþykkt mansalsáætlunar og banni við kaupum á vændi.

Tugir aðgerða hafa verið innleiddar til að vernda skuldug heimili og þúsundum fjölskyldna hefur verið forðað frá gjaldþroti og eignamissi.

Fjölmargar aðgerðir í þágu atvinnulausra og námsmanna hafa verið innleiddar með mælanlegum árangri og velferðarvakt hefur verið sett á fót.

Framundan er eitt viðamesta samfélagsverkefni samtímans, að þjóðin semji sér nýja stjórnarskrá frá grunni og móti nýjan ramma um allt íslenska stjórnkerfið. Þetta er lýðræðisverkefni sem kallað hefur verið eftir í áratugi og með samþykkt Stjórnlagaþingsins verður það nú loks að veruleika.

Þegar ég tók við sem forsætisráðherra 1. febrúar á síðasta ári blöstu við ríkisstjórninni viðameiri verkefni en nokkur önnur ríkisstjórn hafði áður fengið til úrlausnar. Hlutverk okkar var ekki öfundsvert. Verkin sýna að við höfum svo sannarlega ekki setið auðum höndum og ég vil nota þetta tækifæri og þakka samráðherrum mínum þennan tíma fyrir frábært starf, sem og þingmönnum stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðunnar í þeim fjölmörgu málum sem gott samstarf hefur tekist um.

Það hefur verið heiður að sitja með þessum öfluga hópi og koma góðum verkum í framkvæmd. Ég vil sérstaklega nota þetta tækifæri til þess að þakka utanþingsráðherrum sem við kveðjum nú fyrir þeirra miklu og góðu störf við erfiðar aðstæður sem þjóðin hefur tekið eftir og metur mikils. Það gerum við líka, stjórnmálamennirnir á vettvangi ríkisstjórnar og Alþingis.

Frú forseti.

Sá mikli árangur sem náðst hefur er til marks um mikilvæga áfangasigra í glímunni við þá erfiðleika og þau áföll sem íslenskt efnahagslíf  og samfélag hefur orðið fyrir. Viðamikil verkefni eru einnig framundan sem miklu munu skipta varðandi framtíð þjóðar okkar, verkefni sem krefjast samheldni, staðfestu og skilvirkrar stjórnsýslu. Mikilvægur liður í því er að fram fari róttæk uppstokkun í stjórnkerfinu hér á landi með fækkun ráðuneyta og einföldun stofnanakerfis. Þessi uppstokkun kallar m.a. á breytingar á ríkisstjórn og því hefur ráðherrum nú verið fækkað um tvo og stefnt er að enn frekari fækkun um áramótin.

Nýja ríkisstjórnin mun taka til óspilltra málana þar sem frá var horfið og 20 mikilvæg mál hafa verið kynnt sem sérstök áherslumál ríkisstjórnarinnar á komandi mánuðum.

En þótt viðsnúningurinn sé þegar mikill og bjartsýni sé að aukast þá megum við ekki verða andvaralaus. Við verðum að sýna þolinmæði og þrautseigju. Við ætlum að byggja hér traustan grunn til frambúðar.

Framundan eru erfið niðurskurðarfjárlög þar sem markmiðið er að ná fram 43ja milljarða bata á milli ára. ¾ hlutum verður mætt með niðurskurði og ¼ hluta með auknum skatttekjum. Í raun er ekki gert ráð fyrir nema 8 milljörðum í nýjum tekjum  í komandi fjárlagafrumvarpi og þær auknu tekjur fara að mestu til þess að fylla skarð tekna sem falla niður frá þessu ári. Gangi þetta eftir hefur ríkisstjórnin á starfstíma sínum bætt stöðu ríkissjóðs sem nemur um 9,7% af landsframleiðslu. 78% af þeim bata hefur orðið til gjaldamegin og 22% tekjumegin.
 
Framundan eru einnig mikilvægir áfangar í uppstokkun stjórnkerfisins, þeirri umfangsmestu í lýðveldissögunni. Ráðist verður í fækkun ráðuneyta úr 12 í 9 mun hraðar en samstarfyfirlýsing ríkisstjórnarflokkanna gerði ráð fyrir. Sameiningum og fækkunum stofnana um 20-30% verður einnig flýtt og umfangsmikil skref verða stigin á þessu og því næsta.

Enn frekari skref verða stigin til að bæta stjórnsýsluna, m.a. á grundvelli niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis og starfshópa forsætisráðherra. Stofnun nýrrar þjóðhagsstofnunnar er ein af þeim hugmyndum sem unnið er með. Þá verður flutningur málefna fatlaðra til sveitarfélaganna að veruleika um næstu áramót og undirbúningur að tilfærslu málefna aldraðra fer á fulla ferð.
 
Nýrrar ríkisstjórnar bíður einnig það risavaxna verkefni að leiða til lykta átökin um auðlindir Íslands, fiskinn, orkuna og vatnið. Átök sem hafa klofið þjóðina í fylkingar í áratugi en stjórnarflokkarnir hafa unnið markvisst að lausn á undanfarna mánuði. Það er grundvallarmál að tryggja eignarhald þjóðarinnar á auðlindum til lands og sjávar og að arðurinn af auðlindunum renni til þjóðarinnar.

Framundan er vonandi sátt um sjávarútvegsmálin. Ný vatnalög verða vonandi afgreidd fyrir áramót. Nýr lagarammi um eignarhald á orkufyrirtækjum er í mótun sem og um gjaldtöku vegna nýtingu vatnsréttinda. Á stjórnlagaþingi gefst síðan tækifæri til að tryggja enn frekar að þessi réttindi verði í eigu þjóðarinnar til frambúðar. 

Á komandi vetri verður skuldavandi heimila og fyrirtækja einnig í brennidepli eins og undanfarin misseri. Eyða þarf óvissu og leiða til lykta þau álitamál sem risið hafa vegna ólöglegra gengislána. Fullan kraft þarf að setja í úrvinnslu skuldamála á grundvelli samþykktra úrræða og nýstofnað embætti umboðsmanns skuldara mun láta til sín taka. Áætlanir ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir því að embættið fái til ráðstöfunar hátt í hálfan milljarð króna á sínu fyrsta starfsári – allt til að bæta stöðu skuldara í baráttu þeirra við þann vanda sem hrunið olli.

Auk þessa er fjöldi stórra mála í farvatninu sem munu setja mark sitt á haustið og veturinn. Kjarasamningar eru lausir og knýjandi þörf er á að skapa þar áframhaldandi frið. Endurskoðanir efnahagsáætlunarinnar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eru á dagskrá, gjaldeyrishöftin þarf að afnema í áföngum.

Lausn Icesave málsins og niðurstaða í stað þeirrar óvissu sem ríkt hefur um gjaldeyrislán bankanna eru mikilvægar forsendur á þeirri vegferð.

Frú forseti.

Ég lít á þann vetur sem nú er að hefjast sem síðasta stóra hjallann í því mikla verkefni sem þjóðin fól Samfylkingunni og Vinstri hreyfingunni - grænu framboði í síðustu kosningum þó verkefnin verði áfram óþrjótandi. Veturinn er mikilvægur hluti í þeim leiðangri að reisa Ísland úr efnahagslegum og siðferðilegum rústum sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur skildu eftir sig.

En það er full ástæða til bjartsýni. Með þolinmæði og þrauseigju höfum við hægt og bítandi náð að vinna okkur út úr afleitri stöðu. Við Íslendingar höfum á rúmu ári með samtakamætti náð ótrúlegum árangri sem við getum verið afar stolt af. Við höfum öll fært fórnir og búið við þrengri efnahag en áður, við höfum öll þurft að takast á við vonbrigði. Þorri Íslendinga hefur þurft að lifa við verulega skert lífskjör og mikla erfiðleika.

Við höfum náð ótrúlegum árangri sem alþjóðasamfélagið tekur eftir og virðir. Við erum á réttri leið og okkur ber beinlínis skylda til að halda ótrauð þeirri stefnu sem hefur skilað okkur svo vel fram á við.

Um leið og ég þakka þjóðinni fyrir þá þolinmæði og þrautseigju sem hún hefur sýnt í hremmingum undangenginna missera heiti ég á þingheim, ráðherra og starfsmenn stjórnarráðsins og þjóðina alla að ganga nú einbeitt til þeirra mikilvægu verka sem framundan eru.

Sá vetur sem framundan er verður svo sannarlega ekki auðveldur en lánist okkur að vinna vel úr þeim verkefnum sem þar bíða okkar verður uppskeran ríkuleg. Við munum uppskera bættan efnahag heimilanna, faglegri og skilvirkari stjórnsýslu og nýja stjórnarskrá, réttlátari meðferð á auðlindum þjóðarinnar, jafnari skiptingu lífsgæða, aukin mannréttindi og síðast en ekki síst, betra samfélag sem gerir okkur að sterkari og öflugri þjóð en nokkru sinni. 


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum