Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. september 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nýtt velferðarráðuneyti tekur til starfa um áramót

Alþingi samþykkti í gær frumvarp til laga um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands nr. 73/1969, sem kveður á um sameiningu ráðuneyta og fækkun þeirra úr tólf í níu. Samkvæmt lögunum verður til nýtt velferðarráðuneyti við sameiningu heilbrigðisráðuneytisins og félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Velferðarráðuneytið tekur til starfa 1. janúar 2011.

Helstu rök fyrir sameiningu ráðuneytanna tveggja snúa að því að móta heildstæða stefnu á sviði velferðarþjónustu á öllum stigum, frá félagslegum stuðningi til heilbrigðisþjónustu. Í greinargerð með lagafrumvarpinu um sameininguna er bent á að óskýr verkaskipting milli þessara ráðuneyta standi í ýmsum tilvikum þjónustu fyrir þrifum og bitni á þeim sem þurfi á velferðarþjónustu að halda. Með sameiningunni er stefnt því að koma á sveigjanlegri og samþættri þjónustu um allt land, bæta nýtingu fjármuna, efla eftirlit með velferðarþjónustu á öllum stigum, samþætta velferðarúrræði, til dæmis heimahjúkrun og heimaþjónustu og einnig að einfalda samstarf og samskipti við sveitarstjórnarstigið.

Guðbjartur Hannesson, heilbrigðisráðherra og félags- og tryggingamálaráðherra, segir mikil tækifæri felast í sameiningu ráðuneytanna ef vel sé haldið á málum við endurskipulagningu þeirra og verkefnanna sem heyra undir þau:

Guðbjartur Hannesson félags- og tryggingamálaráðherra„Markmiðið er að bæta þjónustu sem veitt er á vegum ráðuneytanna og að nýta fjármuni sem best. Það er tvímælalaust hægt að auka skilvirkni og ná fram margvíslegum samlegðaráhrifum, jafnt innan ráðuneytanna sjálfra og stofnananna sem undir þau heyra með sameiningu og endurskipulagningu. Við erum ekki að gera þessar breytingar breytinganna vegna heldur til þess að almenningur njóti þeirra í skilvirkari, betri og aðgengilegri velferðarþjónustu.

Það er mikill mannauður í ráðuneytunum og stofnunum þeirra, fólk með mikla þekkingu og reynslu sem eflaust má nýta betur með bættu skipulagi. Ég treysti á allt þetta fólk og er sannfærður um að ef við leggjumst öll á eitt um þetta stóra verkefni mun sameining ráðuneytanna skila þeim árangri sem að er stefnt fyrir samfélagið.“

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum