Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. september 2010 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra ræðir vatn og vatnsstjórnun

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sótti í dag sérstakan utanríkisráðherrafund sex ríkja um vatn og vatnsstjórnun. Fundurinn var í svokölluðum grænum hópi sem kom saman að frumkvæði utanríkisráðherra Slóveníu. Í hópnum eru auk Íslands og Slóveníu, Grænhöfðaeyjar, Kostaríka, Sameinuðu arabísku furstadæmin og Singapúr. Ráðherrarnir voru sammála um að ríkin gætu unnið saman að því að vekja frekari athygli á þeirri hættu sem steðjar að alþjóðasamfélaginu vegna vatnsskorts og flóðahættu og hvatt til aðgerða.

Utanríkisráðherra sagði bráðnun jökla vera alvarlegt vandamál á norðurslóðum þar sem lífshættir innfæddra hafi þegar tekið breytingum, auk þess alþjóðlega vanda sem hækkun yfirborðs sjávar er. Þá vakti ráðherra máls á því að fyrirséður vatnsskortur í stórborgum væri mikið vandamál sem einskorðaðist ekki við þróunarríki. Í framtíðinni væri fyrirséð að fleiri átök ættu rætur í baráttunni um vatn. Ráðherra tók undir það sjónarmið að öll hefðu þessi ríki sérstöðu sem gerði þeim kleift að vinna saman að því að skapa málefninu umræðuvettvang og leita lausna. Nauðsynlegt væri að leita allra leiða til að fólk hefði aðgang að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu hvar sem það byggi.

Ákveðið var að hópurinn mundi halda samstarfinu áfram, m.a. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum