Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. október 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 5. október 2010

Mætt: Lára Björnsdóttir formaður, Einar Jón Ólafsson, tiln. af heilbrigðisráðuneyti (fyrri fulltrúi ráðuneytisins var formaður vinnuhóps), Kristján Sturluson, tiln. af RKÍ, Margrét Sæmundsdóttir, tiln. af efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Páll Ólafsson, fyrrum fulltrúi BHM í stýrihópnum, Stella K. Víðisdóttir, tiln. af Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Sigurrós Kristinsdóttir, tiln. af ASÍ, Vilborg Oddsdóttir, tiln. af Biskupsstofu, Þorbjörn Guðmundsson og Ingibjörg Broddadóttir.

Katrín Alfreðsdóttir, nemi í starfsnámi í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, sat einnig fundinn.

Starfsemi vinnuhópanna undanfarið og framundan

 

Farið var yfir niðurstöður starfsdagsins, 21. september sl., og lagt fram minnisblað með samantekt úr fundargerð, dags. 6. október sl. Lára greindi frá því að nýr félags- og tryggingamálaráðherra sýndi starfi velferðarvaktarinnar mikinn áhuga og vildi eiga við hana sem mest samstarf. Í framhaldi fóru formenn vinnuhópanna yfir starfið frá stofnun hópanna í mars 2009.

Hópur um fólk í atvinnuleit: Sigurrós taldi mikilvægt að vakta áfram stöðu atvinnuleitenda. Mörg verkefni eru gangi á vegum verkalýðshreyfingarinnar, hjá Vinnumálastofnun og Símenntunarstöðvunum. Ástæða er til að fylgjast sérstaklega með erlendum ríkisborgurum, en þeim hefur fjölgað hlutfallslega mun meira en innfæddum á atvinnuleysisskrá, ekki síst standi konur af erlendum uppruna sem eru atvinnulausar veikt. Fram kom að ekki hafi gengið vel að ná hópnum saman og uppstaðan í vinnu hópsins hafi legið á herðum mjög fárra.

Hópurinn um þá sem standa höllum fæti og stóðu höllum fæti fyrir kreppu hefur verið mjög virkur og lifandi og ætti að halda áfram að mati Vilborgar. Hópurinn hefur tekið mjög virkan þátt í verkefnum tengdum Evrópuári gegn fátækt. Vilborg leggur til að bæta megi fólki frá þriðja geiranum í hópinn og nefndi í því sambandi Bót, aðgerðahóp um bætt samfélag. Stella greindi frá því að velferðarráð Reykjavíkurborgar hafi sett á laggirnar starfshóp um fátækt í Reykjavík sem eigi að skila áfangaskýrslu og tillögum um fyrstu aðgerðir snemma á þessu hausti. Formaður er Bjarni Karlsson. Ellý þorsteinsdóttir fulltrúi Velferðarsviðs Reykjavíkur í vinnuhópnum gæti tengt þessa tvo hópa saman. Lagt til að hópurinn haldi áfram störfum sínum en fái nýtt nafn: Vinnuhópur um fátækt og félagslega útskúfun.

Hópurinn um ungt fólk 15 til 25 ára: Kristján upplýsti að þeir sem á annað borð hafi tekið þátt í starfinu hafi unnið mjög vel og umræðan hafi verið fín. Mikið hafi verið gert fyrir þennan aldurshóp af hálfu stjórnvalda. Hann lagði til að hópurinn yrði sameinaður hópnum um fólk í atvinnuleit.

Barnahópurinn: Starf barnahópsins gekk vel að mati Páls. Lagt var til að breyta nafni hópsins í hópur um börn og barnafjölskyldur.

Hópurinn um fjármál heimilanna: Stella K. Víðisdóttir sagði hópinn hafa unnið mjög vel og þátttakendur hafi verið vel að sér hver á sínu sviði sem renndi styrkum stoðum undir vinnuna, en skýrslur hópsins voru efnismiklar. Á köflum hafi reynst erfitt að ná samstarfi við fulltrúa þriðja geirans í hópnum. Vinnuhópurinn hafi meðal annars séð fyrir, þá þegar í mars 2009, að meðaltekjufólkið væri í mikilli áhættu og benti stjórnvöldum á að huga strax að úrræðum fyrir þann hóp skuldara. Stella er reiðubúin til að starfa áfram með hópnum en vill gjarnan að einhver annar taki við formennsku hans. Verkefnið framundan er meðal annars að fara yfir úrræðin, benda á hvað megi betur fara og leggja mat á stöðuna.

Félagsvísahópurinn: Margrét greindi frá því að starfsmaður félagsvísahópsins hafi ekki skilað þeim verkefnum sem honum voru falin.Nauðsynlegt sé að stofna bakhóp með fulltrúum þeirra stofnana sem geti lagt fram gögn svo leggja megi grunn að félagsvísum á Íslandi. Eftirtaldar stofnanir voru nefndar: Hagstofan, Vinnumálastofnun (Karl Sigurðsson), Landlæknisembættið, Tryggingastofnun ríkisins og Velferðarsvið Reykjavíkurborgar (Guðmundur). Fulltrúar í stýrihópnum gætu aðstoðað við að koma þessum tengslum á eftir því sem við á.

Grunnþjónustuhópurinn sendi frá sér skýrslu með tillögum til stjórnvalda á síðastliðnu ári, en þarf að ljúka verki sínu og vinna upp gátlista fyrir stjórnvöld sem þau geta notað við forgangsröðun verkefna á tímum kreppu sagði Lára.

Rætt var um að stofna nýjan hóp með heitinu lýðheilsuhópur í stað hópsins um heilsufar og kreppu.

 

Í almennri umræðu í framhaldi af greiningu á starfi hópanna kom fram að mikilvægt væri að hóparnir skilgreini og tímasetji verkefni sín og til greina kæmi að stofna hópa til ákveðins tíma.

Fundargerð ritaði Ingibjörg Broddadóttir.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum